10.12.2007 | 14:30
Sturla Erlendsson In memoriam
Í kvöld munu bræður mínir í Karlakórnum Fóstbræðrum minnast fallins félaga sem hvarf af sjónarsviði langt fyrir aldur fram í byrjun þessa árs. Hans skal nú minnst með tónleikum í Langholtskirkju.
Enn verð ég, fjarveru minnar vegna að vera fjarri og tekur það mig sárt. Því sest ég við að rita þessar fábrotnu línur og við skrifin læt ég þýða óma Fóstbræðra gefa tóninn..
Sturla Erlendsson var maður engum öðrum líkur. Hann sá aldrei tilveruna öðru vísi en með björtum augum og helst með gamansömu ívafi. Sem hagyrðingur góður varð honum allt að yrkisefni, en sem frábær sögumaður einnig, þá var hann sá maður sem allir hlýddu á þegar hann bað um orðið.
Og kostirnir voru fleiri. Miklu fleiri. Þeir eru ófáir textarnir sem hann samdi við hin ýmsu lög sem kórinn hafði flutt, þá gjarnan samdir út frá einhverju spaugilegu atviki.
Gamanvísur samdi hann sem fluttar voru á hátíðarstundum Fóstbræðra. Og þá lét ástkær eiginkona hans hún Þóra ekki sitt eftir liggja, söng með manni sínum.
Sem söngmaður í 2. bassa í Fóstbræðrum átti Sturla frábæran feril. Einsöngvari eða kórmaður, í hljómmikilli rödd hans var sterkur blær sem barst vel.
Tónvís með afbrigðum og félagi góður.
Sturla var hávaxinn og myndarlegur maður, beinskeyttur og hreinskilinn. Honum lá hátt rómur svo það fór ekki á milli mála ef hann var á staðnum. Beinskeytni hans og frábær húmor átti stóran þátt í að létta honum þá erfiðu baráttu sem hann háði við manninn með ljáinn, sú barátta var snörp og erfið. Svo erfið að von varð æ minni. En það bugaði á engan hátt þennan mikla mann. Hann hóf enn á ný að daðra við listagyðjuna. Hóf að mála myndir. Enn komu listrænir hæfileikar á óvart og ljóst að þar hefði hann átt enn einn feril ef lengri tími hefði gefist.
Hann lagði mikið á sig við þetta nýja áhugamál. Málaði margar myndir, enda var ekki skortur á kaupendum.
Og sem aðrir myndlistarmenn, þá hélt hann sýningu. Úti á Ægissíðu við grásleppuskúrana sem voru honum ríkur innblástur í myndverkum hans.
Fjöldi fólks lagði leið sína á sýninguna. Allt seldist upp, enda menningaviðburður. Félagar Sturlu úr Fóstbræðrum og Raddbandafélagi Reykjavíkur mættu að sjálfsögðu og tóku lagið.
Þessi dagur var Sturlu mikilvægur, enda hafði hann lagt mikið á sig við að koma öllu á, en auðvitað með hjálp góðs fólks. Ekki má gleyma öll því góða fólki sem hann hafði í kringum sig. Fjölskyldan öll stóð honum nærri og gerði hvað sem í þeirra valdi stóð til að létta honum lið.
En örlögum sínum ræður enginn. Sturla lést þann 5. janúar sl.
Það var heiður að eiga samleið með slíkum manni sem Sturlu. En það var líka skemmtilegt.
Þannig minnist ég hans.
Með brosi á vör.
P.S.
Ég leyfi mér að leyfa að fylgja síðasta bloggið hans Stulla, en sem fiskkaupmaður þá er honum hugsað til viðskiptavina sinna þennan dag, enda Þorláksmessan að fara í hönd.
Líður að tíðum
22. desember 2006 klukkan 06:17
Nú fer að líða að því að það líði að þessum dögum sem beðið hefur verið eftir, síðasti dagur fyrir hlandfisk messu með bragðlaukana alla í klessu . Hjá flestum síðasti vinnudagur fyrir jólahátíð nema kannski þeirra félaga minna í Fiskisögu Jörgens, Söndru og co. þau þurfa að afgreiða þessi ósköp yfir búðarborð og telja fólki trú um að þessi ónýti matur sé algert lostæti með úldnum vestfyrskum hnoðmör "oj bara" en maður lætur sig hafa það og smakkar. Svo reyna flestir sem því við kom að fara niður í bæ og grípa Guð í fótinn með undirbúninginn á hælunum. svo brestur á mikið dreifikerfi á aðfangadag að dreifa bögglum út um hvippinn og hvappinn og kanski kaupa þá síðustu á elleftu stundu, þá upphefst slagurinn við eldamennsku og átundirbúning.
Mikið vona ég að þetta fari nú allt vel fram og lukkist í hvívetna hjá ykkur öllum vinir mínir og venslamen og sendi hér með hjartans óskir um gleði á jólum og þakka þann stuðning sem þið hafið öll sýnt mér í þessu veseni mínu.
Nú fer bloggið í jólafrí fram yfir helgi (nema eitthvað sérstakt gerist fréttnæmt )
Gleðileg Jól til sjávar og sveita ,nær og fjær uppi og niðri út og í suðri Amen
Sturla Erlendsson
Athugasemdir
Samúðarkveðjur héðan að norðan. Syngjum með ykkur í huganum. kv. gb
Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 10.12.2007 kl. 14:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.