21.2.2007 | 16:17
21. febrúar 2007
Það hefur lengi staðið til hjá mér að setja upp bloggsíðu, ekki síst vegna þess að ég er búsettur erlendis. Þannig get ég auðveldað vinum, vandamönnumog áhugasömum heima fyrir að fylgjast með því hvað maður hefur fyrir stafni hér í Litháen, en þar er ég einmitt búsettur að mestu, þó svo ég haldi auðvitað heimili líka á Íslandi. Ég vona að mér endist tími og nenna til að skrifa eitthvað um líf mitt hér. Og ef svo, að það verði eitthvað sem fólk nennir að lesa.
Dagurinn í dag er er sérstakur mér fyrir þær sakir að Örn Arndal bróðir minn fæddist þennan dag fyrir 39 árum. Honum entist ekki lengra líf en 22 ár. Einn þeirra sem missa trúna á samfélagið og gefast þess vegna upp. Mér finnst við hæfi að minnast bróður míns með því að ræða lítillega um þessa hluti.
Aðgát skal höfð í nærveru sálar segir í ljóði Einars Benediktssonar, Einræðum Starkaðar.
Össi var afar barngóður, örlátur, vildi öllum mjög vel og kannski var það einmitt mergurinn málsins, hann elskaði sjálfan sig ekki nógu mikið, en hina miklu meira. Hann var svolítill Stuðmaður í sér, tók lífinu svona passlega alvarlega en átt í sér sínar hugsjónir og sína drauma. Elskaði börnin okkar systkinanna sem sín eigin. En svo fór sem fór, einn daginn var hann bara farinn. Hann fann ekki þetta fína töts sem við hin finnum og vöknum fyrir á morgnana. Samfélagið brást honum ungum og það markaði sár sem ekki gréru.
Mér er hugsað til þessara barna sem gistu Breiðuvík, Upptökuheimilið og aðra þá staði sem átti að gera þessum börnum gott, að mestu greinilega til að herða þau. Góður maður sagði við mig; Ég þekki ekki fullorðið fólk. Ég þekki bara gömul börn. Og; Mikill er sá er varðveitir barnshugann sagði Konfúsíus.
Ekki veit ég hvað þessir Breiðavíkurdrengir vilja varðveita frá barnæsku sinni ef einhver var, því eftir lýsingunum að dæma var hún líklega rænd þeim af fólki sem kannski taldi sig vera að gera rétt. Meðölin á þessum tíma voru önnur. Þá þekktist ekki að greina ofvirkni, asberger eða hvað annað. Þetta hét allt bölvuð óþekkt og börnin voru bölvaðar ótuktir.
Nú er öldin önnur, nú eru gefin lyf og börnin fá jafnvel aðstoðarmann í kennslustundir í skólum ef þau eru mjög erfið.
Æska þessara Breiðavíkurbarna verður þeim mörkuð alla ævi. Og það sem gerir málið verra að mínu mati; Þeim var talin trú um að þau væru slæm börn. Og kannski hafa þau trúað því til þessa dags.
Ég ímynda mér því að þeirra stærsta sáluhjálp í dag sé sú að þessi börn, sem nú eru menn, fái það á hreint að þeir voru aldrei slæm börn. -En, þeir urðu allt of margir ógæfumenn.
Og sökin er samfélagsins.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.