Færsluflokkur: Bloggar

áræði og þor...

Hannes hefur sýnt hvorutveggja. Það er einfaldlega þannig og hefur verið með íslenska róðra að þeir eru ekki allir vænlegir til góðs afla.
En Hannes hefur átt mjög afladrjúga róðra. Gleymum ekki að easyjet dæmið var eitt það dæmi sem skipaði sér sess meðal þeirra viðskipta sem mestum arði hafa skilað.
Í framhaldi þess var kannski ekkert óeðlilegt við American Airlines kaupin.

En allt er í heiminum hverfult. Og það sýnir staðan á fjármálamarkaði í dag. Þessi amerísku veðlán sem seld voru um víða veröld með góða einkunn frá Moody´s voru hreinlega kötturinn í sekknum. Og þau eru að fara með fjárhag ótrúlegustu aðila um víða veröld, snjóbolti sem rúllar endalaust og veltur upp á sig.
Samt er Moody´s enn að gefa út mat á hinu og þessu.
Hver er ábyrgð þeirra?


mbl.is Hannes: Eðlilegt að víkja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenska ríkið kýs vín frekar en lyf

Hef stundum velt fyrir mér, hvers vegna er einkasala ríkisins á víni og tóbaki en ekki á lyfjum?

Aðgangur að lyfjum á lægsta mögulega verði er mannréttindamál. Sala lyfja á að fara í gegnum ríkisapparat sem selur án álagningar. 

Hér er áfengissala í öndvegi hjá hinu opinbera en ekki lyfssala.


mbl.is Actavis ódýrari í Danmörku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sveinbjörn Bjarkason In memoriam

Hver er sinnar gæfu smiður segir í máltækinu. En líkt með þær smíðar sem aðrar, að sumt hreinlega leikur í höndunum á einum meðan fátt gengur upp hjá öðrum. Sá sem hér er kvaddur bjó yfir margvíslegum kostum og kunnáttu. En einhvern veginn tókst ekki alltaf að samhæfa.

Samleið mín og Sveinbjörns Bjarkasonar varði um tíma er við sungum saman í Karlakórnum Fóstbræðrum. Sveinbjörn kom mér fyrir sjónir sem rólyndur og yfirvegaður maður sem hafði á takteinum margvíslegar hugmyndir, enda bjó hann yfir frjórri hugsun. Rödd hans var þýð og djúp bassarödd sem hann nýtti af góðri tónvísi. Þrátt fyrir að söngurinn gæfi honum mikið og honum þótti vænt um Fóstbræður, þá var því líkt farið með kórinn eins og annað í lífi hans, stjórnvölurinn var ekki alltaf hans. Bakkus konungur var aldrei fjarri og átti til að taka hraustlega í stjórntaumana í lífi Sveinbjörns. Samhljómurinn sem hann átti svo auðvelt með í söng, var ekki eins auðveldur utan söngsins. Af þeim sökum varð samvera okkar í kórnum styttri en til stóð.

Undanfarin ár fór ekki framhjá neinum að Bakkus hafði náð algjörum yfirráðum í lífi Sveinbjörns og bjó honum afar erfiða kosti. En, þrátt fyrir það, þá bar hann sig alltaf vel ef leiðir okkar lágu saman. Mér fannst það stundum vera vegna þess að hann var maður til þess að mæta sjálfum sér. Hann sá sig eins og ég sá hann.

Síðast þegar ég var á Íslandi,  á göngu niður Bankastrætið þá flautar á mig bíll. Ökumaðurinn heilsar skælbrosandi og leit svona ljómandi vel út.  Var Sveinbjörn þar á ferð. Er ég spurðist fyrir um hann, þá var mér sagt að hann væri búinn að ná tökum á lífi sínu að nýju og farinn að berjast fyrir málefnum þeirra sem minna mega sín í þjóðfélaginu. Það fannst mér honum líkt.

Það er erfitt að setja sig inn í hugarheim þess sem lifað hefur svo ólíka tíma, hvað þá að setjast í dómarastól.

Öll bregðumst við einhvern tíma. Einhvern veginn.

Eyþór Eðvarðsson


BÓ er bestur!

Björgvin Halldórsson hefur sýnt á löngum og farsælum tónlistarferli að hann er í fremstu röð tónlistarmanna íslenskrar tónlistarsögu og því fyllilega útflutningsvara. Langur tónlistarferill hans hefur skilað okkur þroskuðum tónlistarmanni og arfleifð sem við getum verið stolt af.

Tónleikar hans í Laugardalshöllinni fyrir ári leyfi ég mér að fullyrða að eru einir bestu og metnaðarfyllstu tónleikar sem haldnir hafa verið á Íslandi. Tónleikar sem ég fæ hreint ekki nóg af.

Ég er þess fullviss að ef sá metnaður verði í fyrirrúmi á þessum tónleikum Björgvins í Kaupmannahöfn, þá verður örugglega húsfyllir. Ég mun örugglega mæta ef ég á þess kost.


mbl.is Björgvin Halldórsson með tónleika í Köben
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endurfundir

Nú er ágústmánuður að renna sitt skeið og september að taka við. Hér í Litháen er síðasti sumardagur. Sumarið tengir maður lífinu, eða eins og Vilhjálmur Vilhjálmsson söng; Sumarið líður allt of fljótt, í myndlíkingum um lífið sjálft.
Búandi erlendis, þá er margt sem maður saknar frá íslensku sumri. Fuglasöngurinn, ilmurinn af náttúrunni, ferskur vindblærinn, sumarnæturnar og svo ótal margt annað.

Íslenski hesturinn  er afar tengdur árstíðunum. Hann hefur verið tengdur mannfólkinu órofa böndum frá fyrstu tíð og hefur í raun aðlagað sig að nútímanum með undraverðum hætti, enda er blíð lund íslenska hestsins þekkt um allan heim.

Frægar er margar sögur af íslenska hestinum þar sem hann hefur nýtt sér skilningarvit þau sem mannfólkinu hefur skort.

Og traust það sem íslenski hesturinn hefur sýnt manninum frá fyrstu tíð hefur orðið tilefni margrar sögunnar.
Þekkt er sagan af Gránu þeirra Reynisstaðabræðra sem stóð uppi skinhoruð með veðraðan hnakk eftir hrakfarir uppi á öræfum sem enduðu eins og fólk þekkir. Með undraverðum hætti tókst Gránu að lifa af.
Eftir henni heitir nú Gránunes.

Ég leyfi mér að birta hér gullfallegt ljóð eftir Óskar Magnússon frá Tungunesi og tileinka birtingu ljóðsins Gránu þeirra Reynisstaðabræðra.

 

 horse

E n d u r f u n d i r.

Hálf er gleðin horfin
þú hneggjar ei meir.
Allar grundir gráta
er góðhestur deyr.
Sakna ég þín sáran
í samreiðarglaum.
Léttara var lífið
er lékst þú við taum.
Alltaf man ég augun þín
ylhýr og skær.
Þau urðu stundum innsæ
þá ellin færðist nær.

Og hlýja sté úr hendinni
í hjarta mér inn
ef flosmjúkur flipi
fyllti lófa minn.
Er drekkum við tvímenning
dauðinn og ég,
þú bíður mín eftir
með beisli við veg.
Og heilsar mér hneggjandi
hesturinn minn!
Fimur er hann ennþá
fóturinn þinn.

Óskar Magnússon
frá Tungunesi.


Konan sem kyndir ofninn minn...

Jæja, kannski nokkrar línur í tilefni dagsins, ágúst að klárast og sept að koma. Dísöss hvað tíminn líður hratt. Ég segi eins og maðurinn: Mér finnst ég alltaf vera að kaupa jólatré!
Ekki það, það er eins gott að huga snemma að þeim kaupum í ár, enda í þeim efnum er hver að verða síðastur allan desembermánuðinn!

Ég get verið maður sátta ef ég vill svo, en um helgina stfndi ég hingað tveimur félögum mínum sem ekki hafa mátt séð eða heyrt hver annan. En, máttur sáttar er mikill, þegar þeir fóru héðan af landi brott var vinskapur þeirra orðinn svo mikill að þeir voru orðnir Æskuvinir þótt þeir hafi aðeins þekkst í nokkur ár, menn á fertugsaldri.

En í gær varð ég fyrir leiðindaratviki. Konan sem þrífur íbúðina mína gerir það jafnan á 4 klukkutímum, frá 10-14, og þá kem ég og hleypi henni út. Hér í Litháen eru öll heimili læst slíkum lásum að hálfa væri miklu meir en nóg. Ég er margbúinn að segja blessaðri konunni að hafa lykilinn og skjótast með hann til mín. En hún er af gamla Sovjét og tekur ekki á sig slíka ábyrgð sem lyklavöld. Svo, þegar ég fer til vinnu, þá loka ég og læsi. Nema í gær, var svo gríðarlega mikið að gera hjá mér, að þegar klukkan var að verða 18:00, þá mundi ég allt í einu að ég hafði gleymt að fara og opna!
Það var skömmustulegur ég sem fór og opnaði fyrir blessaðri konunni sem stóð kápuklædd með slæðuna á höfðinu í ganginum. Búin að bíða í næstum 4 tíma!!!
En máttur peninganna er mikill, fyrirgefning mín fólst í góðri greiðslu, þannig að hún fékk miklu meira greitt fyrir biðina en vinnuna.
Svo, ég vona að hún hafi farið sátt, vill alls ekki missa hana, hún straujar svo vel skyrturnar mínar..

Hafið það sem best!

 


Skakkt yfir gangbraut!

8771

Man þegar ég var sendill í Þinginu, áður en ég fékk skellinöðruna, þá lét maður sig hafa að að hlaupa með sendingar milli húsa í miðbænum, enda voru flestar stofnanir staðsettar þar þá.
Eitt sinn var ég að hlaupa yfir Lækjargötuna til móts við Forsætisráðuneytið. Þegar ég kem yfir götuna flauta lögga í lögguflautuna og tekur mig. Ástæðan; Ég hljóp skakkt yfir gangbrautina! Og, ég var færður á Miðborgarlögreglustöðina!

Í þá daga var agi á miðbænum, enda nóg af löggum.
En auðvitað voru rónar. Man eftir mörgum andlitum. Þetta voru kyrrlátir karlar sem höfðu sig ekki mikið í frammi. Í andlitum þeirra mátti lesa ógæfu og erfitt líf.

Nú er rónunum kennt um slæmt ástand í miðbænum.

Ég tek ofan fyrir borgarstjóra og nýjum lögreglustjóra að taka fyrir mál ógæfufólks í miðborginni.
Hélt reyndar að þessi mál ættu sinn farveg í gegnum Félagsþjónustuna sem styður við þá ratað hafa í villu.
Hvort bjórinn er kaldur eða heitur í Ríkinu hefur hreint ekkert með málið að gera að mínu mati. Það sem ég hef séð til rónanna, þá drekka þeir hreinlega allt sem gefur áhrif.
Ég held að málið snúist frekar um bjórsölu í stykkjatali. Ef ég ætti pöbb í miðbænum þá væri ég mjög fúll, að það fyrirtæki, ÁTVR sem ég VERÐ að versla við er að selja bjór í stykkjatali í samkeppni við mig....


En að rónunum;
Sjáið þið fyrir ykkur tvo róna, annar býður hinum sopa af bjór og sá svarar að bragði; Er hann kaldur? Nei. Ok, þá vil ég ekki....

Rónar eru og verða í miðborg Reykjavíkur. Og oftar en ekki eru þeir til friðs. Auðvitað eru þeir misjafnt fólk eins og við hin. Sumir alltaf brosandi og aðrir drungalegir.

Held að hin raunverulega vá og skaði í miðbænum er vaxandi ofbeldi. Þar kemur til kasta
lögreglunnar að taka á málum. Fleiri myndavélar munu aldrei koma í stað fleiri lögreglumanna.
Held reyndar að yfirbygging Ríkislögreglustjóra sé vandamál sem þarf að skoða. Apparatið er kannski orðið svo dýrt að þeir eiga ekki efni á að halda úti almennilegu lögregluliði...

Aukinn fjöldi lögreglumanna í miðborginni er það eina sem bætt getur ástandið í miðbænum.


mbl.is Borgarstjóri: Mín vegna má setja kælinn upp aftur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úr fangaklefanum...

katajanokka

Staddur í Finnlandi  í gömlum ''Steini'' og er að blogga úr klefanum. Fyrir fáum árum var þetta eitt illræmdasta fangelsi V-Evrópu, en opnaði nú núverið sem lúxushótel, Hotel Katajanokka í Helsinki. 

Svo, herbergið mitt er fyrrum fangaklefi. Engir rimlar lengur fyrir gluggum og snyrtingin heldur skárri en í fangaklefanum sem ég skoðaði í gærkvöld. Fór hrollur um mann. Minnti á klefana í KGB safninu í Vilnius.
En endurnýjun þessarar eignar og breyting í hótel hefur tekist frábærlega. Mæli með þessu hóteli við hvern sem er. 

Í gærkvöldi borðaði ég á restaurant ''Jailbird'' sem staðsett í gömlum gangi í kjallara þessa gamla fangelsis. Virkilega fínt og blöndun á frábærri nútímahönnun og einfaldleika fangelsins sem var, hefur tekist afar vel.
Mátti í gærkvöld sjá gamla fangaverði sem komnir voru til að sjá og upplifa breytingarnar. Stórir og stæðilegir sköllóttir kallar sem eflaust eru búnir að upplifa ýmislegt. Ég spjallaði aðeins við annan þeirra, var eiginlega hálfhræddur við það, enda litu þeir frekar út fyrir að vera fyrrum fangar en fangaverðir. En líklega voru þeir bara orðnir svona flottir á langri samleið með ógæfumönnum af öllum sortum.
Þetta reyndust svo blíðustu kallar. Sýndu mér starfsmannakortið sitt sem sýndi að þeir eru enn fangaverðir, bara í nýju fangelsi. Annar sagðist hafa verið svo ''heppinn'' að hafa fengið vinnu í þessu alræmda fangelsi þegar hann var aðeins 18 ára. Pabbi hans var nefnilega fangavörður hér og gat því ''reddað'' strjáknum djobbinu.
Skemmtileg ævi það. Og skrýtið að nokkur maður sem er búinn að vera fangavörður sína starfsævi að ætla syni sínum hið sama hlutskipti.
En kannski er þetta bara gott og gefandi starf eftir allt saman.


Var að velta fyrir mér í gærkvöld þegar ég var lagstur upp í rúm og horfa upp í loftið, hversu margir hafi legið og starað upp í þetta sama loft, kannski árum saman..
16 ár og 234 dagar þangað til ég er frjáls aftur......

Það er gott til þess að vita að það eina sem ég þarf til að losna héðan út er VISA kort í gildi.

 

Spámaðurinn Kahlil Gibran hefur þetta að segja um glæpi;

"Þá gekk fram einn af dómurum borgarinnar og sagði: Ræddu við okkur um glæpi og refsingar.
Og hann svaraði og sagði:
Þegar sál þín yfirgefur þig, fremur þú einn og óvarinn afbrot þín gagnvart öðrum mönnum og sjálfum þér.
Og vegna þeirra yfirsjóna verður þú útskúfaður að bíða við hlið náðarinnar.
Guðinn í sjálfum þér er eins og útsærinn, hann er alltaf hreinn.
Og eins og himininn lyftir hann aðeins þeim, sem hafa vængi.
Og hann er bjartur eins og sólin.
Hann þekkir ekki vegi moldvörpunnar og leitar ekki að gryfjum höggormsins.
En í manninum býr fleira en guðsvitundin.
Margt í þér er ennþá mannlegt og margt ekki mannlegt ennþá, heldur óskapnaður, sem gengur í svefni og bíður þess að vakna.
En um manninn í þér mun ég nú ræða, því að það er hann, en ekki guðinn í þér eða dýrið í svefnrofanum, sem þekkir glæpi og refsingu.

Oft hef ég heyrt ykkur tala um þann, sem fremur glæp, eins og hann væri ekki einn af ykkur, heldur ykkur ókunnur og framandi gestur í veröld ykkar.
En ég segi ykkur, að alveg eins og dýrlingurinn og hinn réttláti eru ekki betri en það besta í ykkur, eins eru þrjóturinn og kjáninn ekki verri en það versta í ykkur.
Eins og laufblað gulnar ekki án leyndrar vitundar trésins, eins fremur afbrotamaðurinn ekki afglöp sín án dulins vilja ykkar allra.
Þið stefnið til guðsins í sjálfum ykkur.
Þið eruð vegurinn og vegfarendur.
Og þegar einhver ykkar fellur, þá fellur hann fyrir þá, sem á eftir ganga og varar við steininum í götunni.
Já og hann fellur vegna þeirra sem á undan gengu og fótvissari voru, en ruddu ekki steininum úr vegi.
Og einnig þetta, þó það sé erfitt að játa:
Hinn myrti er ekki saklaus af að vera myrtur.
Og sá, sem rændur er, er ekki saklaus af ráninu.
Hinn réttláti er ekki saklaus af gerð illvirkjans.
Og sá sem hvítþvær hendur sínar, er þó ekki hreinn af verknaði afbrotamannsins.
Já, hinn seki er oft fórnardýr píslarvotts síns.
Og enn oftar ber hinn dæmdi byrðar hins sýknaða.
Þið getið ekki greint hinn réttláta frá hinum rangláta og hinn góða frá illvirkjanum, því að þeir standa saman hlið við hlið fyrir augliti himinsins, samofnir eins og hvítir og svartir þræðir.
Og þegar hinn svarti þráður slitnar, verður vefarinn að bæta allt klæðið og einnig vefstólinn.

Ef einhver ykkar vill leiða hina ótrúu eiginkonu fram fyrir dómarann, láti hann þá einnig vega hjarta eiginmannsins á vogarskálum og bregða mælistiku á sál hans.
Og lát þann, sem húðstrýkja vill afbrotamanninn, kanna anda þess, sem brotið var gegn.
Og ef einhver vill refsa í nafni réttlætisins og höggva tré hins illa, kanni hann fyrst rætur þess.
Og ég segi ykkur, að hann mun finna rætur hins illa og hins góða, hins frjóa og hins ófrjóa fléttaðar saman í þöglu hjarta moldarinnar.
Og þið dómarar, sem viljið vera réttlátir, hvaða dóm kveðið þið yfir þeim, sem brýtur ekki lögin, en er þó þjófur í anda?
Hvaða refsingu á að leggja á þann, sem deyðir holdið, en fellur sjálfur fyrir morðingjum andans?
Og hvernig á að lögsækja þann, sem er í verki svikari og harðstjóri og þó sjálfur kvalinn og svívirtur?
Og hvernig á að refsa þeim, sem vegna iðrunar sinnar líður meiri kvöl en nemur yfirsjón hans?
Er ekki iðrunin sá dómur, sem kveðinn er upp yfir mönnum af lögmáli því, sem þið helst vilduð þjóna?
Þó getið þið ekki fengið hinn saklausa til að iðrast eða lyft iðruninni frá brjósti hins seka.
Óboðin kemur hún og vekur menn um miðja nótt og knýr þá til að horfast í augu við sjálfan sig.
Og þið, sem skilja eigið réttlætið, verðið þið ekki að þekkja öll verk manna og sjá þau í réttu ljósi?
Aðeins þá munuð þið skilja, að sá, sem uppréttur stendur og hinn fallni eru hinn sami maður, maður, sem stefnir út úr nótt dýrssálarinnar inn í dag hinnar guðlegu vitundar.
Og að hornsteinn musterisins er ekki hærri en lægsti steinninn í grunni þess."

 




 


Down under..

...er þá þessi maður hvað;

Verri leiðtogi?
Betri maður fyrir að biðjast afsökunar?
Gleyminn? Tók hann 4 ár að biðjast afsökunar..
Að reyna að gefa litlausu lífi sínu lit?
Mannlegur?

Þetta er erfitt líf...

 


mbl.is Baðst afsökunar á heimsókn á nektardansstað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Örlar að hausti..

Hér er farið að örla að hausti. Ekki það að farið sé að kólna, heldur verður maður var við að tré eru farin að fella lauf sín. Hitinn er nægur samt, var í Siauliai í fyrradag, þar stóð hitamælirinn í 30°.
Í Siuliai eru Íslendingar í atvinnurekstri, þar er Hampiðjan með dótturfyrirtæki sem vinna hundruðir manns.
Skammt frá er húsaverksmiðja sem ég er að láta smíða fyrir mig nokkur hús, fór að kíkja á gang mála, en húsið á að fara í skip eftir viku og rísa í Borgarnesi. Fyrst er húsið reist að mestu hér úti og svo tekið niður, sett í gám og því siglt heim.
Það lítur svona út í dag;
DSC05182DSC05179DSC05178

 

Skírnarveisla
Við Armina vorum boðin í skírnarveislu í gær, athöfnin byrjaði í Dómkirkjunni í Vilnius í gærmorgun kl. 10.30 með skírnarathöfninni sjálfri. Hér tíðkast að skírnarbarn eignist Guðföður og móður og halda þau á barninu undir skírn. Ábyrgð þeirra er ekki búin við það, enda eru þau nokkurs konar ''til vara'' foreldrar barnsins alla tíð eftir það. Ef foreldrar verða fyrir einhvers konar áföllum eða erfiðleikum, þá á barnið þessa foreldra til vara.
Athöfnin tók all nokkurn tíma, en létt var yfir henni, en presturinn, ungur maður hafði á takteinum hressandi innskot alla athöfnina.

Að athöfn lokinni var svo haldið í veisluna sjálfa, en hún var haldin á óðalssetri í eigu ömmu barnsins, staðsettu í þjóðgarði hér. Amma þessi er afar vel efnuð, enda hefur hún um áratuga skeið verið í fararbroddi  í hönnun loðfatnaðar. Vörumerki hennar er þekkt um Evrópu og í Rússlandi eru jafnan biðraðir þegar hún mætir með nýtt ''Collection'' í búðir sínar. Nýríkir Rússar spyrja ekki um verð.
Auður þessarar konu leyndi sér ekki á landareign hennar. Öryggisverðir um allt, engar myndavélar leyfðar, allt starfslið, þjónar og hvað annað sem þurfti á staðnum.
Meira að segja lögreglubátur úti fyrir landareigninni..
Ég fékk þó leyfi frá pabbanum til að taka nokkrar myndir, hér er ein;

DSC05194

Skírnarveisla litla drengsins var afar íburðarmikil og greinilega engu til sparað. Gestir voru  innan við 50, aðeins nánustu vinir og fjölskylda. Allt var skreytt, bláir borðar um allt, og hvergi til sparað í mat og drykk, í raun má segja að maður hafi verið að borða alla veisluna sem stóð frá kl. 13.00 og fram á miðnætti.
Landsfrægt tónlistarfólk og skemmtikraftar voru fólki til upplyftingar.

Sérlega skemmtilegur dagur, en af svona hóglífi má fá nóg, við vorum komin upp í rúm um ellefu í gærkvöld og sofnuðum út frá Friends...

Mér er það gleðiefni að sjá að vel selst í ferðir TerraNova hingað í október. Mæli með borgarferð hingað við hvern sem er. Falleg borg, frábærir veitingastaðir og gott skemmtanalíf.

Best að skella sér út í sólina.

Hafið það sem best!
 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband