AtGeirinn er beittur!

Það þótti í gamla daga frétt í litlum stöðum á landsbyggðinni ef það var R-bíll í bænum. Jú þar færi líklega Reykvíkingur. Síðan er reyndar langt um liðið.

En það er ekki langt síðan að ég fann fyrir því að það var ‘'vörumerki'' að vera íslendingur í útlöndum. Ef maður tók t.d. leigubíl í Finnlandi, þá nánast hneigði leigubílstjórinn sig fyrir manni þegar hann komst að því að hann var með Íslending í bílnum, hann vissi jú ekki nema hann þarna færi einhvert stórmennanna frá landinu litla.
Þetta er fljótt að breytast.

Ekki það, ég held að margir af okkar útrásarvíkingum hafi verið að gera ágæta hluti, þó auðvitað sé búið að koma í ljós og eigi eftir að koma í ljós að ekki var allt gott.

Þessa dagana er maður að fá fjölda símtala víðs vegar úr Evrópu frá áhyggjufullum kollegum sem lesa um landið okkar vera að sökkva í gjaldþrot og vonleysi.
En, þann tón fær enginn frá mér. Ég segi öllum að við, sem íslendingar eigum eftir að koma sterkir út úr þessum raunum.
Ég segi það vegna þess að ég trúi því.

GEIR H. HAARDE
En, við eigum ekki að flana að neinu. Við erum komin á botninn, þar nær maður spyrnunni, en það er ágætt að taka sér tíma til þess að kasta mæðinni og safna kröftum.

Sem áhorfandi erlendis frá, þá verð ég að segja að ég er MJÖG stoltur af Geir Haarde. Þær aðstæður sem hann þarf að fást við eru einar þær erfiðustu sem nokkur forsætisráðherra okkar hefur nokkru sinni glímt við. Ekki einasta algjört hrun í fjármálakerfi okkar, heldur í ofanálag milliríkjadeilur og þær af harðasta tagi. Margir eru til að gagnrýna og þykjast betri. En ég verð að segja að engan stjórnmálamann sé ég fyrir mér taka betur á þessum málum en Geir. Að standa frammi fyrir blaðamönnum frá fjölda landa með misgáfulegar spurningar sem mörgum er í raun sjálfsvarað og geta sýnt það æðruleysi sem Geir býr yfir, það fyllir mig stolti. Þá er einnig greinilegt að hann mun ekki láta Breta vaða yfir okkur í ódýrri kosningabrellu versta forsætisráðherra Bretlands.
Ég minni á að sjálfir trúa Bretar því að allt sem Gordon Brown kemur nálægt, hrynur.
Álag á þeim sem eru að stýra landinu okkar hefur líklega aldrei verið meira og þessi staða kemur vonandi aldrei upp aftur. Ég sakna þess að Ingibjörg skuli ekki geta látið að sér kveða vegna veikinda sinna, ég óska henni alls hins besta og þess að hún megi ná heilsu sinni að nýju.
Mér finnst Jóhanna eiga mikið lof skilið einnig. Aðrir fá enga einkunn, sumir vísir að mistökum, aðrir bara farþegar í stjórninni..

Ég var svo ánægður með forsætisráðherrann um daginn að ég var búinn að útbúa skeyti með baráttukveðjum til þeirra hjóna, en eitthvað óskiljanlegt kom upp með VISA kortið mitt, svo ég náði ekki að senda skeytið mitt.  Hefur kannski eitthvað með banka að gera..
Ég er mjög stoltur af forsætisráðherranum mínum.

Bandamenn, Bretar og Bandaríkjamenn
Það er greinilegt að við njótum sannmælis gagnvart Bretum á alþjóðavettvangi. Aðrar þjóðir eru hreinlega ekki að skilja þá fáránlegu hörku sem okkur er beitt. Hér er glímt við alþjóðlegan vanda.
Við eigum að hefja nú þegar, rannsókn á framgöngu Breta í okkar garð. Til þess eigum við að fá óháða alþjóðlega aðila og í framhaldinu hefja tafarlausa málsókn. Krefja þá um þann skaða sem þeir hafa valdið okkur. Þeir eiga ekki annað hjá okkur.
Hvernig datt Bretum í hug að þeir aurar sem þeir lögðu inn á ICESAVE lægi þar bara og biði eftir þeim? Bankar taka alla peninga sem þeir fá í innlán og setja þá í vinnu!

En að Bandaríkjamenn hafi brugðist okkur líka er hreint ótrúlegt. Auk þess sem vandinn er runninn undan rifja þeirra! Ef ekki fyrir gríðarlegan útflutning á ónýtum lánum Bandaríkjamanna til Evrópu, þá væri allt í stakasta lagi. Þessi óráðsía Bandaríkjamanna má ekki kosta okkur sjálfstæði okkar.

Ég er þess fullviss að við munum halda áfram á braut alþjóðaviðskipta. Við megum gæta okkar á því að falla ekki í gryfju svartnættis og vonleysis, heldur hugsa um þau tækifæri sem eru að skapast við þessar aðstæður. Eins dauði er auðvitað annars brauð og ekkert nýtt í þeim fræðum. Ég hlakka til að sjá hvernig við munum rísa upp á ný og halda til nýrra útrása.

Jón Ásgeir og Björgólfar
Margir eru til þess að gagnrýna þá sem harðastir hafa verið í útrásinni og í alþjóðaviðskiptum. Umræða dagsins finnst mér á köflum vera orðin þannig að helst EIGA allir að fara á hausinn, missa allt. Það hlakkar í fólki að fylgjast með Jóni Ásgeiri og fjölskyldu hans berjast á þessum nánst vonlausu tímum fyrir Baugi þar sem allar dyr virðast lokaðar, auk þess sem hann er að berjast á vígvellinum Bretland þar sem allt virðist okkur mótdrægt. Þá er honum kennt um ófarir Glitnis, en ef ég man rétt þá er ekki nema rúmt ár síðan hann kom inn í þann banka, sem lengst af var undir stjórn Bjarna Ármannssonar sem nú situr á friðarstóli í Noregi og bíður færis.
Jóni Ásgeiri er ekki fisjað saman. Og ef hann nær að verja Baug núna, þá eru honum allir vegir færir til framtíðar. Skuldsettar yfirtökur hafa komið honum þangað sem hann er. Það má gagnrýna þann viðskiptahátt, en ég fæ ekki betur séð að ef ekki hefði komið til sú kreppa sem ríkir, þá hafi hann verið á réttri leið. Og, ég held þetta skili þrautseigari manni eins og sést í dag, að hann á að fólk í Bretlandi sem er tilbúið til þess að koma honum til bjargar í stað þess að sjá hann falla og hirða af honum það sem til er.
Jón er umdeildur, en það sem ég hef lært er það að það er í raun ekkert að því að vera umdeildur. Það segir einungis að þú lætur til þín taka, hefur markmið og vinnur að þeim.

Björgólfur skrifaði hjartnæmt bréf til starfsfólks Landsbankans þar sem segir:
‘'Við gerðum alltaf ráð fyrir því, að Íslendingar myndu snúa bökum saman og leita sameiginlega að lausnum viðskiptalegs eðlis með fullri virðingu fyrir alþjóðasamningum og skuldbindingum og væru til þess fallnar að varðveita verðmæti.''

Nú reynir á hver samstaða hans með Íslendingum er, vandi okkar gagnvart Bretum er jú meðal annars tilkominn hans vegna. Maður sem fékk keyptan Landsbanka Íslands fyrir 10 milljarða og skilar okkur honum með 500 milljarða í mínus mun að sjálfsögðu snúa með okkur bökum saman.

Fram hefur komið að hann er alþjóðlegur fjárfestir með vel rekin félög í útlöndum, þannig að við eigum eflaust eftir að sjá hann koma heim með verðmæti til þess að hjálpa þjóðinni að rísa undir vanda hennar. Einhver sagði að hann væri floginn til Mallorca. EF rétt er, þá óska ég honum góðar hvíldar, hann er vonandi þá með nægan gjaldeyri.

Hvílum okkur aðeins. Fyrsta lota er búin. Við skulum ekki flana að neinu. Við höfum haft gríðarlega mikið fyrir sjálfstæði okkar, höfum lotið öðrum þjóðum, aðrar þjóðir hafa haft gríðarlegan efnahagslegan ávinning af íslenzkum auðlindum í aldir. Þær eru nú okkar og það er skylda okkar að verja þær.

Við erum ekki í þeirri stöðu að þurfa að ógna frelsi okkar og sjálfstæði.


mbl.is Þokumst nær samkomulagi við Breta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband