Þegar ég var í Alþinginu

 

 

Nú eru um 30 ár síðan ég hætti í þinginu. Það var afar skemmtilegur tími. Þá var Alþingi öllu heimilislegra en nú er. Þinghúsið minna og umfangið miklu minna.
Þrátt fyrir að þingmannafjöldinn sé enn hinn sami, þá hefur þingið teygt sig víðar um Austurvöllinn og byggt hefur verið við þinghúsið. Starfsmannafjöldinn í dag eflaust þrisvar sinnum meiri en þá var.
Það sem vakti athygli mína á sínum tíma er ég hóf þar vinnu hvað starsfólk var allt gamalt.
Þingverðirnir voru flestallir fyrrverandi lögreglumenn sem komnir voru á eftirlaun. 

Skrifstofa þingsins taldi Friðjón Sigurðsson skrifstofustjóra, afar hæglátan mann á sjötugsaldri og Ólaf Ólafsson aðstoðarskrifstofustjóra, hörkukall sem lét til sín taka.

Ritari var Sigríður Bjarklind, sem þá var komin hátt á sjötugsaldur, en henni til halds var frænka hennar Unnur Bjarklind sem þá var rúmlega tvítug og taldist afar ungur starfskraftur. Báðar eru þær nú látnar. Önnur í hárri elli, en hin langt um aldur fram.

Skjalavörður var gamla glímukempan og fyrsti formaður Glímusambandsins, Kjartan Bergmann Guðjónsson. Á sjötugsaldri. Merkilegur og ákveðinn karl sem hélt utan um lögin ef svo má segja, hann hafði sérstakt herbergi með gríðarmörgum boxum þar sem greinargerðum, þingáslyktunartillögum og lögum var haldið til haga.

Þingverðirnir voru eins og fyrr segir gamlir lögreglumenn. Þetta voru góðir karlar, misjafnlega á  sig komnir til heilsu, en starf þeirra í þinginu krafðist alla jafna ekki mikilla krafta, einungis að vera til staðar.

Yfirþingvörður var Jakob Jónsson. Eftirminnilegur öllum þeim sem hann hittu. Lágvaxinn, samanrekinn karl sem stóð á sjötugu. Gamall lögreglumaður sem búinn var að lenda í ýmsu á sínum ferli og átti sögur af sér úr starfi sínu á stærstu stundum þjóðarinnar.
En hann átti líka margar fræknar sögur af sér sem ungum manni, sem allar byrjuðu svo; ..þegar ég var ungur smali... Honum fannst nefnilega lítið til þess koma sem við, þingsveinarnir áttum að gera miðað við það sem hann hafði mátt leggja af mörkum á okkar aldri. (ég var 15 ára) En hann gerði aldrei lítið úr því við okkur, heldur nálgaðist hann það með því að segja okkur sögur úr æsku sinni, bera saman.. 
Ég hugsa oft til Jakobs.

Þingfundir var annað. Helgi þingheims var ekki sú sama og nú, samanber það að nýlega þurfti að fjalla þrisvar um það hvort íslenski fáninn fengi stað í þingsal. Ég er þess viss um að ef þetta mál hefði komið upp á þeim tíma sem ég var í þinginu þá hefði einhver einfaldlega pantað fána úti í bæ og hann verið settur upp.

Það var nefnilega allt svo heimilislegt í þinghúsinu. Sérstakt símaherbergi var til staðar þar sem tvær konur sátu við við tvö skiptiborð með 40 línum sem allar voru með nákvæmlega eins tökkum.
Samt mundu þær alltaf hver var á hverri línu og að spyrja um hvern! Svo var kallað í þingvörð, nú eða þingsvein, ef við vorum nálægir og við fengum bréfmiða með nafni þess sem beið á línunni. Þá hófst leitin að þingmanninum sem gat verið alls staðar í þessu stóra húsi.
Þótt maður væri lítill skellinöðrutappi með sítt hár í stórri hettuúlpu, þá fór maður samt inni í þingsal með skilaboðin ef þingmaðurinn var þar.

Það sem gerði Alþingi svo heimilislegt var sú staðreynd að á fyrstu hæð í Kringlunni drottnaði Þórdís Valdimarsdóttir matráðskona. Og hún var sko ákveðin!
Þar eldaði hún ofan í þingheiminn, á milli þess sem hún bakaði. Hvað gerir hús heimilislegra en matar- og bökunarilmur? Þannigi gat þinghúsið angað stafna á milli af kleinubakstri.
Og þingmennirnir sem stóðu hnarreistir í ræðustóli karpandi hver við annan í hápólitísku rifrildi, þeir sáust gjarnan strax eftir orrustuna niðri í eldhúsi, eins og bestu vinir sem höfðu sameinast um að biðja um nýbakaða kleinu og mjólkurglas. Og hvar hafði völdin þar?

Þarna voru mörg kunn nöfn á þingi. Geir Hallgrímson, Ólafur Jóhannsson, Halldór E. Sigurðsson, Friðjón Þórðarson eru allt menn sem menn eru hugstæðir. Þeir gáfu sig nefnilega að okkur strákunum.
En ég man líka sérstaklega vel eftir Helga Seljan og Karveli Pálmasyni. Góðir karlar.

Þrátt fyrir að vera í vinnu á svo virðulegum vinnustað þá áttum við þingsveinar margt óknyttið í þinghúsinu, enda vorum við stríðnir með afbrigðum.  
Sum prakkarastrikin rötuðu á forsíður blaða, og eitt þeirra var af einu dagblaði talið einn af merkari viðburðum ársins 1975, enda var málið forsíðufrétt eins dagblaðsins.
En vorum við reknir?

Nei, en við vorum skammaðir. Alveg helling. Og máttum svo hlusta á sögur um það hvað hefði sko verið gert við okkur hefðum við verið strákar samtíða Jakobi!

Ég á mjög hlýjar og góðar minningar úr þinginu.

Hvernig vinnubrögðin og andinn í þinghúsinu eru í dag þekki ég ekki.

Kannski lýsir þessi vísa Hjálmars Jónssonar Dómkirkjuprests því, en hann orti hana þegar hann hætti þingmennsku og flutti vinnustað sinn úr þinghúsinu yfir götuna og í Dómkirkjuna;

Labba ég yfir lítið hlað,
lífstré mitt þarf að vökva.
Nú er ég kominn á nýjan stað,
nú er ég hættur að skrökva.





« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Birgir Guðjónsson

Skemmtileg frásögn. Það er hollt og gott fyrir unglinga að starfa með eldra fólki þ.s ef það er fjörlegt og heilt á geði. Ég hef einnig sambærilega reynslu og þú. 

Birgir Guðjónsson, 22.3.2007 kl. 16:28

2 identicon

30 ár hmmmmmm..... þú lítur nú ekki út fyrir að hafa verið á þingi fyrir 30 árum ( ég meina að ég hélt þú værir mikluuuuuuuuuu yngri)

athugul persóna (IP-tala skráð) 28.3.2007 kl. 16:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband