27.2.2007 | 13:06
Álver, verður eða fer...
Af þeim byggðakjörnum sem mynda höfuðborgarsvæðið, þá hef ég alltaf haft þá tilfinningu fyrir Hafnarfirði að hann sé það bæjarfélag sem líkastur hefur verið þorpi. Með jákvæðum hætti. Þá á ég við að Hafnfirðingar standa alla jafna vel saman og sjálfsímynd þeirra er sterk. Bæjarfélagið stendur á ákaflega fallegu bæjarstæði og þar er friðsælt. Þetta er eitt þeirra bæjarfélaga sem hafa frá örófi verið afar tengt sjávarútvegi. Enn má þar t.d. finna mjög sterk sjávarútvegsfyrirtæki.
Sjálfir áttu þeir bæjarútgerð sem leið undir lok, ef ég man rétt þá var það Jóhann Bergþórsson í Hagvirki sem stóð fyrir uppkaupum á þeim eignum sem eftir stóðu í útgerðinni, en þar horfði hann í framsýni til þeirra gríðarverðmiklu lóða sem félagið átti. Þar hafa gömlu byggingarnar verið rifnar og í stað þeirra rís nú íbúðarbyggð á gamla hafnarsvæðinu með glæsilegu sjávarútsýni.
En Hafnfirðingar hafa lengi átt annað sem þeir hafa verið öfundaðir af, Álverið. Ég man þá tíð að slegist var um atvinnu í álverinu. Þeir sem þar unnu voru forréttindamenn. Á milli Hafnarfjarðar og álvers var samasemmerki. Sem þáverandi forstjóri var Roth vinsæll, hann var alþýðumaður í eðli sínu og vann MEÐ fólkinu en ekki YFIR því. Þetta skapaði þægilegan vinnuanda sem gerði starf í álverinu enn eftirsóttara. Og, Roth var sanngjarn. Þannig bjó hann til reglu sem gekk út á það að ef menn næðu ákveðnum starfsaldri í fyrirtækinu, þá áunnu þeir sér rétt til hærri eftirlauna. Sjálfsagt hefur Roth horft til þess að auðvitað er engum hollt að vinna á slíkum stað og því rétt að umbuna þeim sem héldu út slíka vinnu.
Nú bregður svo við að undir stjórn núverandi forstjóra þá er þessi sanngjarna reikniregla farin að vinna á móti mönnum. Þeir sem ná háum starfsaldri, svo háum að þeir eru farnir að eygja möguleikann á að sjá þessa eftirlaunapremíu geta átt von á uppsögn. Það hefur nú ítrekað gerst að menn hafa misst vinnuna á versta tíma, eða á þeim tíma sem eftirlaunaréttindasöfnun er mikilvægust. Í lok starfsævinnar.
Þessi smáhagsmunagæsla hefur kostað álverið stóran hluta af þeirri ímynd sem fyrirtækið átti, á versta tíma fyrir álverið. Og þeir menn sem sagt var upp, þeir eru þekktir Hafnfirðingar. Úps! slæmt og klaufalegt. En, svo var reynt að plástra upp í sárin með að bjóða Hafnirðingum upp á ókeypis flugeldasýningu á gamlárskvöld, svo var gefinn diskurinn með Björgvin Halldórssyni til allra Hafnfirðinga og þegar greinilegt var að þetta gekk ekki í fólk, þá kom lokaútspil í baráttu fyrir stækkun álversins; Því verður bara lokað ef menn samþykkja ekki stækkun.
Mjög líklegt. Reyndar bara fyndið að slíkar yfirlýsingar séu gefnar út af fullorðnu fólki út af máli af slíkri stærðargráðu.
Forstjórinn er ekki í takti við fyrirtæki sitt. Og Hafnfirðingar verða ekki keyptir.
Álverið í Straumsvík er eins mikill Hafnfirðingur og Ottó gamli Wathne flöskukaupmaður var. Og Hafnfirðingar standa saman.
Álverið passar sig sjálft. Hvort það framleiðir svona mikið eða svona mikið er kannski ekki aðalatriði.
Álver eða ekki álver er meginmál.
Vandinn liggur í stjórnuninni. Mál er að skipta út forstjóranum. Mér dettur í hug að nýr forstjóri gæti verið gegnheill Hafnfirðingur, félagslega sinnaður og heiðarlegur.
Einn fárra eða kannski sá eini sem sagt hefur af sér ráðherradómi til að axla ábyrgð......
Guðmundur Árni Stefánsson.
Athugasemdir
Tær snilld >> þessar hugrenningar þínar Eyþór og alveg pottþétt að frostið þarna kælir ekki niður heilasellurnar
Kveðja
úr hitanum Kristján Hoffmann
KH (IP-tala skráð) 27.2.2007 kl. 15:54
Sæll og blessaður Eyþór
gaman að heyra frá þér og að þú hefur það gott, alltaf spennanki að takast á við öðru vísi verkefni og umhverfi. Núna er Hafnarfjörður vissulega með fallegustu bæjum á landinu en það mundi breytast með tilkomu risa álvers innan bæjarmarkanna, nóg er nú um þetta sem er núna komið inn í byggð þessa litla bæjar.
kær kveðja Karlotta
karlotta Sigríður (IP-tala skráð) 27.2.2007 kl. 20:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.