Færsluflokkur: Bloggar

Nóg að gera í Hæstarétti!

Segi nú ekki annað....
mbl.is Gullskipsslóði á Skeiðarársandi taldist vegur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vorar í Vilnius

Jæja, þá er stuttum en snörpum vetri hér líklega lokið. 13 stig í gær og ekki minna í dag, sólin skein glatt inn um gluggann hjá mér í morgun þegar ég vaknaði. Veturinn sem að baki er, var sá heitasti hér í árhundruði.

En auðvitað komu dagar þar sem var hraustlegt og gott frost, en reyndar ekki eins og í febrúar í fyrra, þá fór frostið niður í 34°. Á sama tíma var 8° heima á Fróni.

En eins og veturnir geta verið kaldir, þá eru sumrin heit og fara vel yfir 30° stundum. Þá er gott að skella sér til Palanga sem er strandbær við Eystrasaltið. Þar er gríðarmikil og góð strönd. Þangað sækir fólk héðan, enda er þar mikið fjör á sumrin og margt um manninn.

Nú er ferðaskrifstofan Terranova að auglýsa ferðir hingað til Vilnius fyrir aðeins 19.900. Beint flug. Það þykir mér, sem flýg allajafna gegnum Kaupmannahöfn þegar ég fer heim og borga fyrir milli 60 og 70 þúsund fyrir, vera góð kjör.

Ég mæli hiklaust með ferð til Vilnius, sem nýlega var kosin ódýrasta borg Evrópu. Hér eru gríðarlega fallegar byggingar, mikil saga, fullt af söfnum, frábær, ódýr veitingahús og margir góðir skemmtistaðir.





Þegar ég var í Alþinginu

 

 

Nú eru um 30 ár síðan ég hætti í þinginu. Það var afar skemmtilegur tími. Þá var Alþingi öllu heimilislegra en nú er. Þinghúsið minna og umfangið miklu minna.
Þrátt fyrir að þingmannafjöldinn sé enn hinn sami, þá hefur þingið teygt sig víðar um Austurvöllinn og byggt hefur verið við þinghúsið. Starfsmannafjöldinn í dag eflaust þrisvar sinnum meiri en þá var.
Það sem vakti athygli mína á sínum tíma er ég hóf þar vinnu hvað starsfólk var allt gamalt.
Þingverðirnir voru flestallir fyrrverandi lögreglumenn sem komnir voru á eftirlaun. 

Skrifstofa þingsins taldi Friðjón Sigurðsson skrifstofustjóra, afar hæglátan mann á sjötugsaldri og Ólaf Ólafsson aðstoðarskrifstofustjóra, hörkukall sem lét til sín taka.

Ritari var Sigríður Bjarklind, sem þá var komin hátt á sjötugsaldur, en henni til halds var frænka hennar Unnur Bjarklind sem þá var rúmlega tvítug og taldist afar ungur starfskraftur. Báðar eru þær nú látnar. Önnur í hárri elli, en hin langt um aldur fram.

Skjalavörður var gamla glímukempan og fyrsti formaður Glímusambandsins, Kjartan Bergmann Guðjónsson. Á sjötugsaldri. Merkilegur og ákveðinn karl sem hélt utan um lögin ef svo má segja, hann hafði sérstakt herbergi með gríðarmörgum boxum þar sem greinargerðum, þingáslyktunartillögum og lögum var haldið til haga.

Þingverðirnir voru eins og fyrr segir gamlir lögreglumenn. Þetta voru góðir karlar, misjafnlega á  sig komnir til heilsu, en starf þeirra í þinginu krafðist alla jafna ekki mikilla krafta, einungis að vera til staðar.

Yfirþingvörður var Jakob Jónsson. Eftirminnilegur öllum þeim sem hann hittu. Lágvaxinn, samanrekinn karl sem stóð á sjötugu. Gamall lögreglumaður sem búinn var að lenda í ýmsu á sínum ferli og átti sögur af sér úr starfi sínu á stærstu stundum þjóðarinnar.
En hann átti líka margar fræknar sögur af sér sem ungum manni, sem allar byrjuðu svo; ..þegar ég var ungur smali... Honum fannst nefnilega lítið til þess koma sem við, þingsveinarnir áttum að gera miðað við það sem hann hafði mátt leggja af mörkum á okkar aldri. (ég var 15 ára) En hann gerði aldrei lítið úr því við okkur, heldur nálgaðist hann það með því að segja okkur sögur úr æsku sinni, bera saman.. 
Ég hugsa oft til Jakobs.

Þingfundir var annað. Helgi þingheims var ekki sú sama og nú, samanber það að nýlega þurfti að fjalla þrisvar um það hvort íslenski fáninn fengi stað í þingsal. Ég er þess viss um að ef þetta mál hefði komið upp á þeim tíma sem ég var í þinginu þá hefði einhver einfaldlega pantað fána úti í bæ og hann verið settur upp.

Það var nefnilega allt svo heimilislegt í þinghúsinu. Sérstakt símaherbergi var til staðar þar sem tvær konur sátu við við tvö skiptiborð með 40 línum sem allar voru með nákvæmlega eins tökkum.
Samt mundu þær alltaf hver var á hverri línu og að spyrja um hvern! Svo var kallað í þingvörð, nú eða þingsvein, ef við vorum nálægir og við fengum bréfmiða með nafni þess sem beið á línunni. Þá hófst leitin að þingmanninum sem gat verið alls staðar í þessu stóra húsi.
Þótt maður væri lítill skellinöðrutappi með sítt hár í stórri hettuúlpu, þá fór maður samt inni í þingsal með skilaboðin ef þingmaðurinn var þar.

Það sem gerði Alþingi svo heimilislegt var sú staðreynd að á fyrstu hæð í Kringlunni drottnaði Þórdís Valdimarsdóttir matráðskona. Og hún var sko ákveðin!
Þar eldaði hún ofan í þingheiminn, á milli þess sem hún bakaði. Hvað gerir hús heimilislegra en matar- og bökunarilmur? Þannigi gat þinghúsið angað stafna á milli af kleinubakstri.
Og þingmennirnir sem stóðu hnarreistir í ræðustóli karpandi hver við annan í hápólitísku rifrildi, þeir sáust gjarnan strax eftir orrustuna niðri í eldhúsi, eins og bestu vinir sem höfðu sameinast um að biðja um nýbakaða kleinu og mjólkurglas. Og hvar hafði völdin þar?

Þarna voru mörg kunn nöfn á þingi. Geir Hallgrímson, Ólafur Jóhannsson, Halldór E. Sigurðsson, Friðjón Þórðarson eru allt menn sem menn eru hugstæðir. Þeir gáfu sig nefnilega að okkur strákunum.
En ég man líka sérstaklega vel eftir Helga Seljan og Karveli Pálmasyni. Góðir karlar.

Þrátt fyrir að vera í vinnu á svo virðulegum vinnustað þá áttum við þingsveinar margt óknyttið í þinghúsinu, enda vorum við stríðnir með afbrigðum.  
Sum prakkarastrikin rötuðu á forsíður blaða, og eitt þeirra var af einu dagblaði talið einn af merkari viðburðum ársins 1975, enda var málið forsíðufrétt eins dagblaðsins.
En vorum við reknir?

Nei, en við vorum skammaðir. Alveg helling. Og máttum svo hlusta á sögur um það hvað hefði sko verið gert við okkur hefðum við verið strákar samtíða Jakobi!

Ég á mjög hlýjar og góðar minningar úr þinginu.

Hvernig vinnubrögðin og andinn í þinghúsinu eru í dag þekki ég ekki.

Kannski lýsir þessi vísa Hjálmars Jónssonar Dómkirkjuprests því, en hann orti hana þegar hann hætti þingmennsku og flutti vinnustað sinn úr þinghúsinu yfir götuna og í Dómkirkjuna;

Labba ég yfir lítið hlað,
lífstré mitt þarf að vökva.
Nú er ég kominn á nýjan stað,
nú er ég hættur að skrökva.





Villi veit hvað þarf til...

 

 

 

Þetta er náttúrlega orðið löngu tímabært. Loksins kominn maður með viti í brúnna. Skipstjóri sem kann á siglingartækin.
Vilhjálmur er að taka verulega til í öllum málaflokkum borgarinnar. Hann setur fram loforð og hann mun standa við þau.
Kópavogur, mitt gamla sveitarfélag óx gríðarlega á kostnað Reykjavíkur undir stjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarmanna í tíð R-listans í Reykjavík.  Framsýni og stórhugur einkenndu þá sem nú stjórn bæjarfélagsins.
Greinilegt er að Vilhjálmur borgarstjóri ætlar að rétta hlut borgarinnar nú. Styrkur borgarinnar er gríðarlegur í þessum efnum, en hefur verið stórlega vannýttur til þessa.

Fróðlegt verður að fylgjast með hvernig lóðaúthlutun verður háttað, ég trúi ekki að Vilhjálmur ætli að hafa sama vitlausa háttinn á og R-listinn gerði, enda gerði sú stefna ekki nema efnuðustu mönnum mögulegt að eignast lóð. Þeir sem minna áttu, þeir náðu margir ekki að klára og fóru fjárhagslega illa út úr framkvæmdum sínum eins og Grafarholtið sýni gerlega , er það stóð hálfbyggt um langa hríð.
Nei, sanngjörn úthlutun, þar sem borgarbúum öllum er gert kleift að sækja um. Auðvitað má vera kerfi, svo sem hvort viðkomandi hafi áður fengið úthlutað, hversu lengi búsettur í Reykjavík svo eitthvað sé nefnt.

Reykjavíkurborg þarf að vaxa og hún mun gera það undir ötulli stjórn Vilhjálms. Hann hefur sýnt okkur það með gríðarlegri þrautseigju og áhuga með áratuga starfi í stjórnmálum að hann er fær um að rétta við það sem aflaga hefur farið í Reykjavík.


mbl.is Eitt af aðalverkefnunum að auka lóðaframboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Köngulóamaðurinn í Vilnius..

Þessi frægi köngulóamaður kíkti við hér í Vilnius sl haust.
Það skal engum undra að manni brá mjög þegar allt í einu birtist þessi maður á glugganum hjá mér á 23. hæð. Hann lét sig hafa það að klifra allar 33 hæðirnar á þessari byggingu sem telst hæsta skrifstofubygging í Eystrasaltslöndunum..
Hann á að sjást á báðum myndunum sem lítill díll...

DSC03045DSC03040


mbl.is Köngulóamaðurinn handtekinn í Malasíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þú álfu vorrar yngsta land...

Jæja, þá er það loksins komið. Eftir þrjár tilraunir hins háa Alþingis þá hefur loks verið samþykkt að íslenski fáninn skuli fá að blakta í þingsal. Í þingsal.

Tillaga um málið var flutt alls þrisvar sinnum. Að tillögunni stóðu 31 þingmaður.

Er það virkilega svo að það þarf þingsályktunartillögu um svo sjálfsagt mál?

Að hafa íslenska fánann í þingsal gæti kannski skemmt þá virðingu sem skjaldarmerki Kristjáns níunda á framhlið þinghússins færir hinu háa Alþingi?

 


mbl.is Íslenski fáninn í þinghúsinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kynferðis- og fötlunarbrot

Nú hefur fundum Alþingis verið frestað fram á sumar og eins og oft áður, þá verða til lög á færibandi á síðasta degi.
Vinnubrögðin síðustu daga fyrir þinghlé minna oft á tómatsósuflöskuna..

En, margt gott er gert, og ekki skal lítið úr gert.

Mikið er gert úr lögum um fyrningarfrest kynferðisafbrota, að alvarleg kynferðisafbrot fyrnist ekki. Mjög gott mál. 
Skyldu heyrnalausir hafa fengið sín mannréttindi í gegn? Að mál þeirra táknmálið hafi öðlast viðurkenningu sem fyrsta tungumál þeirra fyrir lögum?

Í Morgunblaðinu í dag er að finna stóra og greinargóða umfjöllun um málefni heyrnarlausra og þá meðferð sem þeir hafa mátt þola af hendi samfélagsins.
Málefni þeirra hafa verið til umfjöllunar áður og þá tengd stórkostlegri misnotkun á heyrnarlausum í Heyrnleysingjaskólanum, nokkuð sem þau máttu þola af hendi þeirra sem þau áttu að setja traust sitt á, kennurunum.

Við Íslendingar erum í uppgjörshug. Og er vel. Eftir umræðu um Byrgið kom umræða um Breiðuvík. Og eftir umræðu um Breiðuvík kom upp umræða um Bjargið. Og áfram heldur sagan, fleira á eftir að koma upp á yfirborðið.

Það er hreint sorglegt að lesa í Mbl. í dag hvað þetta fólk mátti þola. Meðan önnur börn byrjuðu í skóla 7 ára, þá máttu heyrnarlaus börn hefja skólagöngu sína 4 ára! Frá fjölskyldu sinni þvert yfir landið.

Og rökin var að finna í greinargerð með lögum sem sett voru árið 1962 og hljóma svo:

Flestum börnum þykir vænst um það barnið sem bágast á, og kemur ást þeirra á barninu oft fram í miklu eftirlæti, sem skaðar barnið og gerir það erfiðara viðfangs.

Þetta er náttúrulega bara fáránlegt. Þessi forsjárhyggja er dæmalaus. En það sem á eftir kom var mun verra. Eitt er að börnin voru sett í skóla 4 ára. En, hitt er öllu alvarlegra, þau fengu enga kennslu! Þau máttu læra á sömu bækurnar allt til 14 ára aldurs! Og ekki nóg með það, kennararnir kunnu sjálfir ekki táknmál. Í sumum tilfellum voru börnin send landshluta á milli til þess að sækja þetta dýrmæta nám fyrir sunnan. Í Reykjavík bjuggu þau svo á heimavist.

Táknmálið er líka annað mál. Táknmál var uppgötvað sem sérstakt tungumál árið 1960. Árið 1975 var það orðið viðurkennt á Norðurlöndum. Þrátt fyrir það, þá varð það ekki sýnilegt á Íslandi fyrr en upp úr 1986!
Heyrnarlausu börnin fengu í raun litla sem enga kennslu. Og staða þeirra margra í dag er eftir því. Þeim var sagt að þau væru baggi á þjóðfélaginu. 

Mig langar þó að nefna hér einn mann, sem er reyndar ekki samtíðamaður þess heyrnarlausa fólk sem hér er fjallað um. Hér er um að ræða Braga Ásgeirsson listamann. Þrátt fyrir nánast algjört heyrnarleysi sitt og að vera mjög illa fær um að gera sig skiljanlegan á talmáli, þá er hér um að ræða ritsnilling. Fáir standa honum á sporði í rituðu máli.
Sem listgagnrýnandi er hann einn okkar fremstu.

Lengi vel fengu heyrnarlausir aðeins 50% örorku, á meðan heyrnarskertir fengu 75%.
Sjálfsmynd heyrnarlausra er í mörgum tifellum brotin. Sálfræði- og ráðgjafarmeðferðir eru eitthvað sem sum þeirrra sækja í dag til þess að bæta sjálfsímyndina. Sem von er.
Bæði máttu þau þola kynferðislega misnotkun, litla sem enga menntun og síðar, höfnun samfélagsins þegar kemur að atvinnumálum. Dæmi eru um uppgjöf af þeirra hálfu af þeim sökum. Skal engan undra.

Nú vilja heyrnarlausir leiðréttingu mála sinna, og þau vilja uppgjör við samfélagið. Á því eiga þau svo sannarlega rétt. Ég vona að þeir sem ábyrgðina bera í dag bregðist ekki heyrnarlausum.

Frumvarp til laga um táknmál sem fyrsta tungumál heyrnarlausra, heyrnardaufra og sjónskertra hefur verið flutt þrisvar á Alþingi án afgreiðslu. Bíddu, eru það ekki mannréttindi???

Getur verið að við höfum hreinlega litið á heyrnarlausa sem hálfþroskahefta? Að heyrnarlausir og málhaltir hafi aldri notið sannmælis af þeirri einföldu ástæðu að við hin höfðum ekki vit á hlutunum sjálf?

Ég man eftir heyrnarlausum úr æsku minni. Þau voru fjarlæg, enda engir samskiptamöguleikar.

En ég man líka eftir málhöltum.

Og ég man að í sjónvarpinu þótti sjálfsagt að gera grín að þeim. Ég man eftir Ómari Ragnarssyni skemmtikrafti sem gerði út á það að gera grín að öðrum sem lágu vel við höggi. Þannig gerði hann sig fyndinn á kostnað Helga heitins Sæmundssonar.

Af þessari ástæðu hélt ég lengi að Helgi Sæmundsson væri skrýtinn karl. Helgi heitinn hvarf af sjónarsviðinu í marga áratugi. Fór a.m.k. lítið fyrir honum.

Seinna á lífsleiðinni átti ég þess kost að kynnast Helga heitnum lítillega. - En nægilega til þess að sjá að þar fór einn af mestu mönnum sinnar kynslóðar. Gríðarlega greindur, stórkostlega minnugur og algjör ræðusnillingur! - Þekking hans á íslenskunni, sögunni, ljóðum og hverju öðru var engu lík.

Ég kynntist honum í gegnum Karlakórinn Fóstbræður, en þar var Helgi heitinn heiðursfélagi. Sjálfum dreymdi honum um að syngja, en það var honum ekki unnt. En, hann gerði annað, hann skrifaði ljóð fyrir Fóstbræður sem tónsett var af ekki minna en fjórum tónskáldum.
Og, kórinn flutti á tónleikum þetta ljóð Helga, Blómarósir, við lög þessara fjóru tónskálda á einum og sömu tónleikunum.
Þannig söng Helgi í gegnum okkur Fóstbræður. 

Við höfum gert stór mistök. Við höfum brugðist minni máttar. Í dag höfum við góða þekkingu á málefnum þeirra sem minna mega sín. Þessa þekkingu eigum við að nýta til þess koma til móts við það fólk sem samfélagið brást á sínum tíma.
Mætum kröfum þeirra.

Við skulum viðurkenna að við brugðumst skyldum okkar, og það sem verra er, við gerðum þeim rangt til.


mbl.is Fundum Alþingis frestað fram á sumar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hógvær og hæfileikaríkur

Þetta eru frábærar fréttir. Garðar Thór Cortes hefur allt til að bera.
Hógvær og sannur listamaður sem hrífur áheyrendur með prúðmannlegri framkomu.

Að hann sómi sér í Il Divo yrði í besta falli til þess að bæta þann kvartett sem ég gef ekki mikið fyrir.

Garðar og Einar vita sem rétt er, að hann á miklu betri framtíð undir sér sjálfum. Frægðin þekkir hann frá Nonna og Manna myndunum, þær njóta enn vinsælda í Þýskalandi. Frægðin stígur honum ekki til höfuðs.

Sómadrengur sem á þetta sannarlega skilið.


mbl.is Garðar Thor Cortes vekur athygli á Englandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Baltasar með Pétri Gaut til Litháen

Varanlegur auður þinn verður aldrei meiri en breytni þín í lífinu segir til um segir einhvers staðar.

Við Íslendingar eigum skáld og við eigum athafnaskáld. Ekki marga sem hafa verið hvort tveggja, en líklega er Einar Benediktsson sá sem helst getur sameinað þessi tvö hugtök. Stórar hugmyndir og mikil framsýni einkenndu starfsævi hans, en einnig litrík ævi.  Þannig gat honum borist mjög á, átt mikla peninga, en sögur segja að honum hafi líka verið gefið að berast á þótt svo litlir eða engir peningar hafi verið til.
einar ben


En þetta ríkidæmi hans og veglegur lífsstíll kenndi honum margt. Ef lesið er í gegnum ljóðin hans, þá skín í gegnum þau þessi lífssýn, að peningar eru ekki allt.

Mér hefur alltaf þótt vænt um þessar línur úr Einræðum starkaðar;

En mundu þótt veröld sé hjartahörð,
þótt hrokinn sigri og rétturinn víki,
að bölið sem aldrei fékk uppreisn á jörð,
var auðlegð á vöxtum í Guðanna ríki.

Og þegar skáldið var orðið mjög aldurshnigið í Herdísarvík, þá var þetta sagt vera einn hans síðasti skáldskapur. Segja má að ljóð hans flest endurspeglist í þessum fjórum línum:

Gengi er valt þá fé er falt,
fagna skaltu í hljóði.
Hitt varð alltaf hundraðfalt
sem hjartað galt úr sjóði.

Einar Ben gerði margt um ævina, kannski of margt, hann var umdeildur. En, spyrja má; hvers vegna verða menn umdeildir? Og; er slæmt að vera umdeildur?
Er það ekki einfaldlega svo að menn verða umdeildir af því þeir láta til skarar skríða?
Til er máltæki sem segir á ensku: If you have never failed anything, you have never done anything.
Þessum orðum er ekki beint gegn Einari Ben. Þvert á móti. Margar og kannski flestar hugmyndir hans urðu ekki að veruleika. Eins gott með þær sumar, en framsýnar voru þær.

En sú mikla arfleifð sem hann skildi eftir sig lifir enn. Nú var ég að lesa það í Mbl., að Baltasar Kormákur hefur tekið að sér að leikstýra Pétri Gaut í Þjóðleikhúsi þeirra Litháa. Þetta er miklar fréttir fyrir mér. Slíkt menningarsamstarf er gríðarlega mikils virði fyrir okkur. Það segir okkur einnig, enn og aftur hversu metinn Baltasar er orðinn. Litháar eru gríðarlega mikið menningarfólk. Hér eru mörg leikhús sem öll eru vel sótt, sýningar ganga vikum og mánuðum saman.
Ég man hvað ég var hissa þegar ég heyrði að mynd Lars Von Tirer, Dancer in the dark var sýnd hér um langa hríð og ég hef hitt fólk sem hefur séð hana þrisvar.
Litháar eru alvörugefið og hugsandi fólk. Hér í þessu landi er að finna tvisvar sinnum fleira fólk með æðri menntun en í öðrum Evrópulöndum, MBA og hærra.

Að segja Litháa brandara getur verið nokkur áhætta. Þú verður að vera undir það búinn að mæta alvörugefnu andliti sem ekki stekkur bros en vill fá útskýringar á hlutunum.
En sértu léttlyndur, brosmildur og tala nú ekki um söngglaður, þá áttu athygli þeirra alla.
Þessi þjóð á nefnilega eftir að hrista af sér drunga liðinna áratuga. Saga þeirra er mörkuð djúpum sárum sem taka mun kynslóðir að má yfir ef einhvern tíma verður hægt.

Þegar Einar Benediktsson þýddi Pétur Gaut á sínum tíma, var það honum ekki auðvelt. Verkið var mjög erfitt í þýðingu og hann tók sér hvíldir við þýðinguna. Ef ég man rétt þá tók þýðing þess hann marga mánuði.

Nú er Pétur Gautur nýju lífi glæddur, og orðinn vinsæll að nýju. Farinn að ferðast um heiminn í fylgd fremstu leikstjóra heims.
Þessu ber að fagna.

Þetta er varanlegur auður.



 

 

 


Seljum verndun hvalanna

Þá er komið tilboð í tvær Langreyður, rúmar ellefu milljónir. Ekki há upphæð.

Ég vil taka þetta mál áfram. Hvalurinn er orðinn eitt höfuðtákna umhverfisverndar og verður því alltaf erfitt fyrir okkur að standa í veiðum hans. Við megum ekki við slíkri umfjöllun sem af veiðun hvala hlýst, þar er einfaldlega verið að fórna meiri hagsmunum fyrir minni.

Rétt eins og almennur fiskkvóti er eigna ákveðinna aðila í dag, þá geri ég að tillögu minni að hvalveiðikvóti verði boðinn út til t.d. 5 ára í senn. Ekki til veiða, heldur til verndar. Þannig fengi hæstbjóðandi hverju sinni, rétt til þess að nota ákveði LOGO á vöru sína sem gefur til kynna að með kaupum á vöru þessari er verið að vernda hvali frá veiði.

Ég sé til dæmis Jón Ólafsson setja slíkt merki á vatnið sitt sem nú er að seljast grimmt síðar og víðar um heiminn, nú ef uppboðið tækist vel og fengi góða umfjöllun, þá má alveg eins ímynda sér Coca Cola eða Pepsi nýta sér slíkt.

Ef stórfyrirtæki færu á annað borð að slást um slíkt logo, þá gætu verið umtalsverðar fjárhæðir í spilinu...

 


mbl.is WSPA bjóða ríkisstjórninni 95.000 pund fyrir tvo hvali og samning
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband