Færsluflokkur: Bloggar
23.2.2008 | 16:47
Ekkert að óttast..
Ég er þess fullviss að enginn þarf að óttast að neinu verði hér sópað undir teppi. En, Breiðavíkurmálið kom þessu af stað, enda líklega umfangsmesta málið. En, staðirnir voru fleiri. Silungapollur, Kumbaravogur, Upptökuheimilið Kópavogi, Bjarg o.fl.
Mál sem þessi hafa legið í láginni í áratugi. Forsætisráðherra tók af skarið og skipaði nefnd sem nú hefur skilað niðurstöðu. Mér þykir líklegt að nefnd þessi hafi verið með í ráðum þegar ráðherra ákvarðar tíma sem nefndin fær til að rannsaka þau mál sem vitað er um, og þau sem hugsanlega eiga eftir að koma upp.
Ég er þeirrar skoðunar að þrjú ár séu ekki of stuttur tími, heldur rauntími til þess að hægt sé að ná utan um þessi mál af þeirri nákvæmni sem við gerum kröfur um.
Þjóðin stendur með fórnarlömbum þessa heimila. Eins og hægt er. Því, í sumum tilellum er það einfaldlega of seint. Allt of margir eru horfnir til feðra sinna, enda ekki skrýtið. Ég skil í raun ekki hvernig þeir sem máttu þola þær raunir sem þessi heimili buðu upp á sem ''betrun'', öðlast trú á samfélagið.
Einn sagði; ég vil afsökunarbeiðni frá forseta Alþingis. Gott og vel. Ef það gæfi honum frið, þá væri það hið minnsta sem hægt er að gera.
Þjóðin brást.
Tíðarandinn var auðvitað annar, við bjuggum ekki að allri þeirri menntun og reynslu sem þjóðinni hefur hlotnast síðan. Að tala við félags- eða sálfræðing var tabú á þessum tíma. Eflaust ekki minni skömm en að vera lokaður inni á betrunarheimili.
Að lokum, sú nefnd sem var að skila vel unninni skýrslu er ekki öfundsverð að mínu mati. Sú vinna sem hlýtur að liggja að baki, viðtöl og yfirlestur gagna sem samastanda af illmennsku og afbrigðilegum háttum í garð barna geta varla verið nema mannskemmandi.
Ef þetta sama fólk ætlar að taka þessa vinnu að sér til næstu þriggja ára, þá segi ég; gefum þeim þann tíma sem þau telja að þurfi.
Þau hafa reynslu. Slæma og mannskemmandi reynslu.
Kumbaravogsbörn vilja rannsókn sem fyrst | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.2.2008 | 14:55
Heimurinn til bjargar USA
Undirmálslánin: Orsök erfiðleikanna...
Svokölluð undirmálslán hafa valdið hruni á alþjóðamörkuðum og gert íslenskum bönkum nær ómögulegt að sækja sér fjármagn þangað.
Undirmálslán á bandarískum og breskum húsnæðismörkuðum eru sögð undirrót alls þess óróa sem ríkt hefur á fjármálamörkuðum síðasta árið. Í stuttu máli þá er um að ræða lán til tekjulágs fólks sem á litlar sem engar eignir. Vextirnir á þeim eru hærri en á hefðbundnum húsnæðislánum vegna áhættunnar og það eru meiri líkur á vanskilum.
Í Bandaríkjunum voru dæmi um allt að 140% lán til íbúðakaupa. Já, fólk fékk 40.000 USD til viðbótar við hver 100.000 USD sem tekin voru að láni.
Munurinn er einnig sá að veðmangarar hafa iðulega milligöngu um lánveitinguna og það er alls ekki alltaf sem greiðslumatið er sannreynt. Lántakendur geta skrifað yfirlýsingu um tekjur sínar og hafa getað ýkt þær mjög án þess að það sé athugað frekar - bankinn sem veitir lánið selur það nefnilega áfram á markaði og hvatinn er því lítill til að ganga úr skugga um áreiðanleika lántakandans.
Mörg svona lán eru sett saman í nokkurs konar pakka eða vöndla og seld. Lífeyrissjóðir og vogunarsjóðir hafa til dæmis keypt mikið af þeim og bankar um víða veröld hafa tekið virkan þátt á þessum markaði, enda hægt að græða vel. Á meðan fasteignaverð hækkaði stöðugt og vextir voru lágir voru vanskil nefnilega ekki mikil. En um leið og fasteignaverðið lækkaði og vextir hækkuðu, hrundi markaðurinn og tekjulágt fólk með alltof þunga greiðslubyrði hætti að geta greitt af húsnæðislánunum. Meira en ein milljón Bandaríkjamanna missti heimili sitt þannig árið tvö þúsund og sex, ástandið versnaði svo til muna í fyrra.
Og lánveitendur sitja þar með í súpunni líka - tap banka og annarra lánastofnana er ekki tugir, ekki hundruð, heldur tugir þúsunda milljarða króna - samtals allt að þrjátíu billjónir króna. Íslensku bankarnir hafa ekki tapað miklu vegna þessa svo vitað sé, Askar Capital þarf að afskrifa á annan milljarð króna, og Kaupþing afskrifaði sjö milljarða.
Uppsagnir, greiðslufall, þjóðnýting -þetta eru orð sem ekki hafa heyrst lengi í bankageiranum. Það er ekki vitað nákvæmlega hvar undirmálslánin leynast í kerfinu, svo þeir sem lána bönkum fé halda að sér höndum núna og lána ekki nema á himinháum vöxtum.
Undir þetta eru íslensku bankarnir einnig seldir og samkvæmt frétt Financial Times frá í gær býðst þeim einfaldlega ekki fjármagn, markaðir eru þeim lokaðir, jafnvel þótt lánshæfismatið sé gott.
Og maður spyr sig:
Ef Bandaríkjamenn og Bretar hafðu ekki getað selt þessa verðlausu pappíra um heim allan með gæðastimpli frá bæði Moody´s og Standar & Poor, hver væri þá staða þeirra í dag?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.2.2008 | 09:10
Stimpilgjöld og verðtrygging
Stimpilgjöldin..
Afnám stimpilgjalda fyrir fyrstu kaupendur er gott mál. Afnám stimpilgjalda yfirleitt væri enn betra mál, enda erum við Íslendingar ein fárra þjóða sem býður upp á slíkan refsiskatt.
En það er með þetta eins og annað, það er vont að trúa á slíkar framkvæmdir.
Vaxtabæturnar..
Frægt er með vaxtabæturnar sem komu til á einhverjum tíma til að slökkva elda. Á grundvelli þeirra gengu margir í fasteignakaup og gerðu fjárhagsáætlanir fram í tímann. En var ríkinu treystandi þar?
Nei, smám saman hurfu vaxtabæturnar sem fólk lagði til grundvallar fasteignakaupum sínum.
Verðtryggingin..
Verðtrygging er annað. Vísitala neysluverðs. Ef bensín hækkar, þá hækkar lánið á eign þinni, þú átt minna í henni. Ef gúrkan hækkar úti í búð, þá áttu minna í eign þinni.
Hvernig má þetta vera?
Og í tíðum hækkunum nú, þá gengur meira á eigið fé fólks í eignum þeirra.
Hvers vegna tekur ekki verkalýðsforystan þetta mál inn í kjarasamninga sína. Afnám verðtryggingar.
Þetta yrði stærsta kjarabót sögunnar.
Kannski vegna þess að verkalýðshreyfingin er stærsti fjármagnseigandinn. Það sýnir staða lífeyrissjóðanna, sú sterkasta í heimi miðað við landsframleiðslu.
Erlend húsnæðislán..
Íslendingar eru í auknum mæli að taka erlend lán fyrir fasteignum sínum. Líklega hefur það aldrei verið hagstæðara en nú, þegar gengi krónunnar er við hundraðkallinn.
Pottþétt að greiðslubyrði fólks verður mun minni til framtíðar.
Ágreiningur er mikill um upptöku Evrunnar, en margir á móti.
Gæti verið leið að tengja krónuna við Evru til einhvers tíma til að láta á þetta reyna?
Íbúðalánasjóður..
Í dag virðist sem útlán banka séu meira og minna stöðvuð. Bankarnir hafa ekki fé til útlána, og varla fyrir fasteignalánum.
Maður veltir fyrir sér, það er ekki langt síðan bankarnir vildu Íbúðalánasjóð út af markaðinum, ríkið ætti ekki að vera að þvælast fyrir bönkum á þessum markaði.
Nú þegar bankarnir virðast félausir, hver væri þá staðan í dag ef Íbúðalánasjóður væri horfinn af sjónarsviðinu?
Fasteignamarkaðurinn væri algjörlega hruninn í bili.
Rót virðist komið á fasteignamarkaðinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
11.2.2008 | 10:10
REI-ðin
Það er athyglisvert að fylgjast með reiðinni sem vex með hverjum degi heima í Reykjavík.
Tilfinningahitinn vex með degi hverjum og allir virðast telja aðeins eina lausn á málinu. Að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson víki úr borgarstjórn.
Er það vegna skýrslu ''stýrihópsins''? Þessara sjálfskipuðu dómara sem allir eru hlutdrægir?
Ég blæs á þessa máttlausu skýrslu og mun ekki taka afstöðu í þessu máli fyrr en Umboðsmaður Alþingis hefur lagt fram sína umsögn um málið.
Hvort Vilhjálmur ráðfærði sig við fyrrum eða núverandi borgarlögmann skiptir að mínu mati engu máli. Hver er munur á þessum lögmönnum? Lærðu þeir ekki á sömu bókina? Og er ekki Vilhjálmur Þ. sjálfur löglærður?
Og hefur ekki núverandi borgarlögmaður staðfest að hafi verið til hennar leitað, þá væri niðurstaðan einnig sú sama?
Þetta misminni/mismæli Vilhjálms Þ. í Kastljósi hefur því ekki mikla þýðingu í mínum huga.
Kannski ekki óeðlilegt ef tekið er tillit til þeirrar pressu sem á manninum er þessa dagana.
Vilhjálmur sýnir styrk sinn með því að bogna ekki. Hann var kosinn til þess að standa að stjórn Reykjavíkur og það mun hann gera. Enginn sem í borgarstjórn situr býr að þeirri reynslu sem hann gerir eftir að hafa sinnt sveitastjórnarmálum í fleiri áratugi með sóma.
Svo hvergi hefur blett borið á.
Því efast ég ekki nokkra stund um einurð hans til þess að gera vel í borgamálum og vinna samkvæmt bestu samvisku.
Hvers vegna segir Vilhjálmur ekki af sér?
Því samviska hans er hrein.
P.S;
Þegar Tjarnarkvartettinn komst til valda, hverju breyttu þau í málefnum REI? Nokkru?
Hvers vegna ekki??
Pólitísk staða Vilhjálms rædd | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.1.2008 | 20:29
reiknivél Moggans...
er eitthvað sem þarf að gera við.
184.000 EUR eru í minni reiknivél ekki milljarðar, heldur milljónir...
Hækkaði einkunnir gegn greiðslu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.1.2008 | 17:17
Upphaf fjármálakrísunnar...
bendi á þetta:
http://cosmos.bcst.yahoo.com/up/player/popup/?rn=3906861&cl=6102375&ch=4227541&src=news
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.1.2008 | 10:47
Sama Moodys og...
..mælti með kaupum á Bandarískum lánapökkum sem samanstóðu af undirmálslánum sem enginn gat borgað?
Í sumum dæmum þar sem fólk fékk lánað allt að 140% fyrir kaupum á húseignum, án greiðslumats?
(fólk fékk þessi 40% beint í hendur..)
Þessi sömu lán og heimsbyggðin er að melta núna með skelfilegum afleiðingum fyrir einstaklinga og fyrirtæki um allan heim?
Held það sé kominn tími á að gefið sé út hæfnismat á Moodys...
Moody's segir Aaa einkunn Íslands á krossgötum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.1.2008 | 09:27
Maður að meiri...
..að viðurkenna mistök sín. Hvað Guðjóni Ólafi gekk til verður seint svarað. Nema hann hafi fengið sínu fram í biturleika sínum.
Held að af þessu öllu megi í raun ráða raunverulega stöðu Framsóknar sem eftir flótta Halldórs Ásgrímssonar er án leiðtoga. Samstaða er engin og upplausn ríkjandi.
Björn Ingi segir í bréfi sínu að þurfi að..:
''..breyta þeirri ímynd sem snúið hefur að almenningi upp á síðkastið og sýnir kjörna fulltrúa sem sýnast knúnir áfram af valdabröltinu einu saman og eru tilbúnir að beita klækjum í þeirri viðleitni sinni að sækja fram til frekari áhrifa.''
- var það ekki hið sama valdabrölt sem kom honum í þá stöðu sem hann er nú kominn í ?
En bíðum aðeins... snúast ekki stjórnmál um að hafa og halda völdum?
Sjálfstæðisflokkurinn vann sigur í kosningunum með mest fylgi allra flokka.
Sú meirihlutamyndun sem nú átti sér stað er í raun niðurstaða síðustu kosninga.
Ef ekki fyrir valdabrölt Björns Inga væru málin í öðrum farvegi í dag.
En, REI málið er í sama farvegi og áður. Ekkert hefur breyst.
Enn: Þetta er í samræmi við niðurstöðu síðustu kosninga.
Björn Ingi hættir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.1.2008 | 08:55
Harma eða hafna?
Hvers vegna ber Björn Ingi þetta ekki einfaldlega af sér, hafnar upplýsingum frá Guðjóni Ólafi í stað þess að vera með þetta harmakvæl?
Eftir þessu að dæma, þá kæmi mér ekki á óvart að ýmislegt fleira eigi eftir að koma úr krafsinu ef farið er ofan í málið.
Hér er ekki um getgátur að ræða utan frá. Heldur staðreyndir er koma úr innsta hring.
Þetta er Framsóknarflokkurinn í hnotskurn
Harmar persónulegar árásir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.12.2007 | 14:30
Sturla Erlendsson In memoriam
Í kvöld munu bræður mínir í Karlakórnum Fóstbræðrum minnast fallins félaga sem hvarf af sjónarsviði langt fyrir aldur fram í byrjun þessa árs. Hans skal nú minnst með tónleikum í Langholtskirkju.
Enn verð ég, fjarveru minnar vegna að vera fjarri og tekur það mig sárt. Því sest ég við að rita þessar fábrotnu línur og við skrifin læt ég þýða óma Fóstbræðra gefa tóninn..
Sturla Erlendsson var maður engum öðrum líkur. Hann sá aldrei tilveruna öðru vísi en með björtum augum og helst með gamansömu ívafi. Sem hagyrðingur góður varð honum allt að yrkisefni, en sem frábær sögumaður einnig, þá var hann sá maður sem allir hlýddu á þegar hann bað um orðið.
Og kostirnir voru fleiri. Miklu fleiri. Þeir eru ófáir textarnir sem hann samdi við hin ýmsu lög sem kórinn hafði flutt, þá gjarnan samdir út frá einhverju spaugilegu atviki.
Gamanvísur samdi hann sem fluttar voru á hátíðarstundum Fóstbræðra. Og þá lét ástkær eiginkona hans hún Þóra ekki sitt eftir liggja, söng með manni sínum.
Sem söngmaður í 2. bassa í Fóstbræðrum átti Sturla frábæran feril. Einsöngvari eða kórmaður, í hljómmikilli rödd hans var sterkur blær sem barst vel.
Tónvís með afbrigðum og félagi góður.
Sturla var hávaxinn og myndarlegur maður, beinskeyttur og hreinskilinn. Honum lá hátt rómur svo það fór ekki á milli mála ef hann var á staðnum. Beinskeytni hans og frábær húmor átti stóran þátt í að létta honum þá erfiðu baráttu sem hann háði við manninn með ljáinn, sú barátta var snörp og erfið. Svo erfið að von varð æ minni. En það bugaði á engan hátt þennan mikla mann. Hann hóf enn á ný að daðra við listagyðjuna. Hóf að mála myndir. Enn komu listrænir hæfileikar á óvart og ljóst að þar hefði hann átt enn einn feril ef lengri tími hefði gefist.
Hann lagði mikið á sig við þetta nýja áhugamál. Málaði margar myndir, enda var ekki skortur á kaupendum.
Og sem aðrir myndlistarmenn, þá hélt hann sýningu. Úti á Ægissíðu við grásleppuskúrana sem voru honum ríkur innblástur í myndverkum hans.
Fjöldi fólks lagði leið sína á sýninguna. Allt seldist upp, enda menningaviðburður. Félagar Sturlu úr Fóstbræðrum og Raddbandafélagi Reykjavíkur mættu að sjálfsögðu og tóku lagið.
Þessi dagur var Sturlu mikilvægur, enda hafði hann lagt mikið á sig við að koma öllu á, en auðvitað með hjálp góðs fólks. Ekki má gleyma öll því góða fólki sem hann hafði í kringum sig. Fjölskyldan öll stóð honum nærri og gerði hvað sem í þeirra valdi stóð til að létta honum lið.
En örlögum sínum ræður enginn. Sturla lést þann 5. janúar sl.
Það var heiður að eiga samleið með slíkum manni sem Sturlu. En það var líka skemmtilegt.
Þannig minnist ég hans.
Með brosi á vör.
P.S.
Ég leyfi mér að leyfa að fylgja síðasta bloggið hans Stulla, en sem fiskkaupmaður þá er honum hugsað til viðskiptavina sinna þennan dag, enda Þorláksmessan að fara í hönd.
Líður að tíðum
22. desember 2006 klukkan 06:17
Nú fer að líða að því að það líði að þessum dögum sem beðið hefur verið eftir, síðasti dagur fyrir hlandfisk messu með bragðlaukana alla í klessu . Hjá flestum síðasti vinnudagur fyrir jólahátíð nema kannski þeirra félaga minna í Fiskisögu Jörgens, Söndru og co. þau þurfa að afgreiða þessi ósköp yfir búðarborð og telja fólki trú um að þessi ónýti matur sé algert lostæti með úldnum vestfyrskum hnoðmör "oj bara" en maður lætur sig hafa það og smakkar. Svo reyna flestir sem því við kom að fara niður í bæ og grípa Guð í fótinn með undirbúninginn á hælunum. svo brestur á mikið dreifikerfi á aðfangadag að dreifa bögglum út um hvippinn og hvappinn og kanski kaupa þá síðustu á elleftu stundu, þá upphefst slagurinn við eldamennsku og átundirbúning.
Mikið vona ég að þetta fari nú allt vel fram og lukkist í hvívetna hjá ykkur öllum vinir mínir og venslamen og sendi hér með hjartans óskir um gleði á jólum og þakka þann stuðning sem þið hafið öll sýnt mér í þessu veseni mínu.
Nú fer bloggið í jólafrí fram yfir helgi (nema eitthvað sérstakt gerist fréttnæmt )
Gleðileg Jól til sjávar og sveita ,nær og fjær uppi og niðri út og í suðri Amen
Sturla Erlendsson
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)