Færsluflokkur: Bloggar

Vestfirðir

 

Enn og aftur er komin af stað umræða um byggðamál á Vestfjörðum. Ríkisstjórnin búin að stilla upp nefnd til þess að fjalla um málið og leita úrlausna.

Auðvitað er rétt að fjallað sé um málið, en ég held að umræðan hljóti að eiga að fara fram í héraðinu sjálfu. Lausnin sem kemur annars staðar frá verður að mínu mati ekki varanleg.

Vestfirðir hafa ítrekað verið til umfjöllunar vegna vanda í atvinnumálum. Sjávarútvegur hefur lengst af verið undirstaða atvinnulífs á Vestfjörðum, en með tilkomu kvótakerfisins hefur skapast vandi á þessum slóðum. Ekki það, að fyrir tilkomu kvótakerfisins var alltaf vandi til staðar, minnistæðar eru umfjallanir um Bolungarvík, Patreksfjörð, Bíldudal og fleiri staði.

Kvótakerfið er einn þáttur í minnkandi atvinnutækifærum á landsbyggðinni, annar þáttur er verkun afla um borð í skipunum og svo auðvitað tilfærsla á aflaheimildum milli landshluta.

Þetta er frjálst á sama tíma og við erum með Samkeppnisstofnun sem á að sjá til þess að ekki verði  til of mikill samruni á eignarhaldi á fyrirtækjum í svipuðum rekstri. Samruni sem oftast er til þess fallinn að tryggja rekstur viðkomandi fyrirtækja en ekki endilega flutning þeirra milli landshluta.
Vald þessarar stofnunar er mikið og umdeilt.  

En uppkaup á kvóta sem oft er undirstaða atvinnulífs víða um land eru algjörlega frjáls! Maður í Grímsey getur selt kvóta sinn til Suðurnesja og eytt peningunum t.d. í að kaupa sér húsagnaverslun á mölinni.. Eftir sitja fjölskyldur sem byggðu afkomu sína á aflaheimildunum. Að mínu mati mun alvarlegra en samruni fyrirtækja. 

Ekki verður lögum um eignarhald á kvóta breytt úr þessu, en spurning er um hvort hægt sé að fara aðra leið. Fyrir alþingiskosningar 1987 var uppi umræða um tilhögun á löndun afla, þannig að settir yrðu upp lykilfiskmarkaðir á landsbyggðinni, sem tækju við afla til verkunar í landi. Þannig yrðu skip að tilkynna um afla sinn og yrði síðan ráðstafað löndunarstað eftir því hvar þörfin lægi.
Með þessu væri hægt að nýta kvóta til atvinnuuppbyggingar. 

Fyrst til er samkeppnisstofnun í landi, af hverju má hún ekki líka vera til sjós?
Hlutverk´Fiskisamkeppnisstofnunar' yrði að sjá til þessa að afla til vinnslu í landi yrði ráðstafað þar sem hans er þörf.

Hvort þetta er gerlegt eða ekki er ekki gott um að segja. Vandinn er mikill og lausnirnar kannski ekki margar. 

Ég held að í málum sem byggðavanda Vestfirðinga sé ekki nóg að horfa til næstu 10-15 ára. Menn verða að horfa lengra fram í tímann þegar úrlausna er leitað. 

Nýlega var gefin út skýrsla um þróun veðurfars í heiminum á næstu áratugum.
Skýrslan tekur mið af veðurfarsbreytingum undanfarna áratugi. Í ljós kemur að víða um heim verður erfitt að byggja land sökum vaxandi hita. Ísland kemur mjög vel út úr þessari skýrslu, en spáin er sú að vegna hækkunar á hitastigi hér sem ekki var hátt fyrir, þá muni fjöldi fólks vilj flytja búferlum til Íslands. Er talað um allt að tíföldun íbúafjölda landsins á næstu 30-50 árum. 

Ef þetta er rétt, þá er okkur mjög vaxandi vandi á höndum ef við eigum að bera ábyrgðina á að finna atvinnu fyrir það fólk. Nefndir ríkisstjórnarinnar eig því mikið verk fyrir höndum í framtíðinni, að taka inn í sína útreikninga allan þann fjölda innflytjenda sem til Íslands eiga eftir að flytja á næstu árum og áratugum.. 


Vísitala neysluverðs og Vilnius

Í gær var það gefið út að vísitala neysluverðs lækkaði lítillega milli mánaða eða um 0,04% og mælist nú 266,1 stig.
Mikið er nú ánægjulegt að lesa þetta. Gríðarlega góðar fréttir fyrir landann, nú lækka lánin lítillega, kannski varla mælanlega, en samt..
Nú var verið að gefa það út að lán muni SAMT ekki lækka, þrátt fyrir þessa lækkun vísitölunnar.

Þessi vísitala er náttúrulega ekkert nema ósanngirni.

Ef gúrkan hækkar úti í búð, þá hækkar vísitala neysluverðs sem þýðir að lánið á íbúðinni þinni og bílnum þínum hækkar og eign þín minnkar að sama skapi.
Ósanngjarnt. 
Alveg sama hvernig á það er litið.
Það er hagur allra að nýleg lækkun virðisaukaskatts skili sér til neytenda þar sem hún hefur verið lækkuð, enda á lækkunin að draga úr verðbólgu/visitölu neysluverðs.

Hverra hagsmunir eru varðir með þessari vísitölu? Bankanna? Þeir græddu ekki nema 138.000.000.000 á síðasta ári. 138 milljarðar eru miklir peningar. Ef þeim er deilt niður á 170.000 vinnandi manns í landinu þá gerir það 800.000 kr á mann!!! Bankarnir högnuðust um tæpa milljón á hvern vinnandi mann!
Ok, þetta voru bara bankarnir 4, ótaldir eru aðrir sjóðir.

Ég velti því fyrir mér hvernig þetta er hægt. Ég er þess fullviss að hvergi í heiminum þekkist annar eins gróði banka per hvern vinnandi mann.

Ég las það í Wall Street Journal um daginn að um nú nýlega lánuðu Japönsku bankarnir peninga á 0% vöxtum, en vextir þar hafa um all langa hríð ekki náð 1 prósenti. Þetta hafa íslensku bankarnir nýtt sér, en þessi góðu kjör þeirra hafa ekki skilað sér til neytenda á Íslandi, enda vextir gríðarlega háir. Ekki skrýtið að þeir græði. Nýlega kom svo í ljós í könnun að íslensku bankarnir sem nú starfa víða um Norðurlönd eru að lána á allt öðrum kjörum í öðrum viðskiptalöndum sínum en heima á Íslandi.

Ég hef oft velt því fyrir mér hvers vegna í ósköpunum íslensk verkalýðsforysta hefur aldrei sett í öndvegi baráttu fyrir afnámi vístölu neysluverðs eða lánskjaravísitölunnar meðan hún var og hét?
Vísitölutryggð lán á sama tíma og laun eru ekki verðtryggð er atlaga að mannréttindum.

Getur það verið að verkalýðsforystan taki ekki á þessu máli af þeirri ástæðu að verkalýðsfélögin sitja á stærstu sjóðunum?

Hvernig er þetta hér í Vilnius?
Hér eru húsnæðislán ekki verðtryggð. Hér eru vextir um 4% á húsnæðislánum. Sjálfur tók ég íbúðalán hér fyrir tæpum tveimur árum. Þegar ég tók lánið fékk ég yfirlit í hendur yfir greiðslur af láninu til næstu 20 ára. Þar kemur skýrt fram hvað lánið lækkar um hver mánaðarmót og ég get séð hvað ég þarf að borga af láninu á hverjum tíma til loka þess.

En, þetta er ekki hægt heima á Fróni. Hagkerfi sem telur 300.000 manns, þar af 170.000 vinnandi, ræður ekki við slíkt.

Og maður spyr sig hverra hagsmunum er verið að þjóna?

 

 

 

 

 

 


RE/MAX ferð til Atlanta

Þá er ég kominn aftur til vinnu hér í Vilnius eftir ferð á RE/MAX ráðstefnu sem haldin var í Atlanta.
Það var lítið mál að aðlaga sig að 7 tíma mismun þegar til Atlanta var komið. En, að aðlaga sig aftur að tímanum hér í Litháen aftur er búið að vera erfitt. Það var samt notalegt að sjá hvað veðrið hafði breyst hér í Litháen á þessari viku sem ég var í burtu, hér voru -11 stig þegar ég fór, en spáin fyrir næstu helgi er +14 stig. Snjórinn er farinn og vor í lofti.

Atlanta var spennandi, þar voru samankomnir um 6000 fulltrúar þessa fyrirtækis sem nú er starfrækt í 67 löndum. 6000 manns er nokkur fjöldi, en samt lítill hluti heildarfjölda sölumanna sem nú teljast 120.000 manns.
Vöxtur þessa fyrirtækis er ótrúlegur, aldrei hefur liðið sá mánuður í 34 ára sögu þess sem fyrirtækið óx ekki.
Heima á Íslandi er gaman að sjá hvernig fyrirtækið vex og dafnar. Auðvitað ekki að sársaukalausu, RE/MAX er að koma sér fyrir á markaði sem var vel setinn fyrir af fasteignasölum.
En hvað er það sem greinir RE/MAX frá öðrum fasteignasölum? Hvernig getur RE/MAX vaxið svo hratt?
Stofnandi fyrirtækisins, Dave Liniger,  sem enn er aðaleigandi þess réði sig á sínum tíma í fasteignasölu í Denver Colorado. Á sölunni unnu alls 300 sölumenn, sem allir voru ráðnir á 50/50 kjörum, þ.e., þeir fengu 50% þess fjár er þeir öfluðu.

DSC03143


Liniger fannst í raun óþarfi að skipta þessu fé með fasteignasalanum. Honum fannst að í raun ættu þeir að hafa sama kerfi og lögfræðingar eða læknar, þ.e. taka sig saman og deila kostnaði við húsnæði, ritara, síma og annað er þarf til síks rekstrar.
Hann hannaði kerfi þar sem sölumenn fengu 100 % af sölulaunum sínum og greiddu svo sinn hluta af sameiginlegum kostnaði. Þetta kerfi er undirstaða RE/MAX. Fólk í RE/MAX kerfinu á möguleika á að afla launa sem eiga sér ekki hliðstæðu nema hjá bankastjórum.
Maður fylltist stolti að sjá íslenska RE/MAX sölumenn taka við virðurkenningum fyrir frábæra frammistöðu, fólk sem var að afla allt að 70 milljóna í árstekjur.
RE/MAX er kerfi sem drifið er áfram af fólkinu sem vinnur í kerfinu.
Vöxtur þess helgast af góðum tekjumöguleikum sem byggjast á góðri kennslu og þjálfun innan kerfisins.

 

 


Norðurland á menningarlandakortinu

Upphaf tónlistarlífs á Íslandi á ekki rætur sínar í Reykjavík eins og margir kunn að halda heldur á landsbyggðinni. Þannig var t.d. fyrsti söngskóli á Íslandi stofnaður fyrir norðan, á Hólum í Hjaltadal árið 1107, eða fyrir 900 árum.

Draumur rætist á Dalvík...
Norðlendingar hafa löngum verið menningarlega sinnaðir í mörgu tilliti, en söngur hefur lengi verið í öndvegi hjá þeim.  Þannig áttu þeir t.d. þann karlakór sem fyrstur reisti erlendis, en það var Karlakórinn Hekla sem fór utan árið 1905. Rætur söngs á Íslandi hafa lengi verið sagðar liggja við Eyjafjörð. Pétur Guðjohnsen sem kallaður var faðir söngs á Fróni fæddist 1812 í Hrafnagili, en hann var sá maður sem fyrstur innleiddi fjórradda söng á Íslandi. Það gerði hann þá hann var organisti við Dómkirkjuna í Reykjavík, en því hlutverki gegndi hann fyrstur manna. Hann varð fyrstur til þess að þjálfa menn upp í fjórradda söng, en áður hafði þjóðin söngur þjóðarinnar verið bundinn að mestu við fimmundasöng, einsöng eða tvísöng.
Fram að þeim tíma sem söngur þjóðarinnar tók slíkum framförum, þá voru tónbókmenntir Íslendinga ekki flóknar. Árið 1594 var prentuð sálmabók sem kölluð var Grallarinn (Graduale). Á þessa sálmabók söng þjóðin allt til ársins 1802 þegar Magnús Stephensen á Leirá prentaði nýja sálmabók. Við útgáfu hennar brugðust margir ókvæða við; hvað er maðurinn að vilja með nýja sálmabók, þegar sú gamla hefur dugað okkur í yfir 200 ár? Að þjóðin hafi að mestu sungið á eina sálmabók í yfir tvær aldir segir sitt um þá einangrun sem við bjuggum við.  Ég sæji okkur í dag hafa eina söngbók sem við ættum að styðjast við eingöngu til ársins 2207!!

Pétur Guðjohnsen var því mikill frumkvöðull í starfi sínu. Þrátt fyrir að eiga 13 börn og búa við fátækt alla ævi, þá gaf hann aldrei eftir í hugsjón sinni þegar tónlist var annar vegar. Hvern dag að lokinni vinnu sat hann og hlúði að þessari hugsjón sinni: að þróa tónlistarlíf þjóðarinnar. Það mun svo hafa verið við í lok apríl 1848 sem fjórradda söngur ómaði fyrst, þar sungu skólapiltar í Dómkirkjunni við sorgarathöfn vegna andláts Kristjáns áttunda.

Pétur kenndi síðar tónlist. Þannig var Sveinbjörn Sveinbjörnsson einn nemenda Péturs, en lofsöngur hans, var einmitt frumfluttur á heimili Péturs að Suðurgötu 6 í Reykjavík.
Lofsöngurinn var aldrei saminn til að verða þjóðsöngur íslendinga eftir því sem ég kemst næst, heldur var hann tekinn upp af íþróttafélögum sem hófu að flytja hann í upphafi leikja. Þannig komst hefð á þetta tónverk sem síðar varð þjóðsöngur okkar.
Þætti Péturs Guðjohnsen í tónlistarlífi okkar verður aldrei of minnst.

Það er ekki hægt að skilja svo við Eyjafjörð þegar menning er annars vegar öðruvísi en að minnast á skáldið Davíð Stefánsson frá Fagraskógi. Fagriskógur er afar fallegt og vel hirt býli sem ekið er framhjá á leið til Dalvíkur. Sú arfleifð sem Davíð Stefánsson skildi við sig verður seint metin til fjár. Davíð var jafnan talinn til alþýðuskálda enda er skáldskapur hans í senn rómantískur og auðskilinn.

Fjölda annara listamanna og tónlistarflytjenda má minnast frá Norðurlandi og úr Eyjafirði, en rétt er að koma sér að kjarna málsins; Menningarhús á Dalvík. Eftir frábært rekstrarár hefur Sparisjóður Svarfdælinga ákveðið að leggja 200 milljónir af þeim 900 sem sjóðnum græddust árið 2006 til byggingar menningarhúss sem ekki skal minna en 700 fm! Þetta finnst mér frábærar fréttir. Ef Glitnir myndi t.d. leggja sömu fjárhæð til menningarmála þá væri sú upphæð átta komma fjórir milljarðar!

Fram til þessa hafa Dalvíkingar að mestu orðið að styðjast við kirkju sína til margvíslegra uppákoma, svo sem tónleika o.þ.h., þó auðvitað sé í önnur hús að venda t.d. Húsabakkaskóla.

Dalvíkingar eru sannir víkingar. Og Svarfdælingar eru stórskemmtilegt fólk, algjörir sagnabrunnar. En menningarstig Svarfdælinga er hátt. Þar starfar Karlakór Dalvíkinga af miklum þrótti, kór sem gefur í engu eftir þegar um er að ræða gæði söngs eða metnað í lagavali. Og margir þekkja Tjarnarkvartettinn. Eflaust á Dalvík margt fleira þegar kemur að menningu. En áræði þeirra og gestrisni endurspeglast vel í hinum árlega fiskidegi þar sem þúsundir gesta njóta alls hins besta sem íslenskt sjávarfang bíður upp á.
Stórhuga þeir Dalvíkingar, sumir þeirra hafa líka verið stórir, og enn aðrir einfaldlega stærstir eins og Jóhann Svarfdælingur.
Hugsa stórt. Það er málið..  Til hamingju Svarfdælingar!


19.374.240.000.000.000.000,00 íslenskar krónur

Pæling....

1.784.000.000.000.000.000 NOK er eign Norska olíusjóðsins samkvæmt frétt Mbl. Í dag.
1,784 trilljónir norskra sem gerir í dag ISK. 19.374.240.000.000.000.000,00

Heildarverðmæti Kaupþings banka er í dag 758.964.370.000 (sjö hundruð fimmtíu og átta milljarðar)
Heildarverðmæti Glitnis banka er 399.414.560.000 (Þrjú hundruð níutíu og níu milljarðar)
Heildarverðmæti Landsbankans er 359.274.090.000 (þrjú hundruð fimmtíu og níu milljarðar)

Samtals kosta því íslensku bankarnir kr. 1.517.653.020.000

Ef olíusjóðurinn færi í uppkaup á bréfum í íslensku bönkunum og eignaðist þá, hvað yrði þá um sjálfstæði þjóðarinnar?

P.S. Finnst samt ótrúlegt að 2 milljarðar NOK sem lagðir voru í þennan sjóð fyrir 10 árum séu orðnir að svo hárri tölu.....
Getur þetta verið rétt?


mbl.is Enn gildnar norski olíusjóðurinn: Rúmar fjórar milljónir á mann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Álver, verður eða fer...

Af þeim byggðakjörnum sem mynda höfuðborgarsvæðið, þá hef ég alltaf haft þá tilfinningu fyrir Hafnarfirði að hann sé það bæjarfélag sem líkastur hefur verið þorpi. Með jákvæðum hætti. Þá á ég við að Hafnfirðingar standa alla jafna vel saman og sjálfsímynd þeirra er sterk.  Bæjarfélagið stendur á ákaflega fallegu bæjarstæði og þar er friðsælt. Þetta er eitt þeirra bæjarfélaga sem hafa frá örófi verið afar tengt sjávarútvegi. Enn má þar t.d. finna mjög sterk sjávarútvegsfyrirtæki.
Sjálfir áttu þeir bæjarútgerð sem leið undir lok, ef ég man rétt þá var það Jóhann Bergþórsson í Hagvirki sem stóð fyrir uppkaupum á þeim eignum sem eftir stóðu í útgerðinni, en þar horfði hann í framsýni til þeirra gríðarverðmiklu lóða sem félagið átti. Þar hafa gömlu byggingarnar verið rifnar og í stað þeirra rís nú íbúðarbyggð á gamla hafnarsvæðinu með glæsilegu sjávarútsýni.

En Hafnfirðingar hafa lengi átt annað sem þeir hafa verið öfundaðir af, Álverið. Ég man þá tíð að slegist var um atvinnu í álverinu. Þeir sem þar unnu voru forréttindamenn. Á milli Hafnarfjarðar og álvers var samasemmerki. Sem þáverandi forstjóri var Roth vinsæll, hann var alþýðumaður í eðli sínu og vann MEÐ fólkinu en ekki YFIR því. Þetta skapaði þægilegan vinnuanda sem gerði starf í álverinu enn eftirsóttara. Og, Roth var sanngjarn. Þannig bjó hann til reglu sem gekk út á það að ef menn næðu ákveðnum starfsaldri í fyrirtækinu, þá áunnu þeir sér rétt til hærri eftirlauna. Sjálfsagt hefur Roth horft til þess að auðvitað er engum hollt að vinna á slíkum stað og því rétt að umbuna þeim sem héldu út slíka vinnu.
Nú bregður svo við að undir stjórn núverandi forstjóra þá er þessi sanngjarna reikniregla farin að vinna á móti mönnum. Þeir sem ná háum starfsaldri, svo háum að þeir eru farnir að eygja möguleikann á að sjá þessa eftirlaunapremíu geta átt von á uppsögn. Það hefur nú ítrekað gerst að menn hafa misst vinnuna á versta tíma, eða á þeim tíma sem eftirlaunaréttindasöfnun er mikilvægust. Í lok starfsævinnar.
Þessi smáhagsmunagæsla hefur kostað álverið stóran hluta af þeirri ímynd sem fyrirtækið átti, á versta tíma fyrir álverið. Og þeir menn sem sagt var upp, þeir eru þekktir Hafnfirðingar. Úps! slæmt og klaufalegt. En, svo var reynt að plástra upp í sárin með að bjóða Hafnirðingum upp á ókeypis flugeldasýningu á gamlárskvöld, svo var gefinn diskurinn með Björgvin Halldórssyni til allra Hafnfirðinga og þegar greinilegt var að þetta gekk ekki í fólk, þá kom lokaútspil í baráttu fyrir stækkun álversins; Því verður bara lokað ef menn samþykkja ekki stækkun.
Mjög líklegt. Reyndar bara fyndið að slíkar yfirlýsingar séu gefnar út af fullorðnu fólki út af máli af slíkri stærðargráðu.

Forstjórinn er ekki í takti við fyrirtæki sitt. Og Hafnfirðingar verða ekki keyptir.

Álverið í Straumsvík er eins mikill Hafnfirðingur og Ottó gamli Wathne flöskukaupmaður var. Og Hafnfirðingar standa saman.
Álverið passar sig sjálft. Hvort það framleiðir svona mikið eða svona mikið er kannski ekki aðalatriði.
Álver eða ekki álver er meginmál.
Vandinn liggur í stjórnuninni. Mál er að skipta út forstjóranum. Mér dettur í hug að nýr forstjóri gæti verið gegnheill Hafnfirðingur, félagslega sinnaður og heiðarlegur.
Einn fárra eða kannski sá eini sem sagt hefur af sér ráðherradómi til að axla ábyrgð......
Guðmundur Árni Stefánsson.


Vorar í Vilnius...

Jæja, góð en róleg helgi að baki. Fór á föstudagskvöldið á Robbie Williams tónleika sem reyndar voru sungnir af Mantas sem er upprennandi stjarna hér. Húsfyllir og mikil stemning. Hér skemmtir fólk sér jafnan af mikilli innlifun, enda notar fólk hér hvert tækifæri til þess að koma saman og gera sér glaðan dag. Hér halda t.d. allir upp á afmæli sín og bjóða vinum að fagna með sér. Gildir þá einu hvort um er að ræða heilan eða hálfan tug eða allt þar á milli.

Það er farið að örla fyrir smá vori í lofti, kannski er það bara inni í mér. Rétt eins og vetur hér getur farið í -35, þá fer sumarið í +35. Svo, sumar hér er kærkomið, kannski kærkomnara fyrir bragðið.

Laugardagurinn var nýttur í að fara með þá pilta Rolandas og Kostas til að gera þeim glaðan dag. Þeir eru munaðarlausir 9 ára efnispiltar sem búa í ABC barnaþorpi hér í Vilnius. Starf þessarar hjálparstofnunar ABC barnaþorp er afar göfugt og mjög vel um börnin hugsað. Armina er stuðningsforeldri þessara tveggja pilta. Af og til þá tökum við þá til að spilla þeim eilítið, þ.e. fara með þá í keilu, bowling í bíó eða annað sem gleður þá. Og þeir kunna að þakka fyrir þig.

