Sveinbjörn Bjarkason In memoriam

Hver er sinnar gæfu smiður segir í máltækinu. En líkt með þær smíðar sem aðrar, að sumt hreinlega leikur í höndunum á einum meðan fátt gengur upp hjá öðrum. Sá sem hér er kvaddur bjó yfir margvíslegum kostum og kunnáttu. En einhvern veginn tókst ekki alltaf að samhæfa.

Samleið mín og Sveinbjörns Bjarkasonar varði um tíma er við sungum saman í Karlakórnum Fóstbræðrum. Sveinbjörn kom mér fyrir sjónir sem rólyndur og yfirvegaður maður sem hafði á takteinum margvíslegar hugmyndir, enda bjó hann yfir frjórri hugsun. Rödd hans var þýð og djúp bassarödd sem hann nýtti af góðri tónvísi. Þrátt fyrir að söngurinn gæfi honum mikið og honum þótti vænt um Fóstbræður, þá var því líkt farið með kórinn eins og annað í lífi hans, stjórnvölurinn var ekki alltaf hans. Bakkus konungur var aldrei fjarri og átti til að taka hraustlega í stjórntaumana í lífi Sveinbjörns. Samhljómurinn sem hann átti svo auðvelt með í söng, var ekki eins auðveldur utan söngsins. Af þeim sökum varð samvera okkar í kórnum styttri en til stóð.

Undanfarin ár fór ekki framhjá neinum að Bakkus hafði náð algjörum yfirráðum í lífi Sveinbjörns og bjó honum afar erfiða kosti. En, þrátt fyrir það, þá bar hann sig alltaf vel ef leiðir okkar lágu saman. Mér fannst það stundum vera vegna þess að hann var maður til þess að mæta sjálfum sér. Hann sá sig eins og ég sá hann.

Síðast þegar ég var á Íslandi,  á göngu niður Bankastrætið þá flautar á mig bíll. Ökumaðurinn heilsar skælbrosandi og leit svona ljómandi vel út.  Var Sveinbjörn þar á ferð. Er ég spurðist fyrir um hann, þá var mér sagt að hann væri búinn að ná tökum á lífi sínu að nýju og farinn að berjast fyrir málefnum þeirra sem minna mega sín í þjóðfélaginu. Það fannst mér honum líkt.

Það er erfitt að setja sig inn í hugarheim þess sem lifað hefur svo ólíka tíma, hvað þá að setjast í dómarastól.

Öll bregðumst við einhvern tíma. Einhvern veginn.

Eyþór Eðvarðsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

þegar ég fell frá

og síðasta laufblaðið fallið þá gleymdu því aldrei

sem ég vissi þá

 síðasta lokakallið. Ég hef enn þá hjarta og framtíð bjarta

sál mín í augum þér skín

líttu á stjörnur, líttu á sól

 ég skín inn í augun þín.

Hef ég ...sagt þér

hvað hver fífill er fagur

hef ég ...sagt þér

að hver einasti dagur

er betri en dagurin í gær

Takk fyrir orð þín ég átti besta pabba í heimi

Guðrún lára Sveinbjörnsdóttir (IP-tala skráð) 29.11.2007 kl. 11:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband