Norðurland á menningarlandakortinu

Upphaf tónlistarlífs á Íslandi á ekki rætur sínar í Reykjavík eins og margir kunn að halda heldur á landsbyggðinni. Þannig var t.d. fyrsti söngskóli á Íslandi stofnaður fyrir norðan, á Hólum í Hjaltadal árið 1107, eða fyrir 900 árum.

Draumur rætist á Dalvík...
Norðlendingar hafa löngum verið menningarlega sinnaðir í mörgu tilliti, en söngur hefur lengi verið í öndvegi hjá þeim.  Þannig áttu þeir t.d. þann karlakór sem fyrstur reisti erlendis, en það var Karlakórinn Hekla sem fór utan árið 1905. Rætur söngs á Íslandi hafa lengi verið sagðar liggja við Eyjafjörð. Pétur Guðjohnsen sem kallaður var faðir söngs á Fróni fæddist 1812 í Hrafnagili, en hann var sá maður sem fyrstur innleiddi fjórradda söng á Íslandi. Það gerði hann þá hann var organisti við Dómkirkjuna í Reykjavík, en því hlutverki gegndi hann fyrstur manna. Hann varð fyrstur til þess að þjálfa menn upp í fjórradda söng, en áður hafði þjóðin söngur þjóðarinnar verið bundinn að mestu við fimmundasöng, einsöng eða tvísöng.
Fram að þeim tíma sem söngur þjóðarinnar tók slíkum framförum, þá voru tónbókmenntir Íslendinga ekki flóknar. Árið 1594 var prentuð sálmabók sem kölluð var Grallarinn (Graduale). Á þessa sálmabók söng þjóðin allt til ársins 1802 þegar Magnús Stephensen á Leirá prentaði nýja sálmabók. Við útgáfu hennar brugðust margir ókvæða við; hvað er maðurinn að vilja með nýja sálmabók, þegar sú gamla hefur dugað okkur í yfir 200 ár? Að þjóðin hafi að mestu sungið á eina sálmabók í yfir tvær aldir segir sitt um þá einangrun sem við bjuggum við.  Ég sæji okkur í dag hafa eina söngbók sem við ættum að styðjast við eingöngu til ársins 2207!!

Pétur Guðjohnsen var því mikill frumkvöðull í starfi sínu. Þrátt fyrir að eiga 13 börn og búa við fátækt alla ævi, þá gaf hann aldrei eftir í hugsjón sinni þegar tónlist var annar vegar. Hvern dag að lokinni vinnu sat hann og hlúði að þessari hugsjón sinni: að þróa tónlistarlíf þjóðarinnar. Það mun svo hafa verið við í lok apríl 1848 sem fjórradda söngur ómaði fyrst, þar sungu skólapiltar í Dómkirkjunni við sorgarathöfn vegna andláts Kristjáns áttunda.

Pétur kenndi síðar tónlist. Þannig var Sveinbjörn Sveinbjörnsson einn nemenda Péturs, en lofsöngur hans, var einmitt frumfluttur á heimili Péturs að Suðurgötu 6 í Reykjavík.
Lofsöngurinn var aldrei saminn til að verða þjóðsöngur íslendinga eftir því sem ég kemst næst, heldur var hann tekinn upp af íþróttafélögum sem hófu að flytja hann í upphafi leikja. Þannig komst hefð á þetta tónverk sem síðar varð þjóðsöngur okkar.
Þætti Péturs Guðjohnsen í tónlistarlífi okkar verður aldrei of minnst.

Það er ekki hægt að skilja svo við Eyjafjörð þegar menning er annars vegar öðruvísi en að minnast á skáldið Davíð Stefánsson frá Fagraskógi. Fagriskógur er afar fallegt og vel hirt býli sem ekið er framhjá á leið til Dalvíkur. Sú arfleifð sem Davíð Stefánsson skildi við sig verður seint metin til fjár. Davíð var jafnan talinn til alþýðuskálda enda er skáldskapur hans í senn rómantískur og auðskilinn.

Fjölda annara listamanna og tónlistarflytjenda má minnast frá Norðurlandi og úr Eyjafirði, en rétt er að koma sér að kjarna málsins; Menningarhús á Dalvík. Eftir frábært rekstrarár hefur Sparisjóður Svarfdælinga ákveðið að leggja 200 milljónir af þeim 900 sem sjóðnum græddust árið 2006 til byggingar menningarhúss sem ekki skal minna en 700 fm! Þetta finnst mér frábærar fréttir. Ef Glitnir myndi t.d. leggja sömu fjárhæð til menningarmála þá væri sú upphæð átta komma fjórir milljarðar!

Fram til þessa hafa Dalvíkingar að mestu orðið að styðjast við kirkju sína til margvíslegra uppákoma, svo sem tónleika o.þ.h., þó auðvitað sé í önnur hús að venda t.d. Húsabakkaskóla.

Dalvíkingar eru sannir víkingar. Og Svarfdælingar eru stórskemmtilegt fólk, algjörir sagnabrunnar. En menningarstig Svarfdælinga er hátt. Þar starfar Karlakór Dalvíkinga af miklum þrótti, kór sem gefur í engu eftir þegar um er að ræða gæði söngs eða metnað í lagavali. Og margir þekkja Tjarnarkvartettinn. Eflaust á Dalvík margt fleira þegar kemur að menningu. En áræði þeirra og gestrisni endurspeglast vel í hinum árlega fiskidegi þar sem þúsundir gesta njóta alls hins besta sem íslenskt sjávarfang bíður upp á.
Stórhuga þeir Dalvíkingar, sumir þeirra hafa líka verið stórir, og enn aðrir einfaldlega stærstir eins og Jóhann Svarfdælingur.
Hugsa stórt. Það er málið..  Til hamingju Svarfdælingar!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Bíð spennt eftir færslu frá Atlanta og hressandi myndum!

MissYou!

Díana Björk Eyþórsdóttir (IP-tala skráð) 4.3.2007 kl. 22:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband