Sverrir Stormsker um Davíð, Steingrím J, Jóhönnu og þjóðina

ÞAÐ er undarlegt þetta samband milli þjóðarinnar og Davíðs Oddssonar, eða sambandsleysi  öllu heldur, og svo þetta ástarsamband milli þjóðarinnar og Steingríms J. Sigfússonar. Nokkur dæmi: Davíð vildi ekki sjá IMF. Þjóðin vildi sjá IMF en vildi ekki sjá Davíð. Í dag vill þjóðin ekki sjá IMF en ennþá síður Davíð. Þjóðin vildi sjá Steingrím J. en Steingrímur vildi ekki sjá IMF, ekki fyrr en þjóðin var búin að gera hann að ráðherra. Þá vildi hann sjá IMF. Þjóðin treystir samt ennþá Steingrími en hatar Davíð. Davíð vildi ekki sjá að allir hinir svokölluðu „frjálsu“ fjölmiðlar væru á einni og sömu hendi. Þjóðin  vildi hinsvegar ekki sjá neitt athugavert við það og túlkaði þetta sem geðillskukast og öfund í Davíð. Davíð vildi fjölmiðlafrumvarpið í gegn. Þjóðin vildi reka Davíð í gegn og vildi ekkert óþarfa fjölmiðlafrumvarp. Í dag vill þjóðin fjölmiðlafrumvarp.  Steingrímur vildi ekki og vill ekki sjá neitt fjölmiðlafrumvarp. Þjóðin treystir samt ennþá Steingrími en hatar Davíð. Davíð vildi ekki sjá Ólaf Ragnar. Meirihluti kjósenda vildi sjá Ólaf Ragnar og það aftur og aftur og aftur. Í dag er Ólafur uppgötvaður sem klappstýra útrásarvíkinganna  og enginn vill sjá hann. Þjóðin er þarna orðin sammála Davíð. Samt situr Ólafur ótruflaður (af þjóðinni) en Davíð er böggaður kvölds og morgna. Davíð var ekki par hrifinn af Baugi og útrásarloddurunum og var í raun eini maðurinn sem þorði að standa uppí hárinu á þeim. Þjóðin dýrkaði útrásarvíkingana og sagði að Davíð væri  vitfirringursem væri bara að reyna að hefna sín á þeim fyrir að hafa kyrkt Kolkrabbann. Í dag fyrirlítur þjóðin útrásardólgana. Bónus er hinsvegar ennþá vinsælasta verslunin, Samspillingin vinsælasti flokkurinn og Davíð óvinsælasti maðurinn. Davíð vildi ekki sjá það að greiða erlendar skuldir óreiðumanna. Baugsmiðlarnir bjuggu strax til hysteríu úr þessu og þjóðin lét teyma sig á eyrunum einsog venjulega og trylltist gjörsamlega líkt og hún vildi alveg hreint endilega fá að borga erlendar skuldir  óreiðumanna.  Í dag vill þjóðin ekki sjá það að borga erlendar skuldir óreiðumanna. Það vill hinsvegar Steingrímur J. þó hann hafi sagt annað fyrir kosningar. Þjóðin treystir samt áfram Steingrími en hatar Davíð. Jóhanna Sig. og „þjóðin“ öskruðu Davíð í burtu, eina manninn á landinu sem hafði roð í útrásarþjófana, og tróðu Steingrími í ráðherrastól, manni sem sagði fyrir kosningar að hann myndi láta elta gangsterana uppi hvar sem til þeirra næðist og láta frysta eigur þeirra en að sjálfsögðu hefur hann ekki efnt það frekar en nokkuð annað sem hann lofaði fyrir kosningar. Ekki eitt orð. Skjaldborgin sem hann og Jóhanna lofuðu t.d. að reisa um heimilin virðist eingöngu vera um þeirra eigin heimili og bankanna. Davíð vildi þjóðstjórn þegar allt var að hrynja. Þjóðin átti ekki til orð yfir slíkan hálfvitagang og meiraðsegja Þorgerður Katrín lét í það skína að kallinn væri með óráði. Í dag held ég að stór hluti þjóðarinnar sé sammála Davíð. Og þó. Líklega treystir hún ennþá Steingrími og Samspillingunni best til að leiða þjóðina útúr ógöngunum. (Ég hlýt að mega nota orðið „Samspillingin“ þar sem ég bjó það orð nú til á sínum tíma, takkfyrir). Davíð vildi ekki sjá ESB og sagði það sem hann meinti og meinti það sem hann sagði. Þjóðin var klofin. Steingrímur J. sagði FYRIR kosningar að hann vildi ekki sjá ESB. Eftir kosningar sáum við hvað gerðist. Fyrir undanlátsemina og vingulsháttinn fékk hann ráðherrastóla. Og þetta er maðurinn sem kallaði Davíð „gungu“ og „druslu.“ Úfff. Steingrímur J. hefur verið að vinna hörðum höndum að því að framkvæma allt sem hann lofaði fyrir kosningar að framkvæma ekki. Þjóðin hinsvegar hatar Davíð sem hún virðist í dag sammála um flesta hluti en elskar Steingrím J. sem hún er ósammála um allt. Fyrir nokkrum mánuðum gerði þjóðin gasalega byltingu og heimtaði nýja ríkisstjórn, skiljanlega, því hin var vonlaus. En hvernig notaði þjóðin svo atkvæðisréttinn? Jú, kaus yfir sig sömu dugleysingjana og hugleysingjana sem höfðu ekki gert handtak þrjá mánuðina þar á undan; kaus meðreiðarsveina útrásarhlandaulanna sem stærsta flokk landsins og svo hentistefnukommúnista sem þann næststærsta. Þar af fengu þeir þrír flokkar sem komu með beinum hætti að hruninu, Sjálfstæðisflokkurinn, Framasóknarflokkurinn og Samspillingin, um 70% atkvæða. Hver á að skilja þessa hringlandi vitlausu reykáss-þjóð? Sálfræðingar sem sérhæfa sig í Stokkhólmssyndrominu? Þjóðin vill greinilega engar breytingar. Hún reynir aldrei að hafa það sem sannara og betra reynist heldur aðeins það sem flokkshollara reynist. Hún rígheldur í sinn hrepparíg – flokksríg – sitt smáborgaralega þjóðarsport. Hún vill vera grilluð á daginn og láta snæða sig á kvöldin. Skilur ekki orð einsog þjóðstjórn, utanþingsstjórn, persónukjör, beint og milliliðalaust lýðræði o.s.frv. Ef sama fólkið er að mótmæla í dag og mótmælti fyrir nokkrum mánuðum þá er það raunverulega að mótmæla eigin trúgirni og einfeldni. Það fékk það yfir sig sem það heimtaði og kaus. Varla er gleymskan og heimskan í algleymingi? Það er einsog þjóðin fæðist á fjögurra ára fresti og sumir jafnvel á enn skemmri tíma. Eftir næstu pottlokabyltingu og kosningar verðum við hreinlega að fá forsætisráðherra sem við getum kallað samnefnara þjóðarinnar. Það eru tveir sem koma til greina: Steingrímur J. Mosdal og Ólafur  Ragnar Reykás.  Davíð, þjóðin og Steingrímur J. Eftir Sverrir Stormsker »Ef sama fólkið er að mótmæla í dag og mótmælti fyrir nokkrum mánuðum þá er það raunverulega að mótmæla eigin trúgirni og einfeldni. Það fékk það yfir sig sem það heimtaði og kaus. 

Sverrir Stormsker
Höfundur er tónlistarmaður


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband