Úr fangaklefanum...

katajanokka

Staddur í Finnlandi  í gömlum ''Steini'' og er að blogga úr klefanum. Fyrir fáum árum var þetta eitt illræmdasta fangelsi V-Evrópu, en opnaði nú núverið sem lúxushótel, Hotel Katajanokka í Helsinki. 

Svo, herbergið mitt er fyrrum fangaklefi. Engir rimlar lengur fyrir gluggum og snyrtingin heldur skárri en í fangaklefanum sem ég skoðaði í gærkvöld. Fór hrollur um mann. Minnti á klefana í KGB safninu í Vilnius.
En endurnýjun þessarar eignar og breyting í hótel hefur tekist frábærlega. Mæli með þessu hóteli við hvern sem er. 

Í gærkvöldi borðaði ég á restaurant ''Jailbird'' sem staðsett í gömlum gangi í kjallara þessa gamla fangelsis. Virkilega fínt og blöndun á frábærri nútímahönnun og einfaldleika fangelsins sem var, hefur tekist afar vel.
Mátti í gærkvöld sjá gamla fangaverði sem komnir voru til að sjá og upplifa breytingarnar. Stórir og stæðilegir sköllóttir kallar sem eflaust eru búnir að upplifa ýmislegt. Ég spjallaði aðeins við annan þeirra, var eiginlega hálfhræddur við það, enda litu þeir frekar út fyrir að vera fyrrum fangar en fangaverðir. En líklega voru þeir bara orðnir svona flottir á langri samleið með ógæfumönnum af öllum sortum.
Þetta reyndust svo blíðustu kallar. Sýndu mér starfsmannakortið sitt sem sýndi að þeir eru enn fangaverðir, bara í nýju fangelsi. Annar sagðist hafa verið svo ''heppinn'' að hafa fengið vinnu í þessu alræmda fangelsi þegar hann var aðeins 18 ára. Pabbi hans var nefnilega fangavörður hér og gat því ''reddað'' strjáknum djobbinu.
Skemmtileg ævi það. Og skrýtið að nokkur maður sem er búinn að vera fangavörður sína starfsævi að ætla syni sínum hið sama hlutskipti.
En kannski er þetta bara gott og gefandi starf eftir allt saman.


Var að velta fyrir mér í gærkvöld þegar ég var lagstur upp í rúm og horfa upp í loftið, hversu margir hafi legið og starað upp í þetta sama loft, kannski árum saman..
16 ár og 234 dagar þangað til ég er frjáls aftur......

Það er gott til þess að vita að það eina sem ég þarf til að losna héðan út er VISA kort í gildi.

 

Spámaðurinn Kahlil Gibran hefur þetta að segja um glæpi;

"Þá gekk fram einn af dómurum borgarinnar og sagði: Ræddu við okkur um glæpi og refsingar.
Og hann svaraði og sagði:
Þegar sál þín yfirgefur þig, fremur þú einn og óvarinn afbrot þín gagnvart öðrum mönnum og sjálfum þér.
Og vegna þeirra yfirsjóna verður þú útskúfaður að bíða við hlið náðarinnar.
Guðinn í sjálfum þér er eins og útsærinn, hann er alltaf hreinn.
Og eins og himininn lyftir hann aðeins þeim, sem hafa vængi.
Og hann er bjartur eins og sólin.
Hann þekkir ekki vegi moldvörpunnar og leitar ekki að gryfjum höggormsins.
En í manninum býr fleira en guðsvitundin.
Margt í þér er ennþá mannlegt og margt ekki mannlegt ennþá, heldur óskapnaður, sem gengur í svefni og bíður þess að vakna.
En um manninn í þér mun ég nú ræða, því að það er hann, en ekki guðinn í þér eða dýrið í svefnrofanum, sem þekkir glæpi og refsingu.

Oft hef ég heyrt ykkur tala um þann, sem fremur glæp, eins og hann væri ekki einn af ykkur, heldur ykkur ókunnur og framandi gestur í veröld ykkar.
En ég segi ykkur, að alveg eins og dýrlingurinn og hinn réttláti eru ekki betri en það besta í ykkur, eins eru þrjóturinn og kjáninn ekki verri en það versta í ykkur.
Eins og laufblað gulnar ekki án leyndrar vitundar trésins, eins fremur afbrotamaðurinn ekki afglöp sín án dulins vilja ykkar allra.
Þið stefnið til guðsins í sjálfum ykkur.
Þið eruð vegurinn og vegfarendur.
Og þegar einhver ykkar fellur, þá fellur hann fyrir þá, sem á eftir ganga og varar við steininum í götunni.
Já og hann fellur vegna þeirra sem á undan gengu og fótvissari voru, en ruddu ekki steininum úr vegi.
Og einnig þetta, þó það sé erfitt að játa:
Hinn myrti er ekki saklaus af að vera myrtur.
Og sá, sem rændur er, er ekki saklaus af ráninu.
Hinn réttláti er ekki saklaus af gerð illvirkjans.
Og sá sem hvítþvær hendur sínar, er þó ekki hreinn af verknaði afbrotamannsins.
Já, hinn seki er oft fórnardýr píslarvotts síns.
Og enn oftar ber hinn dæmdi byrðar hins sýknaða.
Þið getið ekki greint hinn réttláta frá hinum rangláta og hinn góða frá illvirkjanum, því að þeir standa saman hlið við hlið fyrir augliti himinsins, samofnir eins og hvítir og svartir þræðir.
Og þegar hinn svarti þráður slitnar, verður vefarinn að bæta allt klæðið og einnig vefstólinn.

Ef einhver ykkar vill leiða hina ótrúu eiginkonu fram fyrir dómarann, láti hann þá einnig vega hjarta eiginmannsins á vogarskálum og bregða mælistiku á sál hans.
Og lát þann, sem húðstrýkja vill afbrotamanninn, kanna anda þess, sem brotið var gegn.
Og ef einhver vill refsa í nafni réttlætisins og höggva tré hins illa, kanni hann fyrst rætur þess.
Og ég segi ykkur, að hann mun finna rætur hins illa og hins góða, hins frjóa og hins ófrjóa fléttaðar saman í þöglu hjarta moldarinnar.
Og þið dómarar, sem viljið vera réttlátir, hvaða dóm kveðið þið yfir þeim, sem brýtur ekki lögin, en er þó þjófur í anda?
Hvaða refsingu á að leggja á þann, sem deyðir holdið, en fellur sjálfur fyrir morðingjum andans?
Og hvernig á að lögsækja þann, sem er í verki svikari og harðstjóri og þó sjálfur kvalinn og svívirtur?
Og hvernig á að refsa þeim, sem vegna iðrunar sinnar líður meiri kvöl en nemur yfirsjón hans?
Er ekki iðrunin sá dómur, sem kveðinn er upp yfir mönnum af lögmáli því, sem þið helst vilduð þjóna?
Þó getið þið ekki fengið hinn saklausa til að iðrast eða lyft iðruninni frá brjósti hins seka.
Óboðin kemur hún og vekur menn um miðja nótt og knýr þá til að horfast í augu við sjálfan sig.
Og þið, sem skilja eigið réttlætið, verðið þið ekki að þekkja öll verk manna og sjá þau í réttu ljósi?
Aðeins þá munuð þið skilja, að sá, sem uppréttur stendur og hinn fallni eru hinn sami maður, maður, sem stefnir út úr nótt dýrssálarinnar inn í dag hinnar guðlegu vitundar.
Og að hornsteinn musterisins er ekki hærri en lægsti steinninn í grunni þess."

 




 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband