26.2.2007 | 15:38
Vorar í Vilnius...
Jæja, góð en róleg helgi að baki. Fór á föstudagskvöldið á Robbie Williams tónleika sem reyndar voru sungnir af Mantas sem er upprennandi stjarna hér. Húsfyllir og mikil stemning. Hér skemmtir fólk sér jafnan af mikilli innlifun, enda notar fólk hér hvert tækifæri til þess að koma saman og gera sér glaðan dag. Hér halda t.d. allir upp á afmæli sín og bjóða vinum að fagna með sér. Gildir þá einu hvort um er að ræða heilan eða hálfan tug eða allt þar á milli.
Það er farið að örla fyrir smá vori í lofti, kannski er það bara inni í mér. Rétt eins og vetur hér getur farið í -35, þá fer sumarið í +35. Svo, sumar hér er kærkomið, kannski kærkomnara fyrir bragðið.
Laugardagurinn var nýttur í að fara með þá pilta Rolandas og Kostas til að gera þeim glaðan dag. Þeir eru munaðarlausir 9 ára efnispiltar sem búa í ABC barnaþorpi hér í Vilnius. Starf þessarar hjálparstofnunar ABC barnaþorp er afar göfugt og mjög vel um börnin hugsað. Armina er stuðningsforeldri þessara tveggja pilta. Af og til þá tökum við þá til að spilla þeim eilítið, þ.e. fara með þá í keilu, bowling í bíó eða annað sem gleður þá. Og þeir kunna að þakka fyrir þig.
Laugardagskvöldið var afar rólegt, var kominn í háttinn fyrir miðnætti. Undanfarið hafa stjórnmálamenn í bæjarpólitík reynt án árangurs að vekja áhuga fólks á borgarstjórnarkosningum sem fram fóru í gær. Aðeins var búist við um 20% kjörsókn sem teljast verður afar dræmt. Ástæða áhugaleysis má rekja til mikillar umræðu um spillingu stjórnmálamanna, en meðal annarra þá hefur borgarstjórinn mátt sækja aðför í dómsal vegna mútuþægni þar sem lögð voru fram skjöl sem sýndu ótvírætt fram á móttöku fjár. Fólk virðist hafa misst trúna á stjórnmálamönnum.
Það kemur manni mjög á óvart í landi sem þessu, sem býr við svo ungt lýðsræði, en Litháar fengu sjálfstæði sitt árið 1991 eftir frækilega frammistöðu á móti Rússum sem skilaði þeim árangri sem önnur Sovétlýðveldi nýttu sér í kjölfarið.
Og auðvitað vorum það við Íslendingar sem urðum fyrst þjóða til að viðurkenna sjálfstæði Litháa, en færri sögur fara af góðri frammistöðu Jóns Baldvins sem þá var utanríkisráðherra og hafði talað máli Eystrasaltsríkjanna á alþjóðavettvangi um nokkurra mánaða skeið. Gekk jafnvel svo langt að húðskamma þjóðir úr ræðustóli fyrir að aðhafast ekki neitt á meðan þessar þjóðir börðust fyrir sjálfstæði sínu.
Ég bý að því að vera Íslendingur hér. Við njótum velvildar, sérstaklega hjá þeirri kynslóð sem barðist á sínum tíma fyrir frelsinu. Og oft fæ ég gott orð í eyra fyrir þjóðerni mitt.
En frá þvi ég kom hér fyrst, þá hef ég aldrei verið stoltari en í gær. Ég lét loks verða af því að fara og skoða KGB safnið hér í Vilnius. Stoltur, vegna þess að tilheyra þeirri þjóð sem átti þátt í að leysa Litháa undan þeirri þjáningu sem þeir bjuggu við ;
Sá hryllingur sem mætti manni þar var eitthvað sem manni líður seint úr minni. Hér getur að líta mynd úr klefa sem bólstraður var á alla kanta, algjörlega hljóðeinangraður. Þarna voru menn pyntaðir, svo illa að margir lifðu ekki af. Menn voru niðurlægðir á allan þann máta sem hugsast gat, eða; á þann hátt sem engum getur í raun látið sér detta í hug. Og, allt vegna stjórnmálaskoðana sem oft voru upplognar á þig svo aðrir nytu friðþægingar af þessum illu öflum. Njósnað var um allt. Ótrúlegasta fólk njósnaði um nágrannana og fjöldi manns vann við símahleranir sem oft leiddu til handtöku af minnstu ástæðu. Utan á húsinu eru nöfn nokkurra þeirra sem létu lífið í baráttu sinni fyrir málstað þjóðarinnar, eða kannski bara fyrir upplognar sakir nágrannanna...
Að aðeins skuli vera liðin 15 ár síðan er erfitt að ímynda sér. Eða að sjá myndir af þeim brottflutningum til Síberíu sem áttu sér stað í seinni heimstyrjöldinni þar sem 120.000 manns þar af rúmlega 20.000 börn voru flutt í gripalestum í kuldann í Síberíu. Fólkinu var smalað í lestirnar, 30-40 manns þar sem rúmast áttu að geta 12 manns. Fólk mátti bíða dögum saman eftir brottför í vögnunum sem ekki voru kyntir, engin klósett og þeir sem létust úr kulda voru ekki einu sinni fjarlægðir. Svo hófst ferðalagið. Margir létu lífið á leiðinni og náðu aldrei leiðarenda.
Um 20.000 manns entust líf og heilsa til að snúa aftur til Litháen. En þar beið ekki mikið betra, því eignir þeirra höfðu verið gerðar upptækar, fólkið fékk ekki vinnu, þannig að fjölmargir héldu til annarra landa í leit að betri lífsgæðum. Í dag búa t.d. um 1 milljón Litháa í USA. Og nokkur hundruð þúsund búa í Írlandi.
Ferð í KGB safnið er eitthvað sem ég hef frestað ítrekað af þeirri ástæðu að það sem ég hef heyrt um safnið sem er í óbreyttri mynd hefur hrellt mig. Og, það er full ástæða til að hrellast.
En í dag skil ég betur hvers vegna fólk hér notar öll tækifæri, hversu lítil sem þau kunna að vera til þess að koma saman og gleðjast.
Litháar hafa ástæðu.
Athugasemdir
Takk fyrir kveðjuna pabbi
En já, það má með sanni segja að þetta safn hrelli fólk. Átakanlegt að koma þar inn og horfa upp á allt það sem fólk hafði mátt þola þarna inni. Ekki að ástæðu lausu sem Armina furðaði sig á því að við hefðum áhuga á að skoða KGB safnið.
Díana Björk Eyþórsdóttir (IP-tala skráð) 26.2.2007 kl. 18:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.