Ó, Guð vors lands..

Nú hef ég verið meira eða minna í á þriðja ár hér í Litháen. Ég er mikill Íslendingur í mér og fullyrti jafnan að ég gæti hvergi búið nema á Íslandi.
Ísland kallar alltaf á mig, en auðvitað vega börnin þar þyngst. Þar á ég mjög miklu láni að fagna. Frábær börn, dugleg og samviskusöm. Virkilega góðir einstaklingar sem ég er stoltur af.

En svo er það stórfjölskyldan, vinirnir, kunningjarnir, Kaffi Róma á Rauðarástíg (besta Latte í heimi)Esjan, fólkið í Kringlunni og á förnum vegi og svo auðvitað..... Fóstbræður.

Aldrei hefði mig grunað að til væri félagsskapur sem Karlakórinn Fóstbræður. Ég söng með Fóstbræðrum í tæp 13 ár, eða þar til ég fór til Litháen.

Í karlakór rúmast bara góðar tilfinningar. Enda engin furða, aðalmarkmið karlakórs er samhljómur. Samhljómur fæst ekki nema í fullri sátt kórmanna. Og þegar menn hittast tvö kvöld í viku, tvo til þrjá tíma í senn, og mjög líklega oftar, því það þarf að syngja við opnun þessarar ráðstefnu, vígslu þessa húss, stórafmæli einhvers á Hótel Sögu, nú eða það sem Fóstbræður gera mjög reglulega; að syngja við útfarir, þá er ekki hjá því komist að milli manna myndist sterk tengsl.

Sumir eru dómarar, aðrir eru læknar, strætóviðgerðamenn, tannlæknar, sýslumenn, trésmiðir, rafvirkjar, löggur, doktorar í hinu og þessu, og Guð má vita hvað.

En, í Fóstbræðrum ertu ekkert af þessu. Þú ert annað hvort, fyrsti eða annar bassi, fyrsti eða annar tenór. Og þú leggur mikið á þig til að skila því hlutverki með sóma.

Fóstbræður eru í mínum huga merkileg stofnun, sem byrjar fyrst sem söngfélag innan raða KFUM, verður síðan að Karlakór KFUM sem breytir um nafn árið 1937 og verða Fóstbræður.
Yfir þessu félagi er mikið lán. Saga þess stendur á traustum merg og má segja að sama er hvar þú nálgast Fóstbræður, þeir eru sterkir á öllum sviðum.

Það er þetta traust sem menn sækja í. Sú tilfinning að tilheyra félagsskap með söng að aðalmarkmiði. En ekki er hægt að minnast á söng Fóstbræðra öðru vísi en að nefna metnað á sama tíma. Metnaður Fóstbræðra er mikill og hefur alltaf verið. Kórinn hefur alla jafna ekki sóst eftir vinsældum, heldur eftir frekari þróun og þroska á tónlistarsviðinu. Þetta hefur stundum kostað kórinn nokkra áheyrendur á tónleikum, en skilað betri kór, hæfari til allra verka. Þannig er mjög eftir kórnum sóst til ýmiss tónlistarflutnings.

Það mikla líf og sú mikla vinna sem fylgir því að vera í kór sem Fóstbræðrum, og sú tilfinning sem fylgir því að flytja verk sem mikil vinna hefur farið í undirbúning og æfingar fyrir er stórkostleg.
Æfingar í tvo til þrjá mánuði fyrir verk sem tekur kannski klukkutíma að flytja og svo búið. Það verk er farið og verður kannski ekki flutt aftur fyrr en eftir 20 ár.
Svo er byrjað að æfa næsta verk.

Ferðalögin. Utanlandsferðirnar. Ógleymanlegur hluti kórsins. Tónleikar í framandi löndum og borgum, Búdapest, Prag, Vín, Tallinn, Helsinki, St,-Pétursborg, svo nágrannalöndin..

Orðspor Fóstbræðra er þekkt víða og kórinn er virtur. Einnig sterk karlakórahefð á Íslandi. Á Norðurlöndum, sérstaklega í Svíþjóð og Finnlandi syngja karlakórar reglulega um Ísland, sögueyjuna.

Eitt er það lag sem gefur okkur meira en önnur að syngja, það er íslenski þjóðsöngurinn. Ég er alltaf jafn hissa þegar upp kemur umræða um þjóðsönginn, að honum skuli breyta, því hann sé of erfiður og texti hans væminn. Ekkert lag veit ég fallegra en íslenska þjóðsönginn. Það segir meira en annað um okkur sem þjóð sem fram til nýlega hafði ekki átt í hernaði, að þjóðsöngurinn fjallar um náttúruna og Guð.
Þjóðsöngurinn er ekki auðveldur. En þarf hann að vera það? Er ekki mikilvægara að um sé að ræða lag sem kallar fram tilfinningar? Er ekki þjóðrækni byggð á tilfinningum?

Það getur verið erfitt að syngja við útför. En að syngja þjóðsönginn á erlendri grundu fyrir brottflutta íslendinga getur líka verið erfitt. Þær tilfinningar sem þjóðsöngurinn kallar fram eru sannar og einlægar, og í tárvotum augum íslenskra áheyrenda má sjá þann söknuð fyrir föðurlandinu sem þjóðsöngurinn kallar fram.

Góðar ræður geta á hátíðarstundum verið gulls ígildi. En hvað eru íslenskar hátíðarstundir án tónlistar? Fóstbræður voru á Þingvöllum 1930, 1974, 1994, m.ö.o. á öllum fremstu hátíðarstundum þjóðarinnar. Að syngja.

Hápunktur allrar tónlistar við slíkar hátíðir er flutningur þjóðsöngsins. 

Í þeirri stundu finnur maður Íslendinginn í sér.

Spaugstofumenn; Ég hélt þið væruð meiri Íslendingar en þið eruð.





 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Flott færsla hjá þér. heyr heyr

bk Anna Ólöf

Anna Ólöf (IP-tala skráð) 28.3.2007 kl. 00:24

2 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Mikið var gaman að lesa þetta. Skilaboð móttekin. Og ég held svei mér þá að ég skelli mér í kórinn sem ég hef ætlað í svo lengi.

Jóna Á. Gísladóttir, 5.4.2007 kl. 22:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband