Kristinn Hallsson In memoriam

Í dag verður til moldar borinn einn þeirra manna sem sett hafa hvað mestan svip á íslenskt tónlistarlíf í gegnum tíðina.

Kristins Hallsonar verður minnst sem manns sem átti alla möguleika á glæstum ferli á heimsvísu, en kaus þess í stað að tileinka sína góðu hæfileika og fallegu söngrödd fámennu föðurlandi sem fram til þess tíma hafði einungis átt tilbreytingasnautt tónlistarlíf. 

Framlag Kristins Hallssonar sem byggt var á fágun, hógværð og virðingu fyrir listinni átti upphaf sitt bæði í Dómkórnum og ekki síst í Karlakórnum Fóstbræðrum, en faðir Kristins Hallssonar, Hallur Þorleifsson var einn stofnenda kórsins og aðaldriffjöður hans um árabil. Þá var móðir Kristins, Guðrún Ágústsdóttir afar söngvin. Söngur var honum því í blóð borinn.

Kristinn tilheyrði kynslóð söngvara sem lagði traustan grunn að sönglífi okkar, en einstæð rödd hans, og það vald sem hann hafði á henni við túlkun hinna ýmsu hlutverka, verður alla tíð söngvurum innblástur til fullkomnunar.

Hugur hans stóð ekki til veraldlegra gæða, eins og fram kemur í upphafi þegar hann tekur Ísland fram yfir mögulegan feril úti í hinum stóra heimi. Fjölskyldan, listin og Fóstbræður var hans veröld og dugði honum vel.

Enn ertu fögur sem forðum, Tondeleyo og svo mörg önnur lög einhvern veginn tilheyra Kristni.
Á ferli mínum í Fóstbræðrum átti ég þess kost að kynnast lítillega þessum merka manni.
Hann kom mér fyrir sjónir sem ekki allra. Góðlátleg kímni einkenndi hann. Stund með honum var upplifun, raddblærinn hafði fyrir löngu skipað sér sess í minni mínu, og því upplifði maður Kristinn sem einhvern sem maður hafði þekkt alla tíð þegar hann talaði.

Mér er sérstaklega minnisstætt þegar við Fóstbræður fögnuðum í Háskólabíói 80 ára afmæli okkar árið 1996, en þá söng Kristinn með okkur opinberlega í síðasta sinn í verki eftir Beethoven, en sjálfur hafði hann orðið 70 ára fyrr á því ári.
Við Fóstbræður áttum þess kost að gleðja hann á þeim degi sem var 4. júní 1996, en við vorum þá á siglingu á Finnska flóanum um borð í M/S Mariellu. Við klæddum okkur upp í kjólföt, fórum á fínasta veitingastaðinn um borð í þessu mikla skipi og fögnuðum.
Fyrir Kristinn, sem staddur var í sumarhúsi í Grímsnesi, sungum við í gegnum gervihnött í tilefni dagsins.
Þótti honum mikið til þess koma að sitja í Grímsnesinu og hlusta á okkur '' beint'' frá útlandinu.


Ferill hans sem kórfélaga í Fóstbræðrum var ekki langur, enda eiga einsöngvarar oftast ekki samleið í kór. En það breytti ekki því, Kristinn var Fóstbróðir og sýndi félagi sínu mikla tryggð alla tíð og söng með kórnum við hin margvíslegustu tækifæri.


Síðustu ár sín lifði hann á Hrafnistu í Hafnarfirði, farinn að heilsu. Sinnið var þó alltaf í lagi, og víst hefur hann átt sínar stundir við endurupplifun góðra stunda með tónlistargyðjunni þar sem hann sat og fór yfir farinn veg á ævikvöldi sínu.

Kristinn Hallsson lifir áfram í tónlist sinni. Ferill hans og stórt framlag til undirstöðu tónlistarlífs
okkar, bæði í söng og í hinum ýmsu trúnaðarstörfum, hafa fyrir löngu komið Íslandi á heimskortið.
Heimsfrægðin sem vék fyrir ferli hans heima fyrir, hefur því fyrir löngu borið ávöxt langt út fyrir landsteinana.

Ég sakna þess í dag að geta ekki verið viðstaddur útför Kristins Hallsonar, geta ekki staðið í kórnum mínum Fóstbræðrum og sungið yfir Kristni Hallssyni, en ég er svo sannarlega með í anda.

Ég votta góðvini mínum, Sigurði, syni Kristins og fjölskyldu hans mína dýpstu samúð.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kæri Eyþór.

Sem fyrr eru minningargreinar þínar um látna félaga fagrar ritsmíðar og andans upplífgandi lesning.

Kveðja, Róbert

Róbert R. Spanó (IP-tala skráð) 8.8.2007 kl. 20:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband