23.8.2007 | 17:36
Skakkt yfir gangbraut!
Man þegar ég var sendill í Þinginu, áður en ég fékk skellinöðruna, þá lét maður sig hafa að að hlaupa með sendingar milli húsa í miðbænum, enda voru flestar stofnanir staðsettar þar þá.
Eitt sinn var ég að hlaupa yfir Lækjargötuna til móts við Forsætisráðuneytið. Þegar ég kem yfir götuna flauta lögga í lögguflautuna og tekur mig. Ástæðan; Ég hljóp skakkt yfir gangbrautina! Og, ég var færður á Miðborgarlögreglustöðina!
Í þá daga var agi á miðbænum, enda nóg af löggum.
En auðvitað voru rónar. Man eftir mörgum andlitum. Þetta voru kyrrlátir karlar sem höfðu sig ekki mikið í frammi. Í andlitum þeirra mátti lesa ógæfu og erfitt líf.
Nú er rónunum kennt um slæmt ástand í miðbænum.
Ég tek ofan fyrir borgarstjóra og nýjum lögreglustjóra að taka fyrir mál ógæfufólks í miðborginni.
Hélt reyndar að þessi mál ættu sinn farveg í gegnum Félagsþjónustuna sem styður við þá ratað hafa í villu.
Hvort bjórinn er kaldur eða heitur í Ríkinu hefur hreint ekkert með málið að gera að mínu mati. Það sem ég hef séð til rónanna, þá drekka þeir hreinlega allt sem gefur áhrif.
Ég held að málið snúist frekar um bjórsölu í stykkjatali. Ef ég ætti pöbb í miðbænum þá væri ég mjög fúll, að það fyrirtæki, ÁTVR sem ég VERÐ að versla við er að selja bjór í stykkjatali í samkeppni við mig....
En að rónunum;
Sjáið þið fyrir ykkur tvo róna, annar býður hinum sopa af bjór og sá svarar að bragði; Er hann kaldur? Nei. Ok, þá vil ég ekki....
Rónar eru og verða í miðborg Reykjavíkur. Og oftar en ekki eru þeir til friðs. Auðvitað eru þeir misjafnt fólk eins og við hin. Sumir alltaf brosandi og aðrir drungalegir.
Held að hin raunverulega vá og skaði í miðbænum er vaxandi ofbeldi. Þar kemur til kasta
lögreglunnar að taka á málum. Fleiri myndavélar munu aldrei koma í stað fleiri lögreglumanna.
Held reyndar að yfirbygging Ríkislögreglustjóra sé vandamál sem þarf að skoða. Apparatið er kannski orðið svo dýrt að þeir eiga ekki efni á að halda úti almennilegu lögregluliði...
Aukinn fjöldi lögreglumanna í miðborginni er það eina sem bætt getur ástandið í miðbænum.
Borgarstjóri: Mín vegna má setja kælinn upp aftur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.