22.3.2007 | 08:49
Vorar í Vilnius
Jæja, þá er stuttum en snörpum vetri hér líklega lokið. 13 stig í gær og ekki minna í dag, sólin skein glatt inn um gluggann hjá mér í morgun þegar ég vaknaði. Veturinn sem að baki er, var sá heitasti hér í árhundruði.
En auðvitað komu dagar þar sem var hraustlegt og gott frost, en reyndar ekki eins og í febrúar í fyrra, þá fór frostið niður í 34°. Á sama tíma var 8° heima á Fróni.
En eins og veturnir geta verið kaldir, þá eru sumrin heit og fara vel yfir 30° stundum. Þá er gott að skella sér til Palanga sem er strandbær við Eystrasaltið. Þar er gríðarmikil og góð strönd. Þangað sækir fólk héðan, enda er þar mikið fjör á sumrin og margt um manninn.
Nú er ferðaskrifstofan Terranova að auglýsa ferðir hingað til Vilnius fyrir aðeins 19.900. Beint flug. Það þykir mér, sem flýg allajafna gegnum Kaupmannahöfn þegar ég fer heim og borga fyrir milli 60 og 70 þúsund fyrir, vera góð kjör.
Ég mæli hiklaust með ferð til Vilnius, sem nýlega var kosin ódýrasta borg Evrópu. Hér eru gríðarlega fallegar byggingar, mikil saga, fullt af söfnum, frábær, ódýr veitingahús og margir góðir skemmtistaðir.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.