16.3.2007 | 16:08
Baltasar með Pétri Gaut til Litháen
Varanlegur auður þinn verður aldrei meiri en breytni þín í lífinu segir til um segir einhvers staðar.
Við Íslendingar eigum skáld og við eigum athafnaskáld. Ekki marga sem hafa verið hvort tveggja, en líklega er Einar Benediktsson sá sem helst getur sameinað þessi tvö hugtök. Stórar hugmyndir og mikil framsýni einkenndu starfsævi hans, en einnig litrík ævi. Þannig gat honum borist mjög á, átt mikla peninga, en sögur segja að honum hafi líka verið gefið að berast á þótt svo litlir eða engir peningar hafi verið til.
En þetta ríkidæmi hans og veglegur lífsstíll kenndi honum margt. Ef lesið er í gegnum ljóðin hans, þá skín í gegnum þau þessi lífssýn, að peningar eru ekki allt.
Mér hefur alltaf þótt vænt um þessar línur úr Einræðum starkaðar;
En mundu þótt veröld sé hjartahörð,
þótt hrokinn sigri og rétturinn víki,
að bölið sem aldrei fékk uppreisn á jörð,
var auðlegð á vöxtum í Guðanna ríki.
Og þegar skáldið var orðið mjög aldurshnigið í Herdísarvík, þá var þetta sagt vera einn hans síðasti skáldskapur. Segja má að ljóð hans flest endurspeglist í þessum fjórum línum:
Gengi er valt þá fé er falt,
fagna skaltu í hljóði.
Hitt varð alltaf hundraðfalt
sem hjartað galt úr sjóði.
Einar Ben gerði margt um ævina, kannski of margt, hann var umdeildur. En, spyrja má; hvers vegna verða menn umdeildir? Og; er slæmt að vera umdeildur?
Er það ekki einfaldlega svo að menn verða umdeildir af því þeir láta til skarar skríða?
Til er máltæki sem segir á ensku: If you have never failed anything, you have never done anything.
Þessum orðum er ekki beint gegn Einari Ben. Þvert á móti. Margar og kannski flestar hugmyndir hans urðu ekki að veruleika. Eins gott með þær sumar, en framsýnar voru þær.
En sú mikla arfleifð sem hann skildi eftir sig lifir enn. Nú var ég að lesa það í Mbl., að Baltasar Kormákur hefur tekið að sér að leikstýra Pétri Gaut í Þjóðleikhúsi þeirra Litháa. Þetta er miklar fréttir fyrir mér. Slíkt menningarsamstarf er gríðarlega mikils virði fyrir okkur. Það segir okkur einnig, enn og aftur hversu metinn Baltasar er orðinn. Litháar eru gríðarlega mikið menningarfólk. Hér eru mörg leikhús sem öll eru vel sótt, sýningar ganga vikum og mánuðum saman.
Ég man hvað ég var hissa þegar ég heyrði að mynd Lars Von Tirer, Dancer in the dark var sýnd hér um langa hríð og ég hef hitt fólk sem hefur séð hana þrisvar.
Litháar eru alvörugefið og hugsandi fólk. Hér í þessu landi er að finna tvisvar sinnum fleira fólk með æðri menntun en í öðrum Evrópulöndum, MBA og hærra.
Að segja Litháa brandara getur verið nokkur áhætta. Þú verður að vera undir það búinn að mæta alvörugefnu andliti sem ekki stekkur bros en vill fá útskýringar á hlutunum.
En sértu léttlyndur, brosmildur og tala nú ekki um söngglaður, þá áttu athygli þeirra alla.
Þessi þjóð á nefnilega eftir að hrista af sér drunga liðinna áratuga. Saga þeirra er mörkuð djúpum sárum sem taka mun kynslóðir að má yfir ef einhvern tíma verður hægt.
Þegar Einar Benediktsson þýddi Pétur Gaut á sínum tíma, var það honum ekki auðvelt. Verkið var mjög erfitt í þýðingu og hann tók sér hvíldir við þýðinguna. Ef ég man rétt þá tók þýðing þess hann marga mánuði.
Nú er Pétur Gautur nýju lífi glæddur, og orðinn vinsæll að nýju. Farinn að ferðast um heiminn í fylgd fremstu leikstjóra heims.
Þessu ber að fagna.
Þetta er varanlegur auður.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.