Laugardagskvöldið var afar rólegt, var kominn í háttinn fyrir miðnætti. Undanfarið hafa stjórnmálamenn í bæjarpólitík reynt án árangurs að vekja áhuga fólks á borgarstjórnarkosningum sem fram fóru í gær. Aðeins var búist við um 20% kjörsókn sem teljast verður afar dræmt. Ástæða áhugaleysis má rekja til mikillar umræðu um spillingu stjórnmálamanna, en meðal annarra þá hefur borgarstjórinn mátt sækja aðför í dómsal vegna mútuþægni þar sem lögð voru fram skjöl sem sýndu ótvírætt fram á móttöku fjár. Fólk virðist hafa misst trúna á stjórnmálamönnum.
Það kemur manni mjög á óvart í landi sem þessu, sem  býr við svo ungt lýðsræði, en Litháar fengu sjálfstæði sitt árið 1991 eftir frækilega frammistöðu á móti Rússum sem skilaði þeim árangri sem önnur Sovétlýðveldi nýttu sér í kjölfarið. 
Og auðvitað vorum það við Íslendingar sem urðum fyrst þjóða til að viðurkenna sjálfstæði Litháa, en færri sögur fara af góðri frammistöðu Jóns Baldvins sem þá var utanríkisráðherra og hafði talað máli Eystrasaltsríkjanna á alþjóðavettvangi um nokkurra mánaða skeið. Gekk jafnvel svo langt að húðskamma þjóðir úr ræðustóli fyrir að aðhafast ekki neitt á meðan þessar þjóðir börðust fyrir sjálfstæði sínu.

Ég bý að því að vera Íslendingur hér. Við njótum velvildar, sérstaklega hjá þeirri kynslóð sem barðist á sínum tíma fyrir frelsinu. Og oft fæ ég gott orð í eyra fyrir þjóðerni mitt.
En frá þvi ég kom hér fyrst, þá hef ég aldrei verið stoltari en í gær. Ég lét loks verða af því að fara og skoða KGB safnið hér í Vilnius. Stoltur, vegna þess að tilheyra þeirri þjóð sem átti þátt í að leysa Litháa undan þeirri þjáningu sem þeir bjuggu við ;

Sá hryllingur sem mætti manni þar var eitthvað sem manni líður seint úr minni. Hér getur að líta mynd úr klefa sem bólstraður var á alla kanta, algjörlega hljóðeinangraður. Þarna voru menn pyntaðir, svo illa að margir lifðu ekki af. Menn voru niðurlægðir á allan þann máta sem hugsast gat, eða; á þann hátt sem engum getur í raun látið sér detta í hug. Og, allt vegna stjórnmálaskoðana sem oft voru upplognar á þig svo aðrir nytu friðþægingar af þessum illu öflum. Njósnað var um allt. Ótrúlegasta fólk njósnaði um nágrannana og fjöldi manns vann við símahleranir  sem oft leiddu til handtöku af minnstu ástæðu.  Utan á húsinu eru nöfn nokkurra þeirra sem létu lífið í baráttu sinni fyrir málstað þjóðarinnar, eða kannski bara fyrir upplognar sakir nágrannanna...
Að aðeins skuli vera liðin 15 ár síðan er erfitt að ímynda sér. Eða að sjá myndir af þeim brottflutningum til Síberíu sem áttu sér stað í seinni heimstyrjöldinni þar sem 120.000 manns þar af rúmlega 20.000 börn voru flutt í gripalestum í kuldann í Síberíu. Fólkinu var smalað í lestirnar, 30-40 manns þar sem rúmast áttu að geta 12 manns. Fólk mátti bíða dögum saman eftir brottför í vögnunum sem ekki voru kyntir, engin klósett og þeir sem létust úr kulda voru ekki einu sinni fjarlægðir. Svo hófst ferðalagið. Margir létu lífið á leiðinni og náðu aldrei leiðarenda.
Um 20.000 manns entust líf og heilsa til að snúa aftur til Litháen. En þar beið ekki mikið betra, því eignir þeirra höfðu verið gerðar upptækar, fólkið fékk ekki vinnu, þannig að fjölmargir héldu til annarra landa í leit að betri lífsgæðum. Í dag búa t.d. um 1 milljón Litháa í USA. Og nokkur hundruð þúsund búa í Írlandi.
Ferð í KGB safnið er eitthvað sem ég hef frestað ítrekað af þeirri ástæðu að það sem ég hef heyrt um safnið sem er í óbreyttri mynd hefur hrellt mig. Og, það er full ástæða til að hrellast.
En í dag skil ég betur hvers vegna fólk hér notar öll tækifæri, hversu lítil sem þau kunna að vera til þess að koma saman og gleðjast.
Litháar hafa ástæðu.


Daily bread....

Jæja, þú fer þessari vinnuviku að ljúka. Var sannarlega árangurs- og viðburðarík vika, hélt upp á árs afmæli RE/MAX Lithuania í gærkvöld með um 100 gestum, þar af milli 60-70 manns úr RE/MAX kerfinu hér. Strengjasveit lék undir, kokkteill og fingramatur og við veittum viðurkenningar til framúrskarandi sölumanna, sem margir eru að gera það afar gott á hérlendan mælikvarða. Slíkar viðurkenningar hleypa líka kappi í fólkið og skapar samkeppni milli söluskrifstofa.
Árangur okkar eftir fyrsta árið verður að teljast góður, við erum í 2 sæti hér í landi þegar tekið er tillit til fjölda skrifstofa, sölumanna og skráðra eigna á internetinu. Stefnan er að tvöfalda þennan árangur á árinu og taka fyrsta sætið hér.

Vinur minn Indverjinn mætti með diplómatana sína. Yndislegur karl. En, hann kemur frá öðrum kúltúr, sem sést vel á þessu; á indverska veitingahúsinu hans starfar hún Jurgita litla. Hún er litháísk stúlka sem er lærður kennari, afar blíð og notaleg. Hún heldur mikið upp á mig og Arminu unnustu mína, en við komum að meðaltali tvisvar í viku að borða á þessu veitingahúsi. Jurgita trúði okkur fyrir því að nýlega hafi hún ætlað að segja upp starfi sínu, enda langar hana að vinna með börnum sem ég er viss um að á vel við hana.
Nú, Jurgita skrifaði uppsagnarbréfið sitt sem hún vandaði sig afar vel við, enda nákvæm mjög. Var með hnút í maganum þegar hún fór í vinnuna, enda ekki auðvelt verk framundan.
Svo var að finna rétta augnablikið, ná eigandanum til þess að koma bréfinu og uppsögninni til skila. Tækifærið gafst og stundin upp runnin. Jurgita litla rétti fram bréfið sem karlinn tók við með þungbúnu augnaráði. Hann opnar umslagið og las bréfið. Leit svo upp, reif bréfið í tætlur og húðskammaði Jurgitu litlu fyrir að láta sér detta þetta í hug! Skipaði henni svo að fara fram og hugsa um viðskiptavinina!
Svo, Jurgita litla er enn að þjóna til borðs, alltaf jafn blíð. Og enn spyr hún kúnnana með sínu blíða augnaráði; So did you like the food? Will you come back? We hope to see you again thank you.
Jamm, þetta er sannarlega ekki Ísland þegar kemur að atvinnumálum.

Hér er vetur farinn að gera vart við sig, þannig fer hitastigið niður í -25 á næturna en er um -15 á daginn. Sannarlega notalegt. Á sama tíma í fyrra fór kuldinn niður í -34 stig, þá var +8 heima á ÍSlandi.
Það er náttúrulega ekkert kalt við Ísland nema nafnið. Yndislegt land þar sem allir eru velkomnir nema náttúruunnendur sem kallaðir eru klámhundar af Íslendingunum, þessari siðvöndu þjóð. Öðruvísi mér áður brá.


Mergur málsins

Þegar ég var unglingur í grunnskóla þótti maður skara fram úr ef maður gat slegið um sig á fornu íslensku máli. Helst að ná þannig valdi á tungunni að mörgum þótti hreint erfitt að skilja mann. Vitnað var í fornsögurnar, enda vaknaði áhuginn fyrir fornmálinu við lærdóm úr þeim. 
Nú er búið að yfirfæra þessar sögur yfir á nútímamál svo  Íslendingi nútímans megi verða auðveldara að skilja.

Sem forseti okkar þreyttist Vígdís Finnbogadóttir aldrei á því að segja að það sem gerir Íslending að Íslendingi er að hann tali gott kjarnyrt mál, að hann haldi upp á tungu sína og verndi hana. Í dag steðja hættur að máli okkar úr öllum áttum. Fremst má telja internetið, þá nýtt mál á sms skilaboðum, msn tungumál og áfram má telja.
Það var mér fagnaðarefni að sjá í dag að menntaráð Reykjavíkurborgar hefur ákveðið að stofna til sérstakra íslenskuverðlauna fyrir reykvíska grunnskólanema, hver skóli getur tilnefnt 3 nemendur til þessara verðlauna.  
Heldur finnst mér það þó rýrt til eftirtekju að hver skóli skuli geta náð árangri í keppni þessari með aðeins þremur nemendum. Nær hefði mér þótt að keppt yrði hreinlega milli skóla líkt og í Gettu betur keppninni.  Þannig hrifust allir með. Ljóðmæli mættu gjarnan fylgja, því ljóðahefðin er á undanhaldi hjá þjóðinni.

Ekki veit ég hvort samanburður við Litháen er sanngjarn við Ísland þegar kemur að tungumálinu. Við tölum gjarnan um að okkur veitist auðveldara að vernda íslenska tungu vegna legu landsins.
En, þrátt fyrir legu Litháen með 4 lönd  aðliggjandi, þá hefur tunga þeirra, litháískan varðveist svo að heita óbreytt að mestu þrátt fyrir að vera eitt elsta tungumál heims. Hér er ekkert nýrði tekið inn nema af sérstökum tungumálasérfræðingum. Þannig ákváðu þeir fyrir skömmu að tannlæknastofur skyldu taka upp nýtt nafn. Nafninu var úthlutað og tannlæknar um alla borg þurftu að endurskíra fyrirtæki sín og setja upp ný skilti!

Hvað sem því líður, þá sit ég nú við að skrifa ræðu sem ég flyt í kvöld, á ensku. Í kvöld er ég með afmælisboð vegna árs afmælis RE/MAX í Litháen. Von er á um 100 gestum. Gaman er frá því að segja að við verðum ekki með einn indverskan sendiherra, við verðum með tvo. Hér í Vilnius er indverji, fyrrverandi flugmaður í indverska hernum sem rekur hér afar glæsilegt veitingahús. Með okkur hefur tekist ágætur kunningskapur, þetta er lítill krúttlegur karl sem hugsar afar vel um veitingahúsið og er ötull við að halda merkjum þjóðar sinnar á lofti. Þannig stóð hann fyrir heljarmiklu teiti á þjóðhátíðardegi Indlands þann 26. janúar sl. þar sem saman voru komnir allir diplómatar og ráðamenn hér í borginni. Virkilega skemmtilegt og létt boð. Til stóð að leikarinn Ben Kingsley heiðraði samkomuna, en hann varð veðurtepptur í Klaipeda sem er hafnarborg hér.
Nú, ég býð auðvitað þessum góða vini mínum að koma í kvöld, og þar sem hann er afar hrifinn af mér sem fulltrúa þjóðar sem á mið-austurlenska forsetafrú og forseta sem er ábyrgur fyrir framtíð Indlands að hluta, þá kemur ekki til greina að mæta með færri en tvo sendiherra með sér. Einn fyrir Dorrit og einn fyrir Ólaf Ragnar.
Skál!

 


21. febrúar 2007

Það hefur lengi staðið til hjá mér að setja upp bloggsíðu, ekki síst vegna þess að ég er búsettur erlendis. Þannig get ég auðveldað vinum, vandamönnumog áhugasömum heima fyrir að fylgjast með því hvað maður hefur fyrir stafni hér í Litháen, en þar er ég einmitt búsettur að mestu, þó svo ég haldi auðvitað heimili líka á Íslandi. Ég vona að mér endist tími og nenna til að skrifa eitthvað um líf mitt hér. Og ef svo, að það verði eitthvað sem fólk nennir að lesa.

Dagurinn í dag er er sérstakur mér fyrir þær sakir að Örn Arndal bróðir minn fæddist þennan dag fyrir 39 árum. Honum entist ekki lengra líf en 22 ár. Einn þeirra sem missa trúna á samfélagið og gefast þess vegna upp. Mér finnst við hæfi að minnast bróður míns með því að ræða lítillega um þessa hluti.

Aðgát skal höfð í nærveru sálar segir í ljóði Einars Benediktssonar, Einræðum Starkaðar.
Össi var afar barngóður, örlátur, vildi öllum mjög vel og kannski var það einmitt mergurinn málsins, hann elskaði sjálfan sig ekki nógu mikið, en hina miklu meira. Hann var svolítill Stuðmaður í sér, tók lífinu svona passlega alvarlega en átt í sér sínar hugsjónir og sína drauma. Elskaði börnin okkar systkinanna sem sín eigin. En svo fór sem fór, einn daginn var hann bara farinn. Hann fann ekki þetta fína töts sem við hin finnum og vöknum fyrir á morgnana. Samfélagið brást honum ungum og það markaði sár sem ekki gréru.

Mér er hugsað til þessara barna sem gistu Breiðuvík, Upptökuheimilið og aðra þá staði sem átti að gera þessum börnum gott, að mestu greinilega til að herða þau. Góður maður sagði við mig; Ég þekki ekki fullorðið fólk. Ég þekki bara gömul börn. Og; Mikill er sá er varðveitir barnshugann sagði Konfúsíus.
Ekki veit ég hvað þessir Breiðavíkurdrengir vilja varðveita frá barnæsku sinni ef einhver var, því eftir lýsingunum að dæma var hún líklega rænd þeim af fólki sem kannski taldi sig vera að gera rétt. Meðölin á þessum tíma voru önnur. Þá þekktist ekki að greina ofvirkni, asberger eða hvað annað. Þetta hét allt bölvuð óþekkt og börnin voru bölvaðar ótuktir.
Nú er öldin önnur, nú eru gefin lyf og börnin fá jafnvel aðstoðarmann í kennslustundir í skólum ef þau eru mjög erfið.
Æska þessara Breiðavíkurbarna verður þeim mörkuð alla ævi. Og það sem gerir málið verra að mínu mati; Þeim var talin trú um að þau væru slæm börn. Og kannski hafa þau trúað því til þessa dags.

Ég ímynda mér því að þeirra stærsta sáluhjálp í dag sé sú að þessi börn, sem nú eru menn, fái það á hreint að þeir voru aldrei slæm börn. -En, þeir urðu allt of margir ógæfumenn.
Og sökin er samfélagsins.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband