Færsluflokkur: Bloggar
17.8.2007 | 16:55
Presley..
Ég man það eins og það hafi gerst í gær. Þetta var Ég var í heyskap austur á Bergsstöðum í Biskupstungum, 16 ára polli, alsæll að snúa í brakandi þurrki á glænýjum Úrsus traktór sem Grímur vinur minn Guðmundsson forstjóri Íspan, og einn eigenda jarðarinnar Bergsstaðir, hafði þá nýverið fest kaup á.
Haukur Daðason, bóndinn á bænum, hafði vakið mig snemma um morguninn með þeim orðum að svona þurrk skyldi nýta í botn! Ég lét ekki segja mér það tvisvar og gekk í málið.
Haukur var einstæður og hafði ekki sína ævi haft um aðra að hugsa en sjálfan sig. Svo, það var ekkert smurt oní strákinn, sem heldur var ekkert sérstakt morgunátvagl svo það kom ekki að sök. Ekkert vanur að vera að éta mikið á morgnana, eða yfir höfuð sosem.
En, þegar snemma var vaknað og unnið hörðum höndum við að snúa fram yfir hádegi, þá verður maður svangur, alveg sama hvað maður er matgrannur. En í brakandi þurrki þýðir ekki að fást um svengd, maður verður að láta sig hafa það, enda mikil ábyrgð á grönnum öxlum.
Úrsusinn var hávaðamaskína með sinn austantjaldsmótor með gangverk sem hljómaði eins og tíkallar í makkintosdollu, keppti við garnagaulið í mér þarna á túninu, og mátti vart sjá hvor hafði betur.
Svengdin var orðin mikil.
Útundan mér sé ég að Bergur heitinn í Fák, eins og hann var kallaður enda var hann formaður Hestamannafélagsins Fáks og einn eigenda Bergsstaða, er að dröslast við að opna hliðið inn á túnið ásamt Rögnu konu sinni. Yndælisfólk, barnlaus eins og bóndinn á bænum. Sólin glampaði á gluggunum á appelsínugulu Volkswagen bjöllunni þeirra í fjarlægðinni. Þau ná að opna hliðið og koma svo keyrandi yfir ilmandi slægjuna til mín, sem ekki átti von á neinum, enda þrælupptekinn.
Þau keyra að enda túnsins og bíða mín, að leið mín í þessum heysnúningum liggi til þeirra, sem hún og gerir, og ég stoppa Úrsusinn og prósessinn allan.
Ástæða heimsóknar þeirra: Að færa mér nýsmurt brauð með alls kyns girnilegu áleggi og ískalda mjólk. Hvað þetta var kærkomin heimsókn! Mér var alltaf vel við þau bæði, þetta var fólk með afskaplega hlýja og góða nærveru. Þarna voru þau komin að hugsa um mig! Ég man hvað ég var þeim innilega þakklátur. Við áttum þarna góða stund í sólinni, Fólksvagninn stóð þarna með opna hurðina og útvarpið stillt hátt, enda von á fréttunum.
Svo komu fréttirnar: Elvis Presley dáinn!
Ég sem fram að þessu hafði aldrei misst neinn, var allt í einu búinn að missa Elvis! Algjört sjokk.
En það góða; Elvis lifir. Og ég held mikið upp á hann. Syng hann meira að segja oft í karaókí.
Held að Presley hafi verið hrekklaus og góður maður. Bara alltof frægur, ríkur og dáður.
Elvis lifir eins og þetta andartak þarna á túninu lifir í mínu minni, og kemur alltaf upp þegar ég heyri rætt um dauða Elvis. Þessi mynd; Appelsínugula Bjallan, Bergur og Ragna, bakkinn með brauðinu, og rödd fréttaþularins sem hljómaði af sannri sorg.
Sú arfleifð sem Elvis Presley skildi eftir sig verður líklega aldrei toppuð. Enginn, konungur, forseti, páfi eða hvað annað nýtur slíkrar hylli eftir daga sína sem Elvis Presley. Daglega njóta milljónir manna um heim allan tónlistar hans, enda byggir hún á einlægni og textarnir hálfgerður alþýðuskáldskapur sem eru nógu einfaldir til að allir skilji.
Elvis lifir þótt hann deyji.
Bloggar | Breytt 23.8.2007 kl. 17:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.8.2007 | 10:23
Helgin..
Við Armina slógumst á laugardagsmorgun í för með 14 manna hóp sem lagði í siglingu niður ána Zeimena. Á laugardeginum rerum við alls 12 km við ærsl og mikið fjör, en þessi á rennur í miklum hlykkjum í gegnum litháíska skóga.
Á þessari mynd er mikill ærslabelgur, Gediminas sem sótti fast að okkur með ýmsum hrekkjum, en við vörðumst ötullega, oftar en ekki höfðum við sigur. Öllu erfiðara reyndist að verjast þegar við rerum inn í svanafjölskyldu, þar sem alls voru 8 nánast uppkomnir ungar.
Fjölskyldufaðirinn var alls ekki sáttur við þessa heimsókn og gerði sig líklegan til að ráðast á okkur, en úr varð ekki, við gáfum auðvitað ekki færi á því, og hröðuðum okkur burt. Hann, til að sýna styrk sinn elti okkur langa leið til ''hrekja'' okkur brott.
Um kvöldið var hann svo ekki meiri töffari en svo að hann mætti á tjaldsvæðið hjá okkur og át brauð í miklu magni úr lófa okkar. Afar undirgefinn og alsæll...
Við undum okkur vel þarna um kvöldið, borðuðum vel og spjölluðum fram á nótt.
Svo var hvílst fram á hádegi á sunnudag, pakkað saman og svæðið snyrt áður en haldið var áfram.
Hitinn var allt að 30 stig, svo maður fór sér í engu óðslega :)
Öllu heitara var þegar við rerum fram á skógareld sem kviknað hafði og mátti í raun engu muna. Við náðum með harðfylgi að slökkva eldana og halda þeim niðrið áður en slökkviliðið mætti, reyndar allt of seint, enda villtust þeir í skógunum....
En allt fór þessa vel og eftir allt brunastandið var við hæfi að kvenfólkið stingi sér til sunds og baðaði sig...
Karlpeningurinn naut þess hins vegar að vera sótugur upp fyrir haus og vel ilmandi af hreystiverkum dagsins...
Þetta var afar góð ferð sem stóð fram á sunnudagskvöld.
Við vorum því afar þreytt þegar heim kom, en vaknaði snemma í morgun endurnærður eftir alla útiveruna og klár í slaginn.
Segi það nú ekki, að eftir allan þennan hita um helgina, þá var gott að setjast við skrifborðið og kveikja á kælingunni.....
Bloggar | Breytt 20.8.2007 kl. 06:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.8.2007 | 09:50
Finnair yfir Rússlandi
Finnair er eitt fárra flugfélaga sem hefur beina yfirflugsheimild yfir Rússland, sem skapar félaginu sérstöðu. Þannig styttist tími þeirra mjög svo fjölgandi ferðamanna sem ferðast frá Asíu. Félagið hefur verið að bæta ört við ferðum undanfarið og ekki úlit fyrir annað en að sætanýting eigi eftir að stóraukast í framtíðinni eins og fram kemur í frétt Mbl.
Þessi fjárfesting íslenskra fjárfesta er því eitthvað sem menn ættu að sitja á. Vantaa flugvöllur í Finnlandi er að verða Asíubúum eins og Heathrow og Kastrup fyrir Evrópubúa. Þannig er Vantaa völlurinn nýttur sem transfer völlur. Á tíðum ferðum mínum til Finnlands undanfarin tæp þrjú ár hefur maður ekki farið varhluta af vaxandi umferð um völlinn.
Finnair og Icelandair:
Mér er það nokkurt þakkarefni, að enn hafi íslenskir fjárfestar ekki náð ráðandi eignarhlut í Finnair. Ekki það að ég geti ekki unnt þessum mönnum að hagnast á því. Þvert á móti, ég er stoltur af íslenskum fjárfestum.
En þetta hefur með matinn að gera. Hann er góður hjá Finnair, jafn góður eins og henn er orðinn slæmur hjá Icelandair, eftir ''Hagræðingu'' fjárfestanna sem þurfa enn meiri arð af bréfum sínum.
Að upplifa hvernig þeir hafa farið með Icelandair undanfarið tekur mig sárt.
Það var mér jafnan gleðiefni að komast um borð í Icelandairvélarnar og fá þann góða mat sem jafnan var á boðstólum.
Nú er svo komið að ekki er lengur boðið upp á annað en einhverja ógeðslega kalda stöppu sem er vandlega pökkuð í upphitað plast. Ekki er fyrir alla að opna pakkningarnar um þennan ógeðslega mat, því mikið þarf að leggja á sig að komast í gegnum pakkningarnar. Hávaðinn sem þessum plastupprifum fylgir, þegar farþegar eru að rífa þetta upp á svipuðum tíma, er hreint niðurlægjandi að þurfa að hlusta á, enda ber þetta vott um hnignun Icelandair.
Ég hef aðeins einu sinni flogið með Iceland Express. En ég verð að segja að það félag fer að verða betri kostur þegar á matinn er litið, því heldur vildi ég geta kosið um Sómasamloku en það sem Icelandair býður upp á.
Þá hef ég heyrt að til að spara enn meira, þá hafi Icelandair fækkað um eina flugfreyju í hverju Ameríkufluginu til að spara. Ekki sel ég það dýrara en ég keypti það, en hér er um stórt öryggisatriði að ræða einnig, því af þessu hlýst að þeir sem sitja við neyðarútganga eru nú orðnir ábyrgir fyrir öryggi annarra, þeir axla nú þá ábyrgð sem týnda flugfreyjan hafði.
Ekki veit ég hvort þetta er satt, en ef svo, þá er hnignun okkar góða félags enn vísari.
Þetta er kannski þakklæti Icelandair til íslensku þjóðarinnar sem gekk í ábyrgð fyrir tuga milljarða ábyrgð til þess að félagið gæti starfað eðlilega eftir 11. september?
Uppgangur hjá Finnair | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.8.2007 | 09:26
Kristinn Hallsson In memoriam
Í dag verður til moldar borinn einn þeirra manna sem sett hafa hvað mestan svip á íslenskt tónlistarlíf í gegnum tíðina.
Kristins Hallsonar verður minnst sem manns sem átti alla möguleika á glæstum ferli á heimsvísu, en kaus þess í stað að tileinka sína góðu hæfileika og fallegu söngrödd fámennu föðurlandi sem fram til þess tíma hafði einungis átt tilbreytingasnautt tónlistarlíf.
Framlag Kristins Hallssonar sem byggt var á fágun, hógværð og virðingu fyrir listinni átti upphaf sitt bæði í Dómkórnum og ekki síst í Karlakórnum Fóstbræðrum, en faðir Kristins Hallssonar, Hallur Þorleifsson var einn stofnenda kórsins og aðaldriffjöður hans um árabil. Þá var móðir Kristins, Guðrún Ágústsdóttir afar söngvin. Söngur var honum því í blóð borinn.
Kristinn tilheyrði kynslóð söngvara sem lagði traustan grunn að sönglífi okkar, en einstæð rödd hans, og það vald sem hann hafði á henni við túlkun hinna ýmsu hlutverka, verður alla tíð söngvurum innblástur til fullkomnunar.
Hugur hans stóð ekki til veraldlegra gæða, eins og fram kemur í upphafi þegar hann tekur Ísland fram yfir mögulegan feril úti í hinum stóra heimi. Fjölskyldan, listin og Fóstbræður var hans veröld og dugði honum vel.
Enn ertu fögur sem forðum, Tondeleyo og svo mörg önnur lög einhvern veginn tilheyra Kristni.
Á ferli mínum í Fóstbræðrum átti ég þess kost að kynnast lítillega þessum merka manni.
Hann kom mér fyrir sjónir sem ekki allra. Góðlátleg kímni einkenndi hann. Stund með honum var upplifun, raddblærinn hafði fyrir löngu skipað sér sess í minni mínu, og því upplifði maður Kristinn sem einhvern sem maður hafði þekkt alla tíð þegar hann talaði.
Mér er sérstaklega minnisstætt þegar við Fóstbræður fögnuðum í Háskólabíói 80 ára afmæli okkar árið 1996, en þá söng Kristinn með okkur opinberlega í síðasta sinn í verki eftir Beethoven, en sjálfur hafði hann orðið 70 ára fyrr á því ári.
Við Fóstbræður áttum þess kost að gleðja hann á þeim degi sem var 4. júní 1996, en við vorum þá á siglingu á Finnska flóanum um borð í M/S Mariellu. Við klæddum okkur upp í kjólföt, fórum á fínasta veitingastaðinn um borð í þessu mikla skipi og fögnuðum.
Fyrir Kristinn, sem staddur var í sumarhúsi í Grímsnesi, sungum við í gegnum gervihnött í tilefni dagsins.
