13.3.2007 | 12:34
Vísitala neysluverðs og Vilnius
Í gær var það gefið út að vísitala neysluverðs lækkaði lítillega milli mánaða eða um 0,04% og mælist nú 266,1 stig.
Mikið er nú ánægjulegt að lesa þetta. Gríðarlega góðar fréttir fyrir landann, nú lækka lánin lítillega, kannski varla mælanlega, en samt..
Nú var verið að gefa það út að lán muni SAMT ekki lækka, þrátt fyrir þessa lækkun vísitölunnar.
Þessi vísitala er náttúrulega ekkert nema ósanngirni.
Ef gúrkan hækkar úti í búð, þá hækkar vísitala neysluverðs sem þýðir að lánið á íbúðinni þinni og bílnum þínum hækkar og eign þín minnkar að sama skapi.
Ósanngjarnt.
Alveg sama hvernig á það er litið.
Það er hagur allra að nýleg lækkun virðisaukaskatts skili sér til neytenda þar sem hún hefur verið lækkuð, enda á lækkunin að draga úr verðbólgu/visitölu neysluverðs.
Hverra hagsmunir eru varðir með þessari vísitölu? Bankanna? Þeir græddu ekki nema 138.000.000.000 á síðasta ári. 138 milljarðar eru miklir peningar. Ef þeim er deilt niður á 170.000 vinnandi manns í landinu þá gerir það 800.000 kr á mann!!! Bankarnir högnuðust um tæpa milljón á hvern vinnandi mann!
Ok, þetta voru bara bankarnir 4, ótaldir eru aðrir sjóðir.
Ég velti því fyrir mér hvernig þetta er hægt. Ég er þess fullviss að hvergi í heiminum þekkist annar eins gróði banka per hvern vinnandi mann.
Ég las það í Wall Street Journal um daginn að um nú nýlega lánuðu Japönsku bankarnir peninga á 0% vöxtum, en vextir þar hafa um all langa hríð ekki náð 1 prósenti. Þetta hafa íslensku bankarnir nýtt sér, en þessi góðu kjör þeirra hafa ekki skilað sér til neytenda á Íslandi, enda vextir gríðarlega háir. Ekki skrýtið að þeir græði. Nýlega kom svo í ljós í könnun að íslensku bankarnir sem nú starfa víða um Norðurlönd eru að lána á allt öðrum kjörum í öðrum viðskiptalöndum sínum en heima á Íslandi.
Ég hef oft velt því fyrir mér hvers vegna í ósköpunum íslensk verkalýðsforysta hefur aldrei sett í öndvegi baráttu fyrir afnámi vístölu neysluverðs eða lánskjaravísitölunnar meðan hún var og hét?
Vísitölutryggð lán á sama tíma og laun eru ekki verðtryggð er atlaga að mannréttindum.
Getur það verið að verkalýðsforystan taki ekki á þessu máli af þeirri ástæðu að verkalýðsfélögin sitja á stærstu sjóðunum?
Hvernig er þetta hér í Vilnius?
Hér eru húsnæðislán ekki verðtryggð. Hér eru vextir um 4% á húsnæðislánum. Sjálfur tók ég íbúðalán hér fyrir tæpum tveimur árum. Þegar ég tók lánið fékk ég yfirlit í hendur yfir greiðslur af láninu til næstu 20 ára. Þar kemur skýrt fram hvað lánið lækkar um hver mánaðarmót og ég get séð hvað ég þarf að borga af láninu á hverjum tíma til loka þess.
En, þetta er ekki hægt heima á Fróni. Hagkerfi sem telur 300.000 manns, þar af 170.000 vinnandi, ræður ekki við slíkt.
Og maður spyr sig hverra hagsmunum er verið að þjóna?
Athugasemdir
vísitala bísitala þetta er bara allt ósanngjarn og alltaf verið að svindla á okkur hérna á skerinu hækkanir eða lækkanir það er allvega alveg pottþétt að ef einhver lækkun skilar sér til neytenda þá kemur bara hækkun einhversstaðar annarsstaðar til að jafna þetta út.
Hafðu það sem best :) Lilja
Lilja (IP-tala skráð) 16.3.2007 kl. 11:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.