10.10.2008 | 08:19
Úr Austurheimi
Það skal enginn halda að hér eigi pólitík ekki hlut að máli. Eftir því sem ég hef komist næst verandi hér í nágrenni við Rússana þá hafa þeir sjálfir sagt í fjölmiðlum að það sé gott að geta lagt lið og eignast að vini Evrópuþjóð. En þeir sögðu líka að þetta gæti skilað þeim meiri áhrifum á Arctic svæðinu.
Okkur er auðvitað vandi á höndum í dag. Stundum er best að gera ekki neitt, leyfa öldunum að lægja og sæta síðan lagi. Það má vera að það kosti okkur eitthvað, en ég held satt að segja að við höfum engu að tapa í bili.
Auðvitað finnst manni að það standi öðrum þjóðum nær að hjálpa okkur. En við getum á sama tíma og allir eiga nóg með sig, ekki heimtað að neinn komi okkur til hjálpar.
Ísland og Rússland hafa verið tengd viðskiptaböndum lengur en margar þjóðir. Ég minni bara á að ef farið er í íslendingabókina, þá er þar elstur manna Skinna Björn sem var einna fyrstur til þess að standa í milliríkjaviðskiptum við Rússa.
Um hann segir;
Skinna-Björn Skeggjason, Fæddur (850)
Landnámsmaður um Miðfjörð og Línakradal. "Því var hann Skinna-Björn kallaðr, at hann var vanr at sigla í Austurveg kaupferð ok færa þaðan gráskinn, bjóra ok safala" segir í Þórðar sögu Hreðu.
Mín reynsla af rússum hér í Litháen er góð. Þetta er duglegt fólk og vill standa við sitt. Auðvitað hafa þeir sína sögu, en það gera fleiri þjóðir líka. Ekki útilokum við samskipti við Þjóðverja vegna framgöngu þeirra í stríðinu, nú heldir Kína vegna mannréttindamála þeirra sem enn í dag eru langt á eftir í þeim efnum miðað við aðrar þjóðir. Enn sem komið er eru Bandaríkjamenn þeir einu sem notað hafa kjarnorkuvopn í stríði t.d.
Rússar hafa lýst yfir gríðarlegri andstöðu við eldflaugapalla Bandaríkjamanna sem skulu settir upp í Póllandi eða hér í Litháen. Bandaríkjamenn segja að þessu skuli beint gegn Austurlöndum, enda sá váin þar. Að þessir pallar hafi ekkert með Rússa að gera.
Ef ég væri Pútín eða Medvedev, þá væri ég ekki sáttur. En, ef váin er frá Austurlöndum þá hlýtur hún að vera sameiginleg vá Rússa, Bandaríkjamanna og veraldarinnar allrar.
Ég hugsa nú bara í einfeldi mínu, er ekki hægt að setja þessa palla upp í sameiningu ef mönnum ber saman um þessa vá?
En það er sama við hvaða þjóð við ræðum, að ef samningurinn við þá þjóð er efnislega tengdur einhvers konar kröfum sem hafa með annað að gera en sjálfa lánveitinguna, þá stöldrum við, segjum sem í öllum öðrum viðskiptum; leyfðu mér að sofa á þessu, ég tala við þig seinna og skoðum málið.
Það er slæm staða sem komin er upp í veröldinni í dag. Sá auður sem setið hefur á mjög fáum höndum mun á þessum tímum færast á MUN færri hendur. En, engu að síður, þessi staða mun gefa fjölmörgum ný tækifæri.
Þorvaldur Friðriksson fréttamaður, sem söng með mér í Fóstbræðrum á sínum tíma og fór með okkur í frægðarför kórsins til St. Pétursborgar árið 2004 sýndi okkur fram á að í sögunni kemur fram að þegar Rússland var myndað á sínum tíma, þá voru það víkingar og bardagamenn frá Íslandi sem tóku þátt í landvinningunum með blóði sínu.
Þetta er þjóð sem stendur á gömlum merg, á mikla sögu og gríðarlega menningu.
Ég segi, ef samningurinn er ekki um annað en einfalda lánveitingu, án skilyrða, þá er þetta vinarbragð af þeirra hendi og okkur ber að þakka hjálpina.
Hvað vilja Rússar? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.