Þótti honum mikið til þess koma að sitja í Grímsnesinu og hlusta á okkur '' beint'' frá útlandinu.
Ferill hans sem kórfélaga í Fóstbræðrum var ekki langur, enda eiga einsöngvarar oftast ekki samleið í kór. En það breytti ekki því, Kristinn var Fóstbróðir og sýndi félagi sínu mikla tryggð alla tíð og söng með kórnum við hin margvíslegustu tækifæri.
Síðustu ár sín lifði hann á Hrafnistu í Hafnarfirði, farinn að heilsu. Sinnið var þó alltaf í lagi, og víst hefur hann átt sínar stundir við endurupplifun góðra stunda með tónlistargyðjunni þar sem hann sat og fór yfir farinn veg á ævikvöldi sínu.
Kristinn Hallsson lifir áfram í tónlist sinni. Ferill hans og stórt framlag til undirstöðu tónlistarlífs
okkar, bæði í söng og í hinum ýmsu trúnaðarstörfum, hafa fyrir löngu komið Íslandi á heimskortið.
Heimsfrægðin sem vék fyrir ferli hans heima fyrir, hefur því fyrir löngu borið ávöxt langt út fyrir landsteinana.
Ég sakna þess í dag að geta ekki verið viðstaddur útför Kristins Hallsonar, geta ekki staðið í kórnum mínum Fóstbræðrum og sungið yfir Kristni Hallssyni, en ég er svo sannarlega með í anda.
Ég votta góðvini mínum, Sigurði, syni Kristins og fjölskyldu hans mína dýpstu samúð.
Bloggar | Breytt 9.8.2007 kl. 07:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.4.2007 | 07:13
Blöndun á staðnum
Ég er nógu aldraður til þess að muna eftir apparati sem flutt var inn til Íslands fyrir um 30 árum og átti að vera nógu hraðvirkt til þess að keyra um þjóðmalarvegi landsins og malbika þá um leið. Þetta var gríðarleg bylting og mjög úr málinu gert, umfjöllun um alla fjölmiðla myndir af þessu framtíðartæki sem við Íslendingar vorum svo framsýn að eignast.
Eitthvað gekk brösuglega að fá apparatið til að virka, það hvort það var hinn íslenski jarðvegur sem ekki tók vel við eða loftslagið verð til þess að efniviðurinn náði ekki saman, en ég man að nokkrum árum síðar rakst ég á apparatið upp við Esjurætur. Ónothæft og úr sér gengið.
Við eigum að gefa málunum tíma. Sama hver á í hlut. Að verða Íslendingur eru forréttindi. Mikil forréttindi. Það má ekki verða svo að námsmaður sem hingað kemur fyrir forvitnissakir til að nema á nýrri grundu geti öðlast ríkisborgararéttindi fyrir þær einu sakir að hafa skotið sér í rétt (vitlaust) pólitísku afsprengi.
Lögin þurfa að vera skýr, og það þarf að fara eftir þeim.
Annars talar Framsóknarmenn fyrir sig sjálfir, nú sem fyrr. Virðist sama hversu fylgi þeirra hrynur athafna þeirra vegna á milli kosninga, þeir kunna ekki aðra pólitík en fyrirgreiðslupólitík.
Nefndarmenn hafi tekið fram að þeim hafi verið ókunnugt um tengsl Jónínu og umsækjandans | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.4.2007 | 19:42
Unglingsþjóðin...USA
Bandaríkin hafa gjarnan yfir sér ljóma, sérstaklega í hugum þeirra sem ekki hafa sótt þá heim. Sama gilti um mig ungan manninn sem á sínum tíma tók saman föggur mínar, seldi það sem safnast hafði sem var Mazda 929 2ja dyra árgerð 1978 og einhverjir aurar og reisti til Bandaríkjanna. Tilgangurinn: að læra að fljúga, til að bæta við það nám sem ég hafði þá lagt í hér heima.
Dagurinn rann upp, gríðarleg snjókoma þegar ég hélt í flugvélina sem var Douglas DC 8. fjögurra hreyfla þota sem þá var þegar á undanþágu í USA vegna gríðarlegs hávaða í aðflugi og flugtaki.
Íslendingum, þessari fátæku smáþjóð var gert kleyft að nota þessar þotur lengur en öðrum þjóðum við flug í USA. Flugið var jafnan leggurinn New York-Keflavík-Luxemburg, ferðatilboð til Bandaríkjamanna sem gerði þeim kleyft að ferðast til fyrirheitnu Evrópu.
Þetta voru á köflum eins og gripaflutningavélar fullar af sveittum Amerískum fátæklingum. Ef maður var lánsamur, þá gat maður beðið um sæti í reyklausu. En, ég var ekki heppnari en svo að ég lenti í næstu sætaröð fyrir framan reyk, þannig að ég sat í reykskýji alla leiðina. Ekki gott fyrir pilt sem aldrei hafði reykt, en ekki að fást um það, tilhlökkunin var mikil og markmiðið hátt.
Ég hafði fengið passa í sendiráðinu heima eftir að hafa svarað alls kyns spurningum um mögulega þátttöku í kommúnístaflokkum og áróðri. Passinn gilti til 3ja mánaða.
Framundan, þetta fyrirheitna land svo margra. Allt sem maður hafði séð í bíómyndunum um Land of the free and home of the brave..
Nú, á endanum lenti maður í JFK flugvellinum í New York og þaðan í immigration. Skal nú viðurkenna að það kannski leit ekki vel út að mæta þarna með einn vodkapela og tyggjókarton og ekkert annað, en þegar maður er 21, þá er maður ekkert að velta slíkum smámunum fyrir sér. Átti nógan aur og ætlaði bara að kaupa það úti sem mig vanhagaði um.
En, land of the free og home of the BRAVE var ekki að kaupa það að þessi íslenski piltur væri í raun að fara í flugnám með þetta eitt í farteskinu. Hugrekki þeirra að hleypa pilti í fyrirhitna landið var einfaldlega ekki til staðar. Svo, ég skyldi heim með sömu vél.
En, einhvern veginn tókst mér á endanum að sannfæra þá tvo sem ég sat fyrir svörum hjá að ég væri ekki kominn í neinum misjöfnum tilgangi, einfaldlega á leið til Dallas í Texas þar sem beið mín innganga í flugskóla.
Og, mér var hleypt áfram með tyggjóið og vodkann. Hélt til Dallas þar sem beið mín allt sem til þurfti. Fékk vinnu við að bóna einkaþotur, draga þær út úr flugskýlunum og setja upp rauða dregilinn fyrir þá sem voru að fara í flug sem margir hverjir voru auðvitað ríkir og frægir.
En, þótt glansmyndin væri fín, Dallas skemmtileg að mörgu leyti, þá kom mér verulega á óvart hvað fólkið sem hafði alltaf á takteinum spurninguna How are you? var í rauninni skítsama hvernig ég hefði það. Ekki það að ég væri að ræða endilega um það, en Bandaríkjamenn eru í raun afar lokað fólk. Í hverfinu það sem ég bjó vantaði ekki að fólk hafði mikinn áhuga á ef nýtt fólk flutti í hverfið. Þannig var gjarnan farið með köku til hinna nýfluttu. Gestrisni? Ekki beint. Í raun eru Bandaríkjamenn eingöngu að kanna hvort einhver vá stafi af hinum nýja nágranna.
Engin samskipti eftir það.
Ég lærði margt um Bandaríkjamenn á þeim tíma sem ég var þar. En bestu skilgreiningu á þeirri þjóð las ég í viðtali við íslending sem þekkti þá af eigin raun einnig eftir að hafa búið þar.
Unglingsþjóð kallaði hann þá.
Einhver sagði að besti staðurinn fyrir Osama Bin Laden til að fela sig sé í raun í Bandaríkjunum því þar vilja Bandaríkjamenn ekki af öðrum vita.
Nú er staða þeirra í alþjóðamyndinni orðin ansi afskræmd og illa farin. Af eigin sjálfumgleði og yfirgangi eru þeir langt komnir með að fyrirgera eigin sjálfstæði fjárhagslega. Meðan aðrar risaþjóðir mata krókinn og efnast langt um fram þá eyða Bandaríkjamenn bæði eigin fé, lífi og limum til einskis. Stríðinu í Írak sem lýst var yfir 44 dögum frá upphafi þess að væri MISSION ACCOMPLISHED er enn fram haldið án sýnilegrar ástæðu, eitthvað sem þjóðir heimsins eru í auknum mæli á móti.
Ég læt hér fylgja mynd af Bandaríkjamanni sem fór til Írak til að berjast fyrir þjóð sína, okkur Íslendinga og fleiri. Myndin stækkar ef ''tvíklikkað'' er á hana.
Ég er þess handviss að þessu ungi maður sem á þessari mynd sést ásamt eiginkonu sinni sé ekki sammála yfirflugi Bandaríkjamanna yfir Íran til þess að ''hræða'' Írana.
Þeir verða ekki hræddir frekar en aðrir við Bandaríkjamenn. Staða Bandarikjamanna í Írak er ekki lengur neitt til að hræðast. Fólk í heiminum er farið að finna til með þessum hermönnum sem margir hafa ekki einu sinni náð tvítugsaldri.
Þeir sem sleppa heim úr stríðinu koma stórskemmdir á sál og líkama. Þrír af hverjum fjórum eiga við andleg vandamál að glíma. Staða þeirra í framtíð og áhrif þeirra á Bandarískt þjóðfélag á eftir að koma í ljós.
Mér hryllir við þeirri tilhugsun að Bandaríkjamenn skuli enn telja sig að því komna að heyja frekari stríð í Austurlöndum.
Samherjararnir, Bretar eru farnir að sjá í gegnum leikmyndina Bush og geðveiki hans.
Ég sakna Bill Clinton sárt. Auðvitað var hann breyskur eins og við öll, en mikið leið mér vel með hann sem forseta USA. Heimurinn var einfaldlega öruggari með hann í Hvíta húsinu.
Við Íslendingar erum auðug að eiga þessar ljóðlínur sem eitt sinn voru sannar;
Hver á sér meðal þjóða þjóð
er þekkir hvorki sverð né blóð
en lifir sæl við ást og óð
og auð, sem friðsæld gaf?
Ég vil Ísland af lista hinna staðföstu þjóða.
Bandaríkjamenn buðust til að hræða Írani í deilunni við Breta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
6.4.2007 | 14:27
Sama hvað á dynur í veröldinni..
Það virðist sama hvað á dynir í veröldinni, stríð, náttúruhamfarir eða hverjar aðrar hörmungar til lengri eða skemmri tíma, Ísland siglir í gegnum þetta allt saman hægt og örugglega, og alltaf upp á við. Hitastigið fer hækkandi, fólki fer fjölgandi, trén fara stækkandi, bönkunum fjölgandi, milljóna- og milljarðamæringum fjölgandi, ýsugengdin í sjónum vaxandi, og Guð má vita hvað!
Hvað hef ég til unnið að hafa fæðst í þessu sæluríki?
Góð og slæm gróðurhúsaáhrif í Evrópu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.4.2007 | 22:33
Ég vissi að ástin væri blind,
Kærastinn var í raun þrítug kona | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.3.2007 | 09:28
Ó, Guð vors lands..
Nú hef ég verið meira eða minna í á þriðja ár hér í Litháen. Ég er mikill Íslendingur í mér og fullyrti jafnan að ég gæti hvergi búið nema á Íslandi.
Ísland kallar alltaf á mig, en auðvitað vega börnin þar þyngst. Þar á ég mjög miklu láni að fagna. Frábær börn, dugleg og samviskusöm. Virkilega góðir einstaklingar sem ég er stoltur af.
En svo er það stórfjölskyldan, vinirnir, kunningjarnir, Kaffi Róma á Rauðarástíg (besta Latte í heimi)Esjan, fólkið í Kringlunni og á förnum vegi og svo auðvitað..... Fóstbræður.
Aldrei hefði mig grunað að til væri félagsskapur sem Karlakórinn Fóstbræður. Ég söng með Fóstbræðrum í tæp 13 ár, eða þar til ég fór til Litháen.
Í karlakór rúmast bara góðar tilfinningar. Enda engin furða, aðalmarkmið karlakórs er samhljómur. Samhljómur fæst ekki nema í fullri sátt kórmanna. Og þegar menn hittast tvö kvöld í viku, tvo til þrjá tíma í senn, og mjög líklega oftar, því það þarf að syngja við opnun þessarar ráðstefnu, vígslu þessa húss, stórafmæli einhvers á Hótel Sögu, nú eða það sem Fóstbræður gera mjög reglulega; að syngja við útfarir, þá er ekki hjá því komist að milli manna myndist sterk tengsl.
Sumir eru dómarar, aðrir eru læknar, strætóviðgerðamenn, tannlæknar, sýslumenn, trésmiðir, rafvirkjar, löggur, doktorar í hinu og þessu, og Guð má vita hvað.
En, í Fóstbræðrum ertu ekkert af þessu. Þú ert annað hvort, fyrsti eða annar bassi, fyrsti eða annar tenór. Og þú leggur mikið á þig til að skila því hlutverki með sóma.
Fóstbræður eru í mínum huga merkileg stofnun, sem byrjar fyrst sem söngfélag innan raða KFUM, verður síðan að Karlakór KFUM sem breytir um nafn árið 1937 og verða Fóstbræður.
Yfir þessu félagi er mikið lán. Saga þess stendur á traustum merg og má segja að sama er hvar þú nálgast Fóstbræður, þeir eru sterkir á öllum sviðum.
Það er þetta traust sem menn sækja í. Sú tilfinning að tilheyra félagsskap með söng að aðalmarkmiði. En ekki er hægt að minnast á söng Fóstbræðra öðru vísi en að nefna metnað á sama tíma. Metnaður Fóstbræðra er mikill og hefur alltaf verið. Kórinn hefur alla jafna ekki sóst eftir vinsældum, heldur eftir frekari þróun og þroska á tónlistarsviðinu. Þetta hefur stundum kostað kórinn nokkra áheyrendur á tónleikum, en skilað betri kór, hæfari til allra verka. Þannig er mjög eftir kórnum sóst til ýmiss tónlistarflutnings.
Það mikla líf og sú mikla vinna sem fylgir því að vera í kór sem Fóstbræðrum, og sú tilfinning sem fylgir því að flytja verk sem mikil vinna hefur farið í undirbúning og æfingar fyrir er stórkostleg.
Æfingar í tvo til þrjá mánuði fyrir verk sem tekur kannski klukkutíma að flytja og svo búið. Það verk er farið og verður kannski ekki flutt aftur fyrr en eftir 20 ár.
Svo er byrjað að æfa næsta verk.
Ferðalögin. Utanlandsferðirnar. Ógleymanlegur hluti kórsins. Tónleikar í framandi löndum og borgum, Búdapest, Prag, Vín, Tallinn, Helsinki, St,-Pétursborg, svo nágrannalöndin..
Orðspor Fóstbræðra er þekkt víða og kórinn er virtur. Einnig sterk karlakórahefð á Íslandi. Á Norðurlöndum, sérstaklega í Svíþjóð og Finnlandi syngja karlakórar reglulega um Ísland, sögueyjuna.
Eitt er það lag sem gefur okkur meira en önnur að syngja, það er íslenski þjóðsöngurinn. Ég er alltaf jafn hissa þegar upp kemur umræða um þjóðsönginn, að honum skuli breyta, því hann sé of erfiður og texti hans væminn. Ekkert lag veit ég fallegra en íslenska þjóðsönginn. Það segir meira en annað um okkur sem þjóð sem fram til nýlega hafði ekki átt í hernaði, að þjóðsöngurinn fjallar um náttúruna og Guð.
Þjóðsöngurinn er ekki auðveldur. En þarf hann að vera það? Er ekki mikilvægara að um sé að ræða lag sem kallar fram tilfinningar? Er ekki þjóðrækni byggð á tilfinningum?
Það getur verið erfitt að syngja við útför. En að syngja þjóðsönginn á erlendri grundu fyrir brottflutta íslendinga getur líka verið erfitt. Þær tilfinningar sem þjóðsöngurinn kallar fram eru sannar og einlægar, og í tárvotum augum íslenskra áheyrenda má sjá þann söknuð fyrir föðurlandinu sem þjóðsöngurinn kallar fram.
Góðar ræður geta á hátíðarstundum verið gulls ígildi. En hvað eru íslenskar hátíðarstundir án tónlistar? Fóstbræður voru á Þingvöllum 1930, 1974, 1994, m.ö.o. á öllum fremstu hátíðarstundum þjóðarinnar. Að syngja.
Hápunktur allrar tónlistar við slíkar hátíðir er flutningur þjóðsöngsins.
Í þeirri stundu finnur maður Íslendinginn í sér.
Spaugstofumenn; Ég hélt þið væruð meiri Íslendingar en þið eruð.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.3.2007 | 07:59
Eiga þeir bróður á Íslandi?
Bretaprinsar döðruðu drukknir á næturklúbbum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)