14.3.2007 | 16:08
Vestfirðir
Enn og aftur er komin af stað umræða um byggðamál á Vestfjörðum. Ríkisstjórnin búin að stilla upp nefnd til þess að fjalla um málið og leita úrlausna.
Auðvitað er rétt að fjallað sé um málið, en ég held að umræðan hljóti að eiga að fara fram í héraðinu sjálfu. Lausnin sem kemur annars staðar frá verður að mínu mati ekki varanleg.
Vestfirðir hafa ítrekað verið til umfjöllunar vegna vanda í atvinnumálum. Sjávarútvegur hefur lengst af verið undirstaða atvinnulífs á Vestfjörðum, en með tilkomu kvótakerfisins hefur skapast vandi á þessum slóðum. Ekki það, að fyrir tilkomu kvótakerfisins var alltaf vandi til staðar, minnistæðar eru umfjallanir um Bolungarvík, Patreksfjörð, Bíldudal og fleiri staði.
Kvótakerfið er einn þáttur í minnkandi atvinnutækifærum á landsbyggðinni, annar þáttur er verkun afla um borð í skipunum og svo auðvitað tilfærsla á aflaheimildum milli landshluta.
Þetta er frjálst á sama tíma og við erum með Samkeppnisstofnun sem á að sjá til þess að ekki verði til of mikill samruni á eignarhaldi á fyrirtækjum í svipuðum rekstri. Samruni sem oftast er til þess fallinn að tryggja rekstur viðkomandi fyrirtækja en ekki endilega flutning þeirra milli landshluta.
Vald þessarar stofnunar er mikið og umdeilt.
En uppkaup á kvóta sem oft er undirstaða atvinnulífs víða um land eru algjörlega frjáls! Maður í Grímsey getur selt kvóta sinn til Suðurnesja og eytt peningunum t.d. í að kaupa sér húsagnaverslun á mölinni.. Eftir sitja fjölskyldur sem byggðu afkomu sína á aflaheimildunum. Að mínu mati mun alvarlegra en samruni fyrirtækja.
Ekki verður lögum um eignarhald á kvóta breytt úr þessu, en spurning er um hvort hægt sé að fara aðra leið. Fyrir alþingiskosningar 1987 var uppi umræða um tilhögun á löndun afla, þannig að settir yrðu upp lykilfiskmarkaðir á landsbyggðinni, sem tækju við afla til verkunar í landi. Þannig yrðu skip að tilkynna um afla sinn og yrði síðan ráðstafað löndunarstað eftir því hvar þörfin lægi.
Með þessu væri hægt að nýta kvóta til atvinnuuppbyggingar.
Fyrst til er samkeppnisstofnun í landi, af hverju má hún ekki líka vera til sjós?
Hlutverk´Fiskisamkeppnisstofnunar' yrði að sjá til þessa að afla til vinnslu í landi yrði ráðstafað þar sem hans er þörf.
Hvort þetta er gerlegt eða ekki er ekki gott um að segja. Vandinn er mikill og lausnirnar kannski ekki margar.
Ég held að í málum sem byggðavanda Vestfirðinga sé ekki nóg að horfa til næstu 10-15 ára. Menn verða að horfa lengra fram í tímann þegar úrlausna er leitað.
Nýlega var gefin út skýrsla um þróun veðurfars í heiminum á næstu áratugum.
Skýrslan tekur mið af veðurfarsbreytingum undanfarna áratugi. Í ljós kemur að víða um heim verður erfitt að byggja land sökum vaxandi hita. Ísland kemur mjög vel út úr þessari skýrslu, en spáin er sú að vegna hækkunar á hitastigi hér sem ekki var hátt fyrir, þá muni fjöldi fólks vilj flytja búferlum til Íslands. Er talað um allt að tíföldun íbúafjölda landsins á næstu 30-50 árum.
Ef þetta er rétt, þá er okkur mjög vaxandi vandi á höndum ef við eigum að bera ábyrgðina á að finna atvinnu fyrir það fólk. Nefndir ríkisstjórnarinnar eig því mikið verk fyrir höndum í framtíðinni, að taka inn í sína útreikninga allan þann fjölda innflytjenda sem til Íslands eiga eftir að flytja á næstu árum og áratugum..
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.