19.8.2007 | 10:02
Örlar að hausti..
Hér er farið að örla að hausti. Ekki það að farið sé að kólna, heldur verður maður var við að tré eru farin að fella lauf sín. Hitinn er nægur samt, var í Siauliai í fyrradag, þar stóð hitamælirinn í 30°.
Í Siuliai eru Íslendingar í atvinnurekstri, þar er Hampiðjan með dótturfyrirtæki sem vinna hundruðir manns.
Skammt frá er húsaverksmiðja sem ég er að láta smíða fyrir mig nokkur hús, fór að kíkja á gang mála, en húsið á að fara í skip eftir viku og rísa í Borgarnesi. Fyrst er húsið reist að mestu hér úti og svo tekið niður, sett í gám og því siglt heim.
Það lítur svona út í dag;
Skírnarveisla
Við Armina vorum boðin í skírnarveislu í gær, athöfnin byrjaði í Dómkirkjunni í Vilnius í gærmorgun kl. 10.30 með skírnarathöfninni sjálfri. Hér tíðkast að skírnarbarn eignist Guðföður og móður og halda þau á barninu undir skírn. Ábyrgð þeirra er ekki búin við það, enda eru þau nokkurs konar ''til vara'' foreldrar barnsins alla tíð eftir það. Ef foreldrar verða fyrir einhvers konar áföllum eða erfiðleikum, þá á barnið þessa foreldra til vara.
Athöfnin tók all nokkurn tíma, en létt var yfir henni, en presturinn, ungur maður hafði á takteinum hressandi innskot alla athöfnina.
Að athöfn lokinni var svo haldið í veisluna sjálfa, en hún var haldin á óðalssetri í eigu ömmu barnsins, staðsettu í þjóðgarði hér. Amma þessi er afar vel efnuð, enda hefur hún um áratuga skeið verið í fararbroddi í hönnun loðfatnaðar. Vörumerki hennar er þekkt um Evrópu og í Rússlandi eru jafnan biðraðir þegar hún mætir með nýtt ''Collection'' í búðir sínar. Nýríkir Rússar spyrja ekki um verð.
Auður þessarar konu leyndi sér ekki á landareign hennar. Öryggisverðir um allt, engar myndavélar leyfðar, allt starfslið, þjónar og hvað annað sem þurfti á staðnum.
Meira að segja lögreglubátur úti fyrir landareigninni..
Ég fékk þó leyfi frá pabbanum til að taka nokkrar myndir, hér er ein;
Skírnarveisla litla drengsins var afar íburðarmikil og greinilega engu til sparað. Gestir voru innan við 50, aðeins nánustu vinir og fjölskylda. Allt var skreytt, bláir borðar um allt, og hvergi til sparað í mat og drykk, í raun má segja að maður hafi verið að borða alla veisluna sem stóð frá kl. 13.00 og fram á miðnætti.
Landsfrægt tónlistarfólk og skemmtikraftar voru fólki til upplyftingar.
Sérlega skemmtilegur dagur, en af svona hóglífi má fá nóg, við vorum komin upp í rúm um ellefu í gærkvöld og sofnuðum út frá Friends...
Mér er það gleðiefni að sjá að vel selst í ferðir TerraNova hingað í október. Mæli með borgarferð hingað við hvern sem er. Falleg borg, frábærir veitingastaðir og gott skemmtanalíf.
Best að skella sér út í sólina.
Hafið það sem best!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.