Kynferðis- og fötlunarbrot

Nú hefur fundum Alþingis verið frestað fram á sumar og eins og oft áður, þá verða til lög á færibandi á síðasta degi.
Vinnubrögðin síðustu daga fyrir þinghlé minna oft á tómatsósuflöskuna..

En, margt gott er gert, og ekki skal lítið úr gert.

Mikið er gert úr lögum um fyrningarfrest kynferðisafbrota, að alvarleg kynferðisafbrot fyrnist ekki. Mjög gott mál. 
Skyldu heyrnalausir hafa fengið sín mannréttindi í gegn? Að mál þeirra táknmálið hafi öðlast viðurkenningu sem fyrsta tungumál þeirra fyrir lögum?

Í Morgunblaðinu í dag er að finna stóra og greinargóða umfjöllun um málefni heyrnarlausra og þá meðferð sem þeir hafa mátt þola af hendi samfélagsins.
Málefni þeirra hafa verið til umfjöllunar áður og þá tengd stórkostlegri misnotkun á heyrnarlausum í Heyrnleysingjaskólanum, nokkuð sem þau máttu þola af hendi þeirra sem þau áttu að setja traust sitt á, kennurunum.

Við Íslendingar erum í uppgjörshug. Og er vel. Eftir umræðu um Byrgið kom umræða um Breiðuvík. Og eftir umræðu um Breiðuvík kom upp umræða um Bjargið. Og áfram heldur sagan, fleira á eftir að koma upp á yfirborðið.

Það er hreint sorglegt að lesa í Mbl. í dag hvað þetta fólk mátti þola. Meðan önnur börn byrjuðu í skóla 7 ára, þá máttu heyrnarlaus börn hefja skólagöngu sína 4 ára! Frá fjölskyldu sinni þvert yfir landið.

Og rökin var að finna í greinargerð með lögum sem sett voru árið 1962 og hljóma svo:

Flestum börnum þykir vænst um það barnið sem bágast á, og kemur ást þeirra á barninu oft fram í miklu eftirlæti, sem skaðar barnið og gerir það erfiðara viðfangs.

Þetta er náttúrulega bara fáránlegt. Þessi forsjárhyggja er dæmalaus. En það sem á eftir kom var mun verra. Eitt er að börnin voru sett í skóla 4 ára. En, hitt er öllu alvarlegra, þau fengu enga kennslu! Þau máttu læra á sömu bækurnar allt til 14 ára aldurs! Og ekki nóg með það, kennararnir kunnu sjálfir ekki táknmál. Í sumum tilfellum voru börnin send landshluta á milli til þess að sækja þetta dýrmæta nám fyrir sunnan. Í Reykjavík bjuggu þau svo á heimavist.

Táknmálið er líka annað mál. Táknmál var uppgötvað sem sérstakt tungumál árið 1960. Árið 1975 var það orðið viðurkennt á Norðurlöndum. Þrátt fyrir það, þá varð það ekki sýnilegt á Íslandi fyrr en upp úr 1986!
Heyrnarlausu börnin fengu í raun litla sem enga kennslu. Og staða þeirra margra í dag er eftir því. Þeim var sagt að þau væru baggi á þjóðfélaginu. 

Mig langar þó að nefna hér einn mann, sem er reyndar ekki samtíðamaður þess heyrnarlausa fólk sem hér er fjallað um. Hér er um að ræða Braga Ásgeirsson listamann. Þrátt fyrir nánast algjört heyrnarleysi sitt og að vera mjög illa fær um að gera sig skiljanlegan á talmáli, þá er hér um að ræða ritsnilling. Fáir standa honum á sporði í rituðu máli.
Sem listgagnrýnandi er hann einn okkar fremstu.

Lengi vel fengu heyrnarlausir aðeins 50% örorku, á meðan heyrnarskertir fengu 75%.
Sjálfsmynd heyrnarlausra er í mörgum tifellum brotin. Sálfræði- og ráðgjafarmeðferðir eru eitthvað sem sum þeirrra sækja í dag til þess að bæta sjálfsímyndina. Sem von er.
Bæði máttu þau þola kynferðislega misnotkun, litla sem enga menntun og síðar, höfnun samfélagsins þegar kemur að atvinnumálum. Dæmi eru um uppgjöf af þeirra hálfu af þeim sökum. Skal engan undra.

Nú vilja heyrnarlausir leiðréttingu mála sinna, og þau vilja uppgjör við samfélagið. Á því eiga þau svo sannarlega rétt. Ég vona að þeir sem ábyrgðina bera í dag bregðist ekki heyrnarlausum.

Frumvarp til laga um táknmál sem fyrsta tungumál heyrnarlausra, heyrnardaufra og sjónskertra hefur verið flutt þrisvar á Alþingi án afgreiðslu. Bíddu, eru það ekki mannréttindi???

Getur verið að við höfum hreinlega litið á heyrnarlausa sem hálfþroskahefta? Að heyrnarlausir og málhaltir hafi aldri notið sannmælis af þeirri einföldu ástæðu að við hin höfðum ekki vit á hlutunum sjálf?

Ég man eftir heyrnarlausum úr æsku minni. Þau voru fjarlæg, enda engir samskiptamöguleikar.

En ég man líka eftir málhöltum.

Og ég man að í sjónvarpinu þótti sjálfsagt að gera grín að þeim. Ég man eftir Ómari Ragnarssyni skemmtikrafti sem gerði út á það að gera grín að öðrum sem lágu vel við höggi. Þannig gerði hann sig fyndinn á kostnað Helga heitins Sæmundssonar.

Af þessari ástæðu hélt ég lengi að Helgi Sæmundsson væri skrýtinn karl. Helgi heitinn hvarf af sjónarsviðinu í marga áratugi. Fór a.m.k. lítið fyrir honum.

Seinna á lífsleiðinni átti ég þess kost að kynnast Helga heitnum lítillega. - En nægilega til þess að sjá að þar fór einn af mestu mönnum sinnar kynslóðar. Gríðarlega greindur, stórkostlega minnugur og algjör ræðusnillingur! - Þekking hans á íslenskunni, sögunni, ljóðum og hverju öðru var engu lík.

Ég kynntist honum í gegnum Karlakórinn Fóstbræður, en þar var Helgi heitinn heiðursfélagi. Sjálfum dreymdi honum um að syngja, en það var honum ekki unnt. En, hann gerði annað, hann skrifaði ljóð fyrir Fóstbræður sem tónsett var af ekki minna en fjórum tónskáldum.
Og, kórinn flutti á tónleikum þetta ljóð Helga, Blómarósir, við lög þessara fjóru tónskálda á einum og sömu tónleikunum.
Þannig söng Helgi í gegnum okkur Fóstbræður. 

Við höfum gert stór mistök. Við höfum brugðist minni máttar. Í dag höfum við góða þekkingu á málefnum þeirra sem minna mega sín. Þessa þekkingu eigum við að nýta til þess koma til móts við það fólk sem samfélagið brást á sínum tíma.
Mætum kröfum þeirra.

Við skulum viðurkenna að við brugðumst skyldum okkar, og það sem verra er, við gerðum þeim rangt til.


mbl.is Fundum Alþingis frestað fram á sumar